Magnús berfættur (1073 – 1103) var konungur Noregs á árunum 1093 – 1103. Hann var herskár konungur og hefur oft verið kallaður síðasti víkingakonungurinn.
Magnús var launsonur Ólafs kyrra Noregskonungs. Móðir hans var Þóra Jónsdóttir, frilla Ólafs. Ólafur kyrri var friðsemdarmaður sem ríkt hafði í Noregi í 26 ár en Magnús virðist fremur hafa líkst Haraldi harðráða afa sínum. Hann var tvítugur þegar faðir hans dó og var þegar tekinn til konungs í Víkinni en Upplandahöfðinginn Steigar-Þórir, sem hafði fóstrað Hákon, son Magnúsar bróður Ólafs kyrra, lét taka hann til konungs í Upplöndum og fékk hann einnig tekinn til konungs í Þrændalögum með því að lofa Þrændum alls kyns réttarbótum og ívilnunum og hét að aflétta þeirri kvöð að gefa konungi jólagjafir. Því ríktu þeir Magnús og Hákon Þórisfóstri saman eitt ár og var ekki mjög friðvænlegt milli þeirra en þá veiktist og dó Hákon skyndilega og Magnús var einn konungur. Hann elti Þóri uppi og lét hengja hann en refsaði Þrændum grimmilega.
Magnús sigldi svo suður á bóginn og rændi og ruplaði í Danmörku og Svíþjóð og vildi stækka ríki sitt en tókst með naumindum að sleppa undