Á íslensku hefur skapast sú venja að kalla ríkið Bretland en stærstu eyjuna (meginland Englands, Skotlands og Wales) Stóra-Bretland. Hafa ber í huga að sú nafngift getur verið ruglandi þar sem ríkið Bretland nær einnig yfir Norður-Írland sem er á Írlandi. Stóra-Bretland er einungis notað um eyjuna, sem er stærsta eyja Bretlands (og Bretlandseyja allra).
Heiti Bretlands er dregið af latneska heitinu Britannia sem var rómverskt skattland frá 1. öld f.Kr. Elsta heimildin um eyjarnar er í riti eftir Pýþeas frá Massilíu sem nefnir eyjarnar Πρεττανική Prettanike.[1] Hugsanlega er það heiti dregið af keltnesku þjóðaheiti, en það er ekki víst. Britannia var ýmist notað yfir skattlandið sem náði að Forth-firði, eyjuna Stóra-Bretland eða Bretlandseyjar allar. Stundum var fleirtalan Britanniae notuð yfir eyjarnar allar. Stóra-Bretland (megale Britannia) og Litla-Bretland (mikra Britannia) koma fyrir í heimildum frá fornöld sem heiti á annars vegar Stóra-Bretlandi og hins vegar Írlandi.[2] Annað grískt-latneskt heiti yfir eyjuna var Albíon.[3]
Í engilsaxnesku var heitið Bryttania notað yfir eyjuna.[4] Þá var tekið að nota orðið yfir héraðið Armoríku í Frakklandi (Bretagne) og íbúa þess. Latneska heitið Britannia kom þannig aftur inn í ensku úr frönsku og Stóra-Bretland var notað til að greina það frá Litla-Bretlandi (Bretagne). Heitið var hins vegar ekki notað um neitt ríki til ársins 1707.
Þegar Konungsríkið England og Konungsríkið Skotland sameinuðust árið 1707 var tekið fram í Sambandslögunum 1707 að heiti nýja sameinaða konungsríkisins væri Stóra-Bretland (Great Britain). „Sameinaða konungsríkið“ var stundum notað sem lýsing á ríkinu. Þegar Írland var sameinað þessu ríki með Sambandslögunum 1800 varð heiti nýja ríkisins „Sameinað konungsríki Stóra-Bretlands og Írlands“ (The United Kingdom of Great Britain and Ireland). Þegar Írska fríríkið klauf sig frá þessu ríki árið 1922, en Norður-Írland kaus að vera áfram hluti af því, var nafni ríkisins breytt í „Sameinað konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands“. Þetta heiti er oft stytt í „Sameinaða konungsríkið“ (United Kingdom, skammstafað UK). Heitið Bretland er líka oft notað á ensku sem samheiti fyrir bæði ríkið[5][6] og eyjuna Stóra-Bretland.[7][6] Í flestum öðrum tungumálum er ríkjaheitið þýðing á stytta heitinu „Sameinaða konungsríkið“. Á íslensku er Bretland notað sem ríkjaheiti[8] meðan Stóra-Bretland er heiti á eyjunni,[9] en í flestum hinum Norðurlandamálunum er ríkjaheitið dregið af Stóra-Bretlandi. Í sumum tungumálum er ríkjaheitið dregið af Englandi.
Á 18. öld var Bretland leiðandi í mótun vestrænna hugmynda á borð við stjórnskipan byggða á þingræði, en landið lagði einnig mikið af mörkum í bókmenntum, listum og vísindum.[16]Iðnbyltingin hófst í Bretlandi, umbreytti landinu í efnahagslegt stórveldi og hraðaði mjög vexti breska heimsveldisins. Líkt og önnur nýlenduveldi Evrópu var Bretland viðriðið ýmiss konar kúgun á fjarlægum þjóðum, þar á meðal nauðungarflutninga á afrískum þrælum til nýlendnanna í Ameríku. Bretland tók þó afstöðu gegn þrælaverslun með lögum, settum 1807, fyrst stórþjóða.
