Asía er stærsta og fjölmennasta heimsálfa jarðar og er að mestu staðsett á norðurhveli og austurhveli. Hún er austari hluti landflæmis sem er kallað Evrasía þar sem Evrópa er vestari hlutinn. Asía er um 44,6 milljón ferkílómetrar að stærð sem eru um 30% af þurrlendi jarðarinnar og 8,7% af yfirborði hennar. Asía hefur lengi verið heimkynni meirihluta íbúa jarðar[1] og þar risu fyrstu siðmenningarsamfélög mannkynssögunnar. Árið 2021 voru íbúar Asíu 4,7 milljarðar sem eru um 60% alls mannkyns.[2]
Kína og Indland skiptust á að vera stærstu hagkerfi heims frá upphafi okkar tímatals til um 1800. Auðlegð Kína skapaði aðdráttarafl fyrir evrópska og arabíska kaupmenn, landkönnuði og landvinningamenn[4][5][6] og í mörgum ritum var Indland eins konar táknmynd fyrir álfuna og auðæfi hennar.[7] Fundur Ameríku orsakaðist af leit Evrópubúa að nýrri siglingaleið til Indlands. Silkivegurinn var helsta verslunarleið Asíu í austur-vestur og Malakkasund var ein helsta siglingaleiðin. Á 20. öld þróuðust hagkerfi margra Asíulanda hratt auk þess sem íbúafjöldi óx, en fjölgun íbúa hefur dregist saman síðustu áratugi.[8] Í Asíu urðu helstu trúarbrögð heimsins til: hindúatrú, sóróismi, gyðingdómur, jainismi, búddatrú, konfúsíusismi, daóismi, kristni og íslam.
Nafnið Asía kemur upprunalega úr grísku, Ἀσία, þar sem það vísar til Litlu-Asíu. Orðið kemur fyrir í ritum Heródótosar. Pliníus var einna fyrstur til að nota heitið yfir stærra svæði. Með tímanum náði það yfir alla heimsálfuna. Hugsanlega er það dregið af akkadíska orðinu ἀσυ asu „að rísa“ sem vísar til rísandi sólar.
Asía var stundum kölluð Austurálfa eða Austurheimur í eldri íslenskum ritum.
Góbíeyðimörkin er í Mongólíu og Arabíueyðimörkin nær yfir stóran hluta Suðvestur-Asíu. Lengsta fljót Asíu er Jangtse í Kína. Himalajafjöll milli Nepals og Kína eru hæstu fjöll heims. Hitabeltisregnskógar vaxa í Suður-Asíu en norðar eru barr- og laufskógabelti.
Asíu hefur verið skipt í minni svæði á ýmsan hátt í gegnum tíðina. Tölfræðideild Sameinuðu þjóðanna notast við eftirfarandi skiptingu til hægðarauka, án þess að hún hafi neitt með innbyrðis skyldleika landanna að gera.[10]
↑ 3,03,1National Geographic Atlas of the World (7th. útgáfa). Washington, D.C.: National Geographic. 1999. ISBN978-0-7922-7528-2. "Europe" (pp. 68–69); "Asia" (pp. 90–91): "A commonly accepted division between Asia and Europe is formed by the Ural Mountains, Ural River, Caspian Sea, Caucasus Mountains, and the Black Sea with its outlets, the Bosporus and Dardanelles."
↑„Like herrings in a barrel“. The Economist. Millennium issue: Population. tölublað. 23. desember 1999. Afrit af uppruna á 4. janúar 2010..
↑Asia. 2006. Afrit af uppruna á 18. nóvember 2008.
↑„Standard Country or Area Codes for Statistical Use (M49 Standard)“. UN Statistica Division. "Geographic Regions" anklicken Zitat: "The assignment of countries or areas to specific groupings is for statistical convenience and does not imply any assumption regarding political or other affiliation of countries or territories by the United Nations."