Síerra Leóne

Lýðveldið Síerra Leóne
Republic of Sierra Leone
Fáni Síerra Leóne Skjaldarmerki Síerra Leóne
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unity - Freedom - Justice (enska)
Eining, frelsi, réttlæti
Þjóðsöngur:
High We Exalt Thee, Realm of the Free
Staðsetning Síerra Leóne
Höfuðborg Freetown
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Forsetalýðveldi

Forseti Julius Maada Bio
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 27. apríl 1961 
 • Lýðveldi 19. apríl 1971 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
117. sæti
71.740 km²
1,1
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
100. sæti
8.908.040
112/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 16,4 millj. dala (152. sæti)
 • Á mann 1.972 dalir (185. sæti)
VÞL (2021) 0.477 (181. sæti)
Gjaldmiðill leóne
Tímabelti UTC
Þjóðarlén .sl
Landsnúmer +232

Síerra Leóne er land í Vestur-Afríku með strönd að Atlantshafi og landamæri að Gíneu í norðri og Líberíu í suðri. Nafnið kemur úr portúgölsku og merkir „Ljónafjöll“. Höfuðborgin, Freetown, var stofnuð af frelsuðum þrælum frá Nova Scotia árið 1792.

Nafnið kemur frá portúgalska landkönnuðinum Pedro de Sintra sem sigldi til landsins árið 1462 og nefndi það Serra Leoa. Ströndin varð ein af miðstöðvum þrælaverslunar á Atlantshafi. Þann 11. mars 1792 var borgin Freetown stofnuð af Síerra Leóne-félaginu og byggð þrælum sem höfðu fengið frelsi innan Breska heimsveldisins. Þangað fluttust því fyrrum þrælar frá ýmsum heimshornum og öðrum hlutum Afríku. Árið 1808 varð Freetown bresk krúnunýlenda og 1896 varð landið allt breskt verndarsvæði. Landið fékk sjálfstæði árið 1961. Við tók pólitískur óstöðugleiki með herforingjabyltingum og síðan flokksræði um langt skeið. Árið 1991 braust út blóðug borgarastyrjöld sem stóð til ársins 2002 þegar breski herinn tók þátt í að koma á vopnahléi milli stríðandi fylkinga. Breski herinn er enn í landinu.

Menning Síerra Leóne er fjölbreytt og íbúar tilheyra um sextán þjóðarbrotum sem hvert hefur sitt tungumál og sína siði. Stærstu hóparnir eru temnar og mendar. Opinbert tungumál er enska en 90% íbúa talar kríómál, kreólamál sem byggist á ensku og afrískum málum. Meirihluti íbúa er múslimar en um fjórðungur aðhyllist kristni.

Efnahagur Síerra Leóne byggist að mestu á námavinnslu, einkum á demöntum, títani, báxíti og gulli. Þrátt fyrir náttúruauðlindir lifa 70% landsmanna við fátækt.

Barnadauði og mæðradauði í Síerra Leóne eru með því mesta í heimi.

Heiti

Landið dregur nafn sitt af fjöllunum við höfðann þar sem Freetown stendur nú. Þau voru nefnd Serra Leoa („Ljónynjufjöll“) af portúgalska landkönnuðinum Pedro de Sintra árið 1462. Seinna kom ítalski landkönnuðurinn Alvise Cadamosto þangað og í kjölfarið varð nafnið ítalska útgáfan Sierra Leone á evrópskum landakortum.[1]

Landfræði

Kort af Síerra Leóne.

Síerra Leóne er á suðvesturströnd Vestur-Afríku, að mestu á milli 7. og 10. breiddargráðu norður (lítill hluti er sunnan við 7. gráðu) og 10. og 14. lengdargráðu vestur. Landið á landamæri að Gíneu í norðri og austri, Líberíu í suðaustri og strönd að Atlantshafi í vestri og suðvestri. [2]

Landsvæði Síerra Leóne nær yfir 71.740 km² sem skiptist í 71.620 km² af þurrlendi og 120 km² af votlendi.[3] Landið skiptist í fjögur landfræðileg héruð. Í austurhlutanum stingast fjöll upp úr sléttunni, þar sem hæsti tindurinn, Bintumani-fjall, nær 1948 metra hæð. Efri hluti vatnasviðs Móaár er í suðurhluta þessa héraðs.

Í miðju landsins eru láglendissléttur þar sem eru skógar, kjarr og ræktarland[2] sem þekur um 43% landsins. World Wildlife Fund hefur skilgreint norðurhluta þessa svæðis sem hluta af gíneska gresjuskóglendinu, en í suðurhlutanum eru regnskógar og ræktarland.

Síerra Leóne á um 400 km langa strandlengju að Atlantshafi í vestri, sem gefur landinu aðgang að gjöfulum fiskimiðum og skapar aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Við ströndina eru fenjaskógar. Höfuðborgin, Freetown, liggur á höfða við ströndina nálægt Síerra Leónehöfn.

Í landinu er hitabeltisloftslag með tveimur árstíðum: regntímabili frá maí til nóvember, og þurrkatímabili frá desember til maí. Á síðarnefnda tímabilinu blása harmattanvindar frá Sahara og næturhiti getur fallið niður í 16˚C. Meðalhiti er 26˚C og sveiflast milli 26˚C og 36˚C yfir árið.[4][5]

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Síerra Leóne skiptist í fjögur héruð: Norðurhérað, Suðurhérað, Austurhérað og Vestursvæði. Þrjú fyrstu héruðin skiptast í tólf umdæmi og umdæmin síðan í 149 höfðingjadæmi. Vestursvæðið skiptist í þéttbýli og dreifbýli.

Tólf umdæmi og tvö svæði Síerra Leóne

Menning

Íþróttir

Knattspyrna er vinsælasta íþróttagreinin í Síerra Leóne. Deildarkeppni var komið á laggirnar árið 1967 og eru félögin East End Lions og Mighty Blackpool langsigursælust. Knattspyrnulandsliðið lék sinn fyrsta leik árið 1949, en gullöld þess var á tíunda áratugnum þegar Síerra Leóne komst árin 1994 og 1996 í úrslitakeppni Afríkubikarsins. Landsliðsmenn koma ýmist úr deildinni heima fyrir eða frá evrópskum félögum, þannig hefur miðjumaðurinn Kwame Quee leikið á Íslandi við góðan orðstír.

Síerra Leóne hefur sent íþróttamenn til keppni á öllum sumarólympíuleikum frá leikunum 1968, en enn ekki komist á verðlaunapall. Flestir fulltrúar landsins hafa keppt í frjálsum íþróttum eða hnefaleikum.

Tilvísanir

  1. „5 Thing to Know About Sierra Leone“. reignministries.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. mars 2020. Sótt 14. júlí 2021.
  2. 2,0 2,1 LeVert, Suzanne (2006). Cultures of the World: Sierra Leone. Marshall Cavendish. bls. 7. ISBN 978-0-7614-2334-8.
  3. „Sierra Leone“. The World Factbook. CIA. Sótt 15. september 2011.
  4. Blinker, Linda (september 2006). Country Environment Profile (CEP) Sierra Leone. Freetown, Sierra Leone: Consortium Parsons Brinckerhoff. bls. 12. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2013. Sótt 2. júlí 2013.
  5. LeVert, Suzanne (2006). Cultures of the World: Sierra Leone. Marshall Cavendish. bls. 8–9. ISBN 978-0-7614-2334-8.

Tenglar

  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!