Bretland var í liði bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir ósigra bandamanna á meginlandi Evrópu á fyrsta ári stríðsins háði Bretland miklar loftorrustur við Þjóðverja sem þekktar urðu sem bardaginn um Bretland. Í kjölfar sigurs bandamanna var Bretland eitt af þeim þremur stórveldum sem mest höfðu að segja um gerbreytta skipan heimsmála eftir stríðið. Fjárhagur landsins var þó illa farinn eftir stríðið, en Marshalláætlunin og rífleg lán frá Bandaríkjunum og Kanada hjálpuðu til við endurbygginguna.
Eftir stríðið var lögð áhersla á uppbyggingu velferðarkerfisins í Bretlandi og stofnuð var ríkisrekin heilbrigðisþjónusta sem allir landsmenn skyldu hafa aðgang að. Þá hófst einnig aðflutningur fólks til Bretlands víða að úr fyrrum nýlendum breska heimsveldisins, sem gert hefur Bretland að fjölmenningarlegu samfélagi. Útbreiðsla ensku um allan heim hefur viðhaldið áhrifum bókmennta- og menningararfs landsins en poppmenning frá Bretlandi hefur einnig haft áhrif út um allan heim, sérstaklega á sjöunda áratug 20. aldar. Áherslur í breskum stjórnmálum breyttust talsvert með valdatöku Margrétar Thatcher árið 1979 þar sem reynt var að auka frjálsræði í viðskiptum og draga úr vægi ríkisvaldsins. Þær áherslur héldu að mestu áfram undir forystu Tony Blair frá og með 1997.
Heildarflatarmál Bretlands er um það bil 245.000 ferkílómetrar og nær yfir eyjuna Stóra-Bretland, Norður-Írland og minni eyjar. Bretland er á milli Norður-Atlantshafsins og Norðursjávar og er, þar sem styst er yfir, 35 km norður af strönd Frakklands. Ermarsund aðskilur löndin tvö. Stóra-Bretland liggur á milli breiddargráðanna 49° og 59° N (Hjaltland nær norður á 61° N) og lengdargráðanna 8° V til 2° A. Stjörnuathugunarstöðin í Greenwich í London er miðstöð Greenwich-núllbaugsins. Frá norðri til suðurs er Stóra-Bretland rétt rúmir 1.100 km að lengd á milli Land’s End í Cornwall og John o’ Groats í Caithness. Norður-Írland á landamæri að Írlandi sem eru 360 km að lengd.
Loftslag á Bretlandi er milt og úrkoma næg. Hitastig er breytilegt en fer sjaldan niður fyrir –10 °C eða upp fyrir 35 °C. Aðalvindátt er úr suðvestri og ber með sér milt og vott veðurfar. Svæði í austri eru í skjóli fyrirþessum vindi og þess vegna þau þurrustu. Straumar frá Atlantshafinu, sérstaklega Golfstraumurinn, gera vetur milda, sérstaklega í vesturhluta landsins þar sem vetur eru votviðrasamir. Sumarið er heitast í suðausturhluta landsins, sem er næst meginlandi Evrópu, og kaldast í norðri.
Skotland nær yfir um það bil þriðjung flatarmáls Bretlands og er 78.772 km2 að stærð, að meðtöldum tæplega átta hundruð eyjum sem aðallega liggja vestur og norður af meginlandinu. Aðaleyjaklasarnir eru Suðureyjar, Orkneyjar og Hjaltland. Skotland er mishæðótt og hálent. Þar er stórt misgengi sem nær frá Helensburgh til Stonehaven. Misgengið aðskilur tvö mjög ólík svæði: Hálöndin í norðri og vestri og Undirlendið í suðri og austri. Ben Nevis er hæsta fjall Skotlands og hæsti punktur á Bretlandi, 1.343 m á hæð. Á láglendissvæðunum, sérstaklega á milli Firth of Clyde og Firth of Forth er víða sléttlendi og þar býr meirihluti Skota. Þar eru stórar borgir eins og Glasgow og Edinborg.
Wales nær yfir tæpan tíunda hluta Bretlands og er 20.758 km2 að stærð. Wales er að mestu fjallaland enda þótt fjalllendi sé ekki eins mikið í Suður-Wales og Norður-Wales. Þéttbýlis- og iðnaðarsvæði eru flest í suðri og má þar nefna Cardiff (höfuðborg Wales), Swansea og Newport. Hæstu fjöll Wales eru í Snowdonia, þ.m.t. Snowdon (velska: Yr Wyddfa) sem er 1.085 m á hæð og hæsti fjallstindur í Wales. Í Wales eru 14 eða 15 fjöll talin ná yfir 3.000 feta (910 m) hæð. Strandlína Wales er yfir 1.200 km að lengd. Nokkrar eyjar eru við strönd Wales og er Anglesey (Ynys Môn) í norðvestri stærst þeirra.
