Sigurður Jórsalafari

Saga Sigurðar jórsalafara, Eysteins ok Ólafs, Heimskringla
Krossferð Sigurðar Jórsalafara.

Sigurður Jórsalafari eða Sigurður 1. Magnússon (f. 1090, d. 26. mars 1130) var konungur Noregs frá 1103, fyrst ásamt hálfbræðrum sínum Ólafi og Eysteini, en Ólafur dó 1115 og Eysteinn 1123. Eftir það ríkti Sigurður einn.

Þeir bræður voru allir frillusynir Magnúsar berfætts og hét móðir Sigurðar Þóra. Sigurður hafði þegar á barnsaldri fylgt föður sínum í víkinga- og herferðum hans og var með í herförinni til Bretlandseyja en var skilinn eftir á Orkneyjum og var því ekki með þegar Magnús féll á Írlandi 1103. Þá var Sigurður 12-13 ára.

Átján ára að aldri hélt Sigurður af stað til Jórsala (Jerúsalem) í pílagríms- og herför sem stóð í þrjú ár. Undirbúningurinn tók langan tíma því siglt var af stað á 60 langskipum og voru 100 menn á hverju. Fyrst var siglt til Englands þar sem liðið hafði vetursetu og síðan var siglt áfram suður með Frakklandsströnd og Spáni og komið við í Santiago de Compostela. Þegar sunnar dró með strönd Portúgals og síðan Spánar var komið í ríki Mára og þar gerðu Norðmennirnir víða strandhögg, réðust meðal annars á Lissabon og fleiri bæi og hertóku þá.

Vorið 1110 komst liðið um Gíbraltarsund inn á Miðjarðarhaf þar sem barist var við Mára og sjóræningja og í leiðinni voru eyjarnar Ibiza, Menorka og Formentera herteknar (→ Múbassir ibn Súlæman ‘Ríkiskappi’ eða Nasser ad-Dála -al-Nāṣir ad-Dawlah, نصر الدولة-). Um sumarið var komið við á Sikiley og snemma um haustið komust Sigurður og menn hans til Landsins helga. Þar heimsóttu þeir Jerúsalem og aðra helga staði, böðuðu sig í ánni Jórdan og fengu flís úr krossi Krists. Jerúsalem var á þessum tíma undir yfirráðum kristinna manna en Norðmennirnir aðstoðuðu Baldvin Jórsalakonung við að ráðast á borgina Sídon í Líbanon og hertaka hana. Í ársbyrjun 1111 lagði liðið af stað heim og kom við í Miklagarði hjá Alexiosi keisara. Síðan var haldið heim landleiðina yfir Rússland. Sagt er að aðeins 100 menn af þeim 6000 sem lögðu af stað í leiðangurinn hafi snúið aftur með Sigurði; hinir höfðu flestir fallið í orrustum eða dáið á leiðinni en allmargir urðu eftir í Miklagarði og gengu í sveit Væringja.

Sigurður gat sér frægð með Jórsalaförinni en þó stóð hann í skugga Eysteins bróður síns meðan hann lifði; þeir voru ólíkir, Eysteinn klókur og vel máli farinn, glæsimenni og vinsæll, Sigurður hraustmenni en ekki fríður, fámáll og þurr á manninn, tryggur vinum sínum en fáskiptinn. Því var ákveðin togstreita á milli þeirra en þeir komust hjá átökum með því að skiptast á að dvelja í suður- og norðurhluta ríkisins.

Eysteinn veiktist og dó sumarið 1123 og eftir það var Sigurður einn konungur. Litlum sögum fer af ríkisstjórnarárum hans og mun það hafa verið friðsemdartími í Noregi. Það breyttist skyndilega þegar hann dó af veikindum í Ósló 26. mars 1130. Kona Sigurðar var Málmfríður, dóttir Mstislavs stórhertoga af Kænugarði (hún giftist síðar Eiríki eimuna Danakonungi), og áttu þau dótturina Kristínu, sem síðar giftist Erlingi skakka. Sigurður átti líka soninn Magnús með frillu sinni Borghildi Ólafsdóttur og tók hann við konungdæminu en brátt komu fram aðrir sem töldu sig eiga kröfu til ríkisins og næstu öldina logaði Noregur í innanlandserjum og átökum milli konunga og konungsefna.

Heimildir

Tenglar



Fyrirrennari:
Magnús berfættur
Noregskonungur
með Ólafi Magnússyni (til 1115) og Eysteini Magnússyni (til 1123)
(1103 – 1130)
Eftirmaður:
Magnús blindi
Haraldur gilli


Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!