„Ólympíuleikarnir“ vísar hingað. Ólympíuleikarnir fornu fjalla um Ólympíuleikana í Grikklandi fornaldar og Ólympíuleikar Zappas fjalla um fyrstu endurreistu Ólympíuleikana á 19. öld.
Ólympíuleikarnir eru stórt alþjóðlegt fjölíþróttamót sem haldið er á tveggja ára fresti og skiptist í Sumarólympíuleikana og Vetrarólympíuleikana þar sem keppt er í vetraríþróttum. Ólympíuleikarnir eru eitt stærsta íþróttamót heims þar sem þúsundir íþróttamanna frá yfir 200 löndum taka þátt.[1] Ólympíuleikarnir eru byggðir á Ólympíuleikunum fornu sem haldnir voru í Grikklandi í fornöld frá 8. öld f.Kr. til 4. aldar. Pierre de Coubertin endurvakti leikana og stofnaði Alþjóðaólympíunefndina árið 1894. Fyrstu Sumarólympíuleikarnir voru haldnir árið 1896 í Aþenu og fyrstu Vetrarólympíuleikarnir árið 1924 í Chamonix í Frakklandi. Upphaflega voru þessi tvö mót haldin á sama ári, en frá 1994 er tveggja ára bil á milli þeirra. Alþjóðaólympíunefndin er æðsta ráð ólympíuhreyfingarinnar og skilgreinir uppbyggingu hennar og starfsemi.
Þátttaka í leikunum hefur farið vaxandi og nú er nærri því hvert einasta land heims með þátttakendur. Þessi mikli vöxtur hefur verið áskorun og leitt til deilna, þar á meðal sniðgöngu, misnotkunar frammistöðulyfja, múta og einnar hryðjuverkaárásar. Á tveggja ára fresti gefa Ólympíuleikarnir íþróttafólki möguleika á að ná alþjóðlegri frægð og frama í sinni grein. Leikarnir eru líka tækifæri fyrir gestgjafa hverju sinni til að vekja athygli á sjálfum sér gagnvart heiminum.
Markaðsvæðing
Markaðssetning hefur verið hluti af Ólympíuleikunum að meira eða minna leyti frá fyrstu leikunum 1896 í Aþenu, þar sem nokkur fyrirtæki greiddu fyrir auglýsingar,[5] þar á meðal fyrirtækið Kodak.[6][7] Árið 1908 gerðust Oxo, Odol og Indian Foot Powder opinberir styrktaraðilar sumarólympíuleikanna í London.[8][9][10]Coca-Cola gerðist styrktaraðili sumarólympíuleikanna 1928 og hefur styrkt leikana síðan.[5] Áður en Alþjóðaólympíunefndin tók yfir alla styrktarsamninga sáu landsnefndirnar um að semja við styrktaraðila um fjármögnun og notkun ólympíumerkisins.[11]
Í byrjun var Alþjóðaólympíunefndin andsnúin styrktarsamningum við einkafyrirtæki. Það var ekki fyrr en eftir að Avery Brundage hætti sem nefndarforseti árið 1972 að nefndin tók að skoða möguleikann á stórum styrktarsamningum í tengslum við sjónvarpsútsendingar frá leikunum.[11] Undir stjórn Juan Antonio Samaranch tók alþjóðanefndin að gera samninga við stór alþjóðleg fyrirtæki sem vildu tengja vörur sínar við leikana.[12]
Fjármögnun
Á fyrri helmingi 20. aldar var Alþjóðaólympíunefndin rekin fyrir lítið fé.[12][13] Avery Brundage var nefndarforseti frá 1952 til 1972 og hafnaði öllum tilraunum til að tengja leikana við viðskiptahagsmuni af nokkru tagi.[11] Brundage taldi að slík tengsl gætu haft óheppileg áhrif á ákvarðanatöku nefndarinnar.[11] Andstaða hans þýddi að landsnefndirnar sáu sjálfar um styrktarsamninga og notkun á merkjum Ólympíuleikanna.[11] Þegar hann dró sig í hlé voru eignir alþjóðanefndarinnar metnar á 2 milljónir dala. Átta árum síðar höfðu þessar eignir vaxið í 45 milljónir.[11] Ástæðan var fyrst og fremst breyting á afstöðu nefndarinnar til styrktarsamninga og sölu á útsendingarrétti.[11] Þegar Juan Antonio Samaranch var kjörinn forseti nefndarinnar árið 1980 var það stefna hans að nefndin yrði fjárhagslega sjálfstæð.[13]
Sumarólympíuleikarnir 1984 mörkuðu þáttaskil í sögu Ólympíuleikanna. Skipulagsnefndin í Los Angeles, undir stjórn Peter Ueberroth, náði að skila 225 milljón dala hagnaði, sem var metupphæð á þeim tíma.[14] Skipulagsnefndinni tókst þetta meðal annars með sölu einkaréttarsamninga til valdra fyrirtækja.[14] Alþjóðanefndin reyndi í kjölfarið að taka þessa styrktarsamninga yfir. Samaranch stofnaði The Olympic Program (TOP) árið 1985 til að skapa alþjóðlegt vörumerki í kringum leikana.[12] Aðild að TOP var, og er, mjög dýr og eftirsótt. Fjögurra ára aðild kostaði 50 milljónir dala.[13] Meðlimir TOP fengu einkarétt á auglýsingum um allan heim í sínum vöruflokki, og leyfi til að nota ólympíumerkið, ólympíuhringina, í auglýsingum og annarri útgáfu.[15]
Konur á Ólympíuleikum
Á fyrstu Ólympíuleikunum, árið 1896, fengu konur ekki að taka þátt. Þegar leikarnir voru stofnaðir sagði Pierre de Coubertin frá skoðun sinni sem var sú að Ólympíuleikar með konum myndu vera „ópraktískir, óáhugaverðir, ósmekklegir og ósæmilegir.“[16] Hann sagði einnig að Ólympíuleikarnir hefðu verið stofnaðir til fyrir „hátíðlega og reglubundna upphafningu karlkyns íþróttamennsku“ og með aðdáun kvenna sem verðlaun.[17] Skoðun Coubertin var mjög algeng meðal karla á þessum tíma því það þótti ekki við hæfi að konur stunduðu íþróttir. Meðal annars var talið að kvenlíkaminn þyldi ekki álagið sem fylgdi íþróttaiðkun.
Árið 1900 voru þó 22 konur sem fengu að taka þátt á leikunum í París en þær fengu aðeins að keppa í 5 íþróttum; tennis, siglingum, krokket, hestamennsku og golfi.
Árið 1948 tóku íslenskar íþróttakonur þátt á Ólympíuleikum í fyrsta sinn, þær Anna Ólafsdóttir, Kolbrún Ólafsdóttir og Þórdís Árnadóttir. Þær kepptu allar í 200 m bringusundi en ekki var skráð hvernig þeim gekk í keppninni. Engin kona íslensk kona keppti á Ólympíuleikum fyrr en í Róm 12 árum seinna þegar Ágústa Þorsteinsdóttir keppti í 100 m skriðsundi.[18]
Árið 2000 náði Vala Flosadóttir 3. sæti í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney þar sem hæsta stökk hennar var 4,5 metrar, sem var einnig Íslands- og Norðurlandamet. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum.[19]