Norður-Írland nær yfir aðeins 14.160 km2 og er aðallega hæðótt land. Lough Neagh, stærsta vatn á Bretlandi og Írlandi (388 km2 að flatarmáli) er á Norður-Írlandi. Hæsti fjallstindurinn á Norður-Írlandi er Slieve Donard, 849 m.
Stjórnsýslueiningar
Nokkur ólík stjórnsýslueiningakerfi eru í notkun á Bretlandi og getur verið breytilegt til hvers þeirra er vísað. Bretland skiptist í fjögur lönd sem tilheyra einu ríki: England, Norður-Írland, Skotland og Wales. Hvert þessara landa notar sitt eigin stórnsýslueiningakerfi. Þessar stjórnsýslueiningar eiga oft rætur að rekja til kerfa sem í notkun voru fyrir sameiningu Bretlands. Þess vegna er ekki til eitt staðlað kerfi sem er notað um land allt. Fram að 19. öld breyttust þessi kerfi lítið, en frá þeim tíma hafa orðið nokkrar breytingar. Þessar breytingar voru ekki þær sömu í öllum löndunum og vegna þess að meira vald hefur verið afhent heimastjórnum Skotlands, Norður-Írlands og Wales eru ekki líkur til að svo verði í framtíðinni.
Forsætisráðherra Bretlands er sá maður sem leiðir meirihlutann í House of Commons, yfirleitt formaður stærsta stjórnmálaflokksins í deildinni. Einvaldurinn og forsætisráðherrann skipa ríkisstjórn landsins formlega enda þótt forsætisráðherrann velji í raun ríkisstjórn sína og einvaldurinn samþykki það val. Núverandi forsætisráðherra er The Rt HonKeir Starmer MP. Hann tók við embætti þann 5. júlí2024.
Í almennum þingkosningum er Bretlandi skipt í 646 kjördæmi. Þar af eru 529 á Englandi, 18 á Norður-Írlandi, 49 á Skotlandi og 40 í Wales. Ákveðið hefur verið að fjölga kjördæmum þannig að í næstu kosningum verða þau 650. Hvert kjördæmi kýs einn þingmann með meirihluta atkvæða. Einvaldurinn boðar til almennra kosninga þegar forsætisráðherra ráðleggur svo. Engin lágmarkslengd kjörtímabils er skilgreind en samkvæmt Parliament Act 1911 þarf að halda almennar kosningar á fimm ára fresti.
Segja má að hagkerfi Bretlands sé sett saman úr fjórum hagkerfum (í réttri stærðarröð), Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands. Samanlagt er hagkerfi Bretlands það sjötta stærsta í heimi og það þriðja stærsta í Evrópu, á eftir Þýskalandi og Frakklandi.
Iðnbyltingin hófst í Bretlandi og snerist í fyrstu um þungaiðnað eins og skipasmíðar, kolanám úr jörðu,stálframleiðslu og vefnað. Heimsveldið bjó til erlenda markaði fyrir breskar vörur og gerði Bretlandi kleift að drottna yfir milliríkjaviðskiptum á 19. öldinni. Með iðnvæðingu annarra landa dró úr yfirburðum Bretlands og ennfremur gerðu heimsstyrjaldirnar tvær þeim erfitt fyrir. Iðnaði á Bretlandi hnignaði verulega á 20. öldinni. Framleiðsla er enn í dag mikilvæg fyrir hagkerfið en aflaði einungis sjöttungs tekna þess árið 2003. Breski bílaiðnaðurinn er mikilvægur hluti bresks iðnaðs en honum hefur líka hnignað mjög, ekki síst með hruni MG Rover Group. Megnið af þessum iðnaði er nú í eigu erlendra fyrirtækja. BAE Systems sem framleiðir flugvélar, meðal annars til hernaðar, er stærsti varnarmálaverktaki Evrópu. Rolls-Royce er mikilvægur framleiðandi geimferðatækni. Efna- og lyfjaiðnaður er öflugur á Bretlandi. Lyfjafyrirtækin GlaxoSmithKline og AstraZeneca hafa höfuðstöðvar sínar í landinu.
Þjónustugeirinn á Bretlandi hefur stækkað mjög og er nú 73% af landsframleiðslu. Þar er fjármálaþjónusta yfirgnæfandi, sérstaklega í bankarekstri og vátryggingum. London er stærsta fjármálamiðstöð í heimi; kauphöllin í London, London International Financial Futures and Options Exchange og vátryggingamarkaður Lloyd's of London eru öll í Lundúnaborg. London er aðalmiðstöð alþjóðaviðskipta og er ein af þremur miðstöðvum alþjóðahagkerfisins (ásamt New York og Tokyo). Stærsta samsöfnun erlendra banka í heimi er í London. Á síðasta áratug hefur ný fjármálamiðstöð verið byggð upp á Docklands-svæðinu í Austur-London. HSBC, stærsti banki í heimi, og Barclays Bank hafa höfuðstöðvar þar. Mörg fyrirtæki sem eiga viðskipti við Evrópu hafa höfuðstöðvar sínar í London. Til dæmis er bandaríski bankinn Citibank með Evrópuaðalstöðvar sínar í London. Höfuðborg Skotlands, Edinborg, er ein stærstu fjármálamiðstöðva í Evrópu. Höfuðstöðvar Royal Bank of Scotland, eins stærsta banka í heimi, eru þar.
Ferðaþjónusta er stór atvinnugrein á Bretlandi. Frá og með árinu 2004 hafa um 27 milljónir ferðamanna komið þangað árlega. Bretland er sjötti mesta ferðamannaland heimsins.[20] London var mest heimsótta borg í heimi árið 2006, með 15,6 milljónir ferðamanna. Í öðru sæti var þá Bangkok með 10,4 milljónir ferðamanna og í þriðja sæti París með 9,7 milljónir ferðamanna árið 2006.[21]
Samkvæmt manntali árið 2001 var íbúafjöldi Bretlands 58.789.194. Þá var ríkið með þriðja mesta mannfjölda í Evrópu, fimmta mesta í Breska samveldinu og hið tuttugasta og fyrsta fjölmennasta í heimi. Á miðju ári 2007 var mannfjöldinn kominn í um það bil 61 milljón.[24] Mannfjöldi á Bretlandi eykst einkum í dag vegna aðflutnings fólks en fæðingartala og lífslíkur eru líka að hækka.[25] Samkvæmt greiningu á mannfjölda árið 2007 gerðist það í fyrsta sinn þá að ellilífeyrisþegar voru fleiri en börn undir 16 ára aldri.[26]
Árið 2007 var mannfjöldi Englands um það bil 51,1 milljónir.[27] Það er eitt af þéttbýlustu löndum í heimi með 383 manns á ferkílómetra (árið 2003).[28] Stærstur hluti þess fjölda býr í London og á Suðaustur-Englandi. Á sama tíma var fólksfjöldi Skotlands um það bil 5,1 milljónir, Wales 3 milljónir og Norður-Írlands 1,8 milljónir. Öll eru þessi lönd mun strjálbýlli en England. Íbúaþéttleiki Wales, Norður-Írlands og Skotlands var 142/km2, 125/km2 og 65/km2 í þessari röð.[28]
Ekkert tungumál hefur stöðu opinbers tungumáls á Bretlandi en helsta talaða málið er enska, sem er vesturgermanskt tungumál sem á rætur að rekja til fornensku. Í ensku eru mörg tökuorð úr öðrum málum, aðallega fornnorrænu, normanskri frönsku og latínu. Útbreiðslu ensku í dag má að mestu rekja til umsvifa Breska heimsveldisins. Hún er orðin alþjóðlegt viðskiptatungumál og er nú algengasta tungumálið til að kunna sem annað tungumál.[29]
Skoska er tungumál sem rekja má til miðensku er talað í Skotlandi. Til er mállýska skosku sem töluð er í norðursýslum á Írlandi.[30] Einnig eru töluð fjögur keltnesk tungumál á Bretlandi: velska, írska, gelíska og kornbreska. Samkvæmt manntalinu 2001 sagðist rúmlega fimmtungur (21%) Walesbúa geta talað velsku sem er aukning miðuð við manntalið 1991 (18%).[31][32] Auk þess er talið að 200.000 manns, sem séu mælandi á velsku, búi í Englandi.[33]
Samkvæmt manntalinu 2001 í Norður-Írlandi gátu 167.487 (10,4%) manns talað svolitla írsku. Þeir voru því sem næst allir kaþólikkar. Yfir 92.000 manns í Skotlandi (tæplega 2% af mannfjöldanum) sögðust kunna svolítið í gelísku, þar af 72% íbúa á Suðureyjum.[34] Fjöldi skólabarna sem læra velsku, gelísku og írsku fer vaxandi.[35] Velska og gelíska er einnig talaðar í nokkrum öðrum löndum, til dæmis tala sumir gelísku í Nýja-Skotlandi í Kanada og aðrir velsku í Patagóníu í Argentínu.
