Austurblokkin eða Sovétblokkin var hugtak sem notað var yfir kommúnistaríkin í Austur-Evrópu, þar á meðal aðildarríki Varsjárbandalagsins auk Júgóslavíu og Albaníu sem rufu tengsl sín við Sovétríkin 1948 og 1960. Austurblokkin myndaðist eftir sókn Sovétmanna inn í Evrópu í Síðari heimsstyrjöldinni og baráttu andspyrnuhreyfinga gegn leppstjórnum og hernámsstjórnum fasista og nasista. Flest ríkin í Austurblokkinni voru leppríki Sovétríkjanna og bæði stjórnmálum, fjölmiðlun, landamæravörslu og efnahagslífi var stjórnað þannig að þau samrýmdust fyrirmælum og hagsmunum Moskvuvaldsins.