Bringusund er sundaðferð þar sem bringa sundmannsins kemur upp úr vatninu í hverju taki og bolurinn snýst ekki. Uppskriftin að bringusundi er „beygja, kreppa, sundur, saman“, sem er hreyfing fótanna í vatninu. Bringusundi svipar til flugsunds nema hvað fótatökin eru ólík. Margt keppnisfólk í sundi telur bringusund eina erfiðustu aðferðina á meðan óvanir sundmenn telja bringusund auðveldasta sundið. Ein af ástæðum þess að bringusund er talið erfitt er mikil samhæfing handa og fóta. Þegar búið er að læra fótatökin er hins vegar fremur auðvelt að synda bringusund hægt og halda höfðinu upp úr vatninu allan tímann, ólíkt öðrum sundaðferðum.
Í keppni gilda svipaðar reglur um bringusund og flugsund, eins og að setja báðar hendur á sama tíma í sömu hæð í bakkann. Mikilvægt er að anda á réttum tíma til þess að hægja ekki á sér. Í bringusundi má taka eitt kafsundstak í upphafi sunds. Því svipar til venjulegs bringusundstaks nema það er tekið í kafi og hendurnar mega fara alveg niður með síðum, þó aðeins einu sinni. Aðeins er keppt í þremur vegalengdum í bringusundi en það eru 50 m, 100 m og 200 m.
Á Íslandi er bringusund fyrsta sundaðferðin sem börnum í grunnskólum er kennd.