Um allt Bretland er skólabörnum venjulega skylt að læra annað tungumál: í Englandi til 14 ára og í Skotlandi 16 ára. Helstu tungumálin sem kennd eru í þessu skyni í Englandi og Skotlandi eru franska og þýska. Öllum skólabörnum í Wales er kennd velska — sem fyrsta eða annað tungumál — til 16 ára aldurs.[36]
Flutningur
Bretland er ólíkt sumum öðrum evrópskum löndum að því leyti að mannfjöldi þess fer enn vaxandi vegna aðflutnings fólks.[37] Aðflutningur stóð undir helmingi mannfjölgunar frá 1991 til 2001. Borgarar frá Evrópusambandinu hafa rétt til að búa og vinna á Bretlandi.[38] Sjöttungur innflytjenda var frá löndum sem fengu inngöngu í ESB árið 2004. Einnig komu margir frá löndum í Samveldinu.[39] Samkvæmt opinberum tölum hafa 2,3 milljónir innflytjenda flutt til Englands síðan 1997, 84% frá löndum utan Evrópu.[40] Sjö milljónir nýrra innflytjenda eru væntanlegar fyrir 2031. Árið 2007 voru innflytjendur 237.000 sem var aukning frá árinu áður þegar 191.000 manns fluttu til Englands. Jafnframt búa 5,5 milljónir Breta erlendis, aðallega í Ástralíu, á Spáni og í Frakklandi.[41]
Árið 2006 sóttu 149.035 manns um breskt ríkisfang og 154.095 manns fengu það. Fólkið sem fékk ríkisfang var aðallega frá Indlandi, Pakistan, Sómalíu og Filippseyjum.[42] Sama ár fæddu mæður fæddar utan Bretlands 21,9% barna sem fæddust á Englandi og í Wales (þ.e. 146.956 af 669.601 börnum).[43]
Milli áranna 2004 og 2009 fluttu til Bretlands 1,5 milljón manns frá löndum sem voru nýkomin í ESB. Tveir þriðju af þessum innflytjendum voru frá Póllandi, en margir eru farnir aftur heim.[44][45] Vegna samdráttar á Bretlandi á seinni árum hefur ekki verið eins mikil hvatning fyrir Pólverja að koma til Bretlands.
Síðar kynnti breska ríkisstjórnin til sögunnar nýtt flutningskerfi fyrir þá sem koma frá löndum utan EES. Í júní 2010 setti ný ríkisstjórn þak á fjölda slíkra innflytjenda við 24.100, og nýtt hámark var svo kynnt í apríl 2011.[46]
Þjóðarbrot
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: tölur frá 2004
Saga fólksflutninga til Bretlands er löng, elsta samfélag blökkumanna þar í landi er í Liverpool, frá árinu 1730.[48] Elsta samfélag Kínverja í Evrópu er í Bretlandi, og hófst það með komu sjómanna frá Kína á 19. öld.[49]
Annar (með Austur-Asískum, Asískum, Arabískum, Latnesk-Amerísk og þeim frá Eyjaálfu)
230.615
0,4%
*Prósenta af breskum mannfjölda
Borgir og þéttbýli
Höfuðborgir landanna á Bretlandi eru: Belfast (Norður-Írlandi), Cardiff (Wales), Edinborg (Skotlandi) og London (Englandi). London er líka höfuðborg alls Bretlands.
