Lýðveldið Kína var eitt af 51 stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna og eitt af þeim fimm ríkjum sem sátu í upprunalega öryggisráðinu. Árið 1971 tók Alþýðulýðveldið Kína sæti þess hjá Sameinuðu þjóðunum og heldur því enn. Flest ríki ákváðu síðan að viðurkenna Alþýðulýðveldið Kína sem sjálfstætt ríki í stað Lýðveldisins Kína en Lýðveldið Kína er nú viðurkennt sem sjálfstætt ríki af 26 ríkjum. Alþýðulýðveldið Kína viðurkennir ekki yfirráð Lýðveldisins Kína yfir eyjunni og telur hana formlega vera 23. hérað Kína.
Á síðari hluta 20. aldar átti sér stað hröð iðnvæðing á Taívan og efnahagur landsins óx hratt. Taívan er einn af asísku tígrunum fjórum (ásamt Suður-Kóreu, Japan og Singapúr). Hátækniiðnaður Taívan er mikilvægur fyrir allan heim. Landið fær háar einkunnir fyrir fjölmiðlafrelsi, heilbrigðisþjónustu, menntun, efnahagsfrelsi og þróun.
Heiti
Nokkur ólík heiti hafa verið notuð yfir eyjuna Taívan í gegnum tíðina. Portúgalskir landkönnuðir nefndu hana Ilha Formosa („falleg eyja“) um miðja 16. öld. Smám saman varð heitið Formósa almennt heiti yfir eyjuna á Evrópumálum.
Heitið Taívan eða Tayouan kemur úr Sirayamáli frumbyggja eyjarinnar og merkir „útlendingar“. Það var notað yfir sandrif þar sem Hollenska Austur-Indíafélagið reisti verslunarstöðina Fort Zeelandia á fyrri hluta 17. aldar þar sem nú stendur borgin Tainan. Verslunarstöðin og nágrenni hennar varð höfuðstaður eyjarinnar og nafnið varð því smám saman að heiti yfir eyjuna sjálfa í kínversku.
Opinbert heiti landsins er Lýðveldið Kína. Upphaflega notaði stjórn þess við styttu útgáfuna „Kína“. Um miðja 20. öld var stundum notað heitið „þjóðríkið Kína“ eða „frjálsa Kína“ til aðgreiningar frá alþýðulýðveldinu á meginlandinu sem var kallað „kommúnistaríkið Kína“ eða „rauða Kína“. Eftir að landið missti sæti sitt hjá Sameinuðu þjóðunum til alþýðulýðveldisins árið 1971 hefur það almennt verið kallað Taívan eftir stærstu eyjunni.
Stjórnarskrá lýðveldisins var samin árið 1947 þegar stjórnin réði enn yfir meginlandshluta Kína. Samkvæmt henni skiptist Kína því í héruð, sérstök sveitarfélög, sérstök stjórnsýsluhéruð og sjálfstjórnarhéruð (Mongólíu og Tíbet) sem fengu mjög mikla sjálfstjórn.
Þegar stjórn lýðveldisins hörfaði til Taívan gerði hún því tilkall til yfirráða yfir svæði sem taldi 35 héruð, 12 sérstök sveitarfélög, 1 stjórnsýsluhérað og 2 sjálfstjórnarhéruð. Lýðveldið hefur aðeins raunveruleg yfirráð yfir Taívanhéraði og eyhluta Fuijan-héraðs.
Frá 1949 hafa verið gerðar nokkrar breytingar á stjórnsýslueiningum undir stjórn lýðveldisins. Taípei varð sérstakt sveitarfélag árið 1967 og Kaohsiung árið 1979. Völd héraðsstjórnanna tveggja voru minnkuð og flutt að hluta til miðstjórnarinnar. Árið 2010 voru Nýja Taípei, Taichung og Tainan gerð að sérstökum sveitarfélögum. Nú skiptist stjórnsýsla Taívan því þannig: