Þrátt fyrir ýmis vandræði töldust leikarnir hafa heppnast vel og voru stærsta alþjóðlega fjölgreinakeppnin sem haldin hafði verið fram að þeim tíma. Íþróttamenn frá fjórtán löndum tóku þátt að talið er. Flestir þeirra voru tilfallandi í Aþenu á þeim tíma en voru ekki sendir þangað af samtökum í heimalöndum sínum. Hugmyndin um landslið varð ekki mikilvæg fyrr en síðar og blönduð lið tóku þátt í liðakeppnum á leikunum. Sigurvegarar í hverri grein fengu verðlaunapening úr silfri og ólífugrein. Konum var meinuð þátttaka á leikunum.
Keppnisgreinar
Keppt var í 43 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.
Bandaríkjamaðurinn James Connolly var fyrsti gullverðlaunahafi leikanna þegar hann sigraði í þrístökki. Hann varð síðar afkastamikill rithöfundur.
Robert Garrett, nemandi við Princeton-háskóla sigraði í kúluvarpi og kringlukasti. Sigur hans í síðarnefndu greininni olli miklu uppnámi í Grikklandi þar sem kringlukast var í miklum metum. Ástæðan var ekki hvað síst sú að Garrett hafði enga reynslu í greininni og skráði sig til gamans. Hann grýtti kringlunni á þann hátt sem honum þótti þægilegast, en grískur kringlukastarar reyndu að nota sömu stellingar og sjá mátti á fornum málverkum og myndastyttum.
Spyridon Louis varð þjóðhetja í Grikklandi þegar hann sigraði í Maraþonhlaupi, en aldrei áður hafði verið keppt í þeirri grein. Um tíma leit út fyrir að Grikkir hefðu unnið þrefalt í hlaupinu, en síðar kom í ljós að keppandinn í þriðja sæti hafði setið í hestvagni hluta leiðarinnar.
Bretinn Launceston Elliot og Daninn Viggo Jensen börðust um verðlaunin í ólympískum lyftingum. Elliot sigraði í lyftingum með annarri hendi, en Jensen var úrskurðaður sigurvegari í keppni með báðum höndum. Reyndar lyftu þeir sömu þyngd í þeirri grein, en áhorfendur mátu það svo að Daninn hefði ekki þurft að reyna jafn mikið á sig.
Ungverjinn Alfréd Hajós hlaut tvenn gullverðlaun í sundi. Sundkeppnin fór fram í köldu Miðjarðarhafinu við erfiðar aðstæður. Hann var yngstur sigurvegara á leikunum í Aþenu, átján ára að aldri.
Austurríkismaðurinn Adolf Schmal varð hlutskarpastur í óvenjulegri keppnisgrein í hjólreiðum, þar sem keppendur reyndu að komast sem lengst á tólf klukkustundum. Schmal lagði um 315 kílómetra að baki á þessum tíma.
Holger Nielsen frá Danmörku vann til brons og silfurverðlauna í skotfimi og skylmingum, auk þess að keppa í kringlukasti á leikunum. Hann er kunnastur fyrir að vera faðir handknattleiksíþróttarinnar.