Löndin fjögur sem tilheyra Bretlandi hafa hvert sitt menntakerfi. Á Englandi ber menntamálaráðherra Englands ábyrgð á menntun en sveitarstjórnir sjá um daglega stjórn menntakerfisins. Menntun fyrir alla var tekin upp í Englandi og Wales árið 1870 á barnaskólastigi og árið 1900 á gagnfræðaskólastigi.[51] Skólaskylda barna hefst við 5 ára aldur lýkur við 16 ára aldurinn (15 ára ef barnið fæddist í lok júlí eða ágúst). Meginhluti barna er menntaður í ríkisskólum. Nokkrir ríkísskólar hafa sérstakar inngangskröfur og þeim sem er leyft að velja nemendur samkvæmt vitneskju og námsgetu eru sambærilegir við einkaskóla. Meðal tíu bestu skóla landsins árið 2006 voru tveir ríkisskólar. Þó að dregið hafi úr fjölda skólabarna í einkaskólum hefur hlutfall barna í þeim hækkað, það stendur nú í 7%.[52] Þrátt fyrir að það hlutfall sé ekki hærra er yfir helmingur nemanda í Cambridge- og Oxford-háskólunum menntaður í einkaskólum. Háskólar í Englandi eru meðal þeirra bestu í heimi, Cambridge-háskóli, Oxford-háskóli, Imperial College London og University College London eru meðal 10 bestu háskóla heims í lista dagblaðsins The Times árið 2008.[53] Enskir nemendur eru taldir þeir sjöundu bestu í stærðfræði og sjöttu bestu í vísindum í heimi, skora þar hærra en nemendur í Þýskalandi og Skandinavíu.[54]
Í Skotlandi ber menntamálaráðherra Skotlands ábyrgð á menntun en sveitarstjórnir sjá um daglega stjórn menntakerfisins. Skyldumenntun var tekin upp í Skotlandi árið 1496.[55] Hlutfall barna í einkaskólum í Skotlandi er rúmlega 4%, en hefur farið sívaxandi undanfarin ár.[56] Skoskir nemendur sem fara í háskóla í Skotlandi eiga ekki að borga námskostnað né önnur gjöld, ólíkt nemendum frá öðrum löndum í Bretlandi.[57]
Bresk menning hefur orðið fyrir margvíslegum áhrifum en hún hefur líka haft töluverð áhrif á menningu annarra landa, m.a. Ástralíu, Bandaríkjanna, Kanada, Indlands og Suður-Afríku. Stór áhrifaþáttur í mótun breskrar menningar er staða landsins sem vestræns frjálslynds lýðræðisríkis og stórveldis á heimsvísu; auk þess að vera samsett ríki fjögurra landa sem hvert hefur sínar eigin hefðir, siði og þjóðartákn. Áhrif breskrar menningar eru greinileg í fyrrum nýlendum breska heimsveldisins: í tungumáli, menningu og lagakerfinu; sérstaklega hjá enskumælandi löndunum Ástralíu, Kanada, Nýja-Sjáland og Írlandi.[59] Sagnfræðingurinn Paul Johnson hefur kallað tengsl Bretlands og Bandaríkjanna hornstein lýðræðislegrar heimsskipunar í nútímanum.[60] Bretlandi hefur verið lýst sem menningarlegu risaveldi vegna þessara hnattrænu áhrifa.[61][62] Samkvæmt alþjóðlegri skoðanakönnun sem BBC stóð fyrir var Bretland það land sem fólk var jákvæðast gagnvart (á eftir Þýskalandi og Kanada) árin 2013 og 2014.[63][64]
Breskir fjölmiðlar og breskur afþreyingariðnaður hafa haft mikil áhrif á heimsvísu. Dagblöð á borð við The Times og The Daily Telegraph voru lengi lesin um allan heim, og bresku sjónvarpsstöðvarnar BBC og ITV hafa verið leiðandi í framleiðslu fréttaefnis og afþreyingar.
Margar áhrifamiklar kvikmyndir hafa verið gerðar í Bretlandi og spyrja má hversu mikil áhrif þær hafi haft í Evrópu og Bandaríkjunum. Margar breskar kvikmyndir eru gerðar í samráði við bandaríska framleiðendur með bæði breskum og bandarískum leikurum. Breskir leikarar birtast oft í aðalhlutverkum í Hollywood-kvikmyndum. Margar farsælar Hollywood-kvikmyndir snúast um fræga Breta eða breska atburði, meðal annars Titanic, The Lord of the Rings og Pirates of the Caribbean. Veruleg áhrif Breta sjást líka í Disney-kvikmyndunumAlice in Wonderland, Robin Hood og One Hundred and One Dalmatians. Árið 2009 tóku breskar kvikmyndir inn um 2 milljarða bandaríkjadala í heildartekjur um allan heim (um 7% markaðshlutdeild um allan heim og 17% á Bretlandi).[78] Breskar kvikmyndir tóku inn um 944 milljónir punda í aðgöngumiðasölu sama ár, en það eru um það bil 173 milljónir miða.[78]Kvikmyndastofnun Bretlands (e. British Film Institute) hefur búið til lista yfir 100 bestu bresku kvikmyndir allra tíma sem heitir BFI 100.[79]
„Breskar bókmenntir“ kallast þau ritverk sem tengjast Bretlandi, Mön, Ermarsundseyjum og ritverk sem skrifuð voru fyrir sameiningu Bretlands. Flest bresk ritverk eru skrifuð á ensku. Á Bretlandi eru gefnir út 206.000 bókatitlar hvert ár og er það meira en í nokkru öðru landi.
Elsta kvæði frá því landsvæði sem nú er kallað Skotland, Y Gododdin, var ort á fornvelsku seint á 6. öld og í því er elsta þekkt tilvísun til Artúrs konungs. Dafydd ap Gwilym er talinn eitt besta velska skáld allra tíma. Vegna þess að velska var aðaltungumál Wales fram að 18. öld eru mörg velsk bókmenntaverk rituð á því tungumáli. Daniel Owen er talinn vera fyrsti velski skáldsagnahöfundurinn, en hann gaf út skáldsöguna Rhys Lewis árið 1885. Á 20. öld urðu R. S. Thomas og Dylan Thomas kunnir fyrir skáldskap sinn á ensku. Meðal mikilhæfra velskra skáldsagnahöfunda má telja Richard Llewellyn og Kate Roberts.
Aðalsjónvarpsstöðvar í Bretlandi eru fimm: BBC One, BBC Two, ITV, Channel 4 og Five. Sem stendur útvarpa þessar stöðvar bæði í flaumrænum og stafrænum merkjum. Tvær þær fyrstnefndu eru auglýsingalausar og fjármagnaðar með leyfisgjaldi, hinar útvarpa auglýsingum. Í Wales sendir S4C út í staðinn fyrir Channel 4 og er sú útsending aðallega á velsku. Í Bretlandi eru, auk þessara, margar stafrænar sjónvarpsstöðvar. Meðal þeirra eru sex hjá BBC, fimm hjá ITV, þrjár hjá Channel 4 og ein hjá S4C sem sendir aðeins út á velsku. Kapalsjónvarpsþjónusta er m.a. í boði hjá fyrirtækinu Virgin Media og gervihnattasjónvarp hjá Freesat eða British Sky Broadcasting. Einnig er rekin ókeypis stafrænt jarðstöðvasjónvarp að nafni Freeview. Áætlað er að slökkva á flaumrænu sjónvarpi fyrir 2012.
Fyrirtækið BBC sem stofnað var árið 1922 er fjármagnað af rikinu og rekur útvarps,- sjónvarps- og Internetsþjónustur. BBC er elsta og stærsta útsendingafyrirtæki í heimi.[82][83] Fyrirtækið sendir út á nokkrum sjónvarps- og útvarpsrásum bæði í Bretlandi og erlendis. BBC World News er alþjóðleg fréttastöð fyrirtækisins og BBC World Service er alþjóðleg útvarpsstöð sem sendir út á 31 tungumáli. BBC Radio Cymru er velsk útvarpsstöð BBC og BBC Radio nan Gàidheal gelísk útgáfa þess.
BBC Radio er helsta útvarpsstöð Bretlands og sendir út á tíu rásum um landið allt og hefur 40 svæðisbundnar stöðvar. BBC Radio 1 fylgir á eftir BBC Radio 2 sem vinsælasta útvarpsstöðin. Á Bretlandi eru margar þjóðlegar og staðbundnar útvarpsstöðvar sem fjármagna sig með auglýsingum.
Hefðbundið er að tala um tvær aðaltegundir dagblaða á Bretlandi: svokölluðu „gæðablöð“ (e. quality newspapers eða broadsheets) og „slúðurblöðin“ (e. tabloids). Upprunalega voru gæðablöð prentuð í stærra broti en slúðurblöðin en til þess að gera þægilegra að lesa þau eru mörg gæðisblöð nú prentuð í minna broti (áður notuðu einungis slúðurblöðin þá pappírsstærð). The Sun er mest lesna dagblað Bretlands, með 3,1 milljónir lesenda (um fjórðung markaðshlutdeildarinnar).[84] Systurblað þess News of the World var mest lesna sunnudagsblaðið, uns útgáfu var hætt árið 2011 eftir að upp komst um símhleranir á vegum þess.[84] Af gæðablöðunum er The Daily Telegraph hægrisinnað og The Guardian vinstrisinnað. Financial Times er aðalviðskiptablaðið á Bretlandi, vel þekkt fyrir það að það er prentað á bleikan pappír.
Nokkrar borgir á Bretlandi eru þekktar fyrir tónlistarlíf sitt. Flytjendum frá Liverpool hefur gengið best, með 54 smáskífar í efsta sæti topplistans, fleiri en nokkur önnur borg í heimi.[93] Nokkrir þekktir flytjendur hafa líka komið frá Glasgow, sem eitt sinn var útnefnd „Tónlistarborg“ UNESCO.[94]
Öll löndin sem tilheyra Bretlandi hafa eigin meistarakeppni, landslið og deild í knattspyrnu. Vegna þess að England, Skotland, Wales og Norður-Írland keppa alþjóðlega sem sérstök lið koma þau lið fram hvert fyrir sig þegar Bretland tekur þátt í knattspyrnuviðburðum Ólympíuleikanna. Lagt var til að eitt lið keppti fyrir hönd Bretlands á Sumarólympíuleikunum 2012, en skosku, velsku og norður-írsku meistaradeildirnar höfnuðu því. England hefur oftast átt besta knattspyrnuliðið af hinum svokölluðu „Home Nations“ og varð heimsmeistari í knattspyrnu árið 1966 þegar heimsmeistarakeppnin var haldin þar. Venjulega hefur verið mikil keppni á milli Englands og Skotlands í knattspyrnu.
Talið er að krikket hafi verið fundið upp á Englandi og í enska landsliðinu eru krikketleikarar frá sýsluliðum þar og í Wales. Ólíkt ruðningi og knattspyrnu þar sem England og Wales tefla hvort fram sínu liði, keppir aðeins eitt krikketlið fyrir hönd beggja landanna. Skotland, England (með Wales) og Írland (með Norður-Írlandi) hafa öll keppt í Heimsmeistarakeppninni í krikketi. Á Bretlandi er meistaradeild í krikketi þar sem lið frá 17 sýslum á Englandi og einni í Wales keppa við hvert annað.
Ruðningur er vinsæl íþrótt í sumum hlutum Bretlands. Hann á rætur að rekja til bæjarins Huddersfield og er aðallega leikinn í Norður-Englandi. Tennis á líka rætur að rekja til Norður-Englands, sú íþrótt var fundin upp í Birmingham á árunum 1859 til 1865. Wimbledon-mótið í tennis er haldið árlega í Wimbledon í London. Snóker er meðal vinsælla íþrótta sem upprunnar eru í Bretlandi og hvert ár er haldin meistarakeppni í Sheffield. Golf á rætur að rekja til Skotlands og er sjötta vinsælasta íþróttin á Bretlandi. Kappakstur er líka vinsæll og tekið er þátt í Formúlu 1. Ekkert annað land hefur unnið eins marga titla í Formúlu 1 og Bretland. Fyrsta keppnin í Formúlu 1 var haldin á Bretlandi í Silverstone árið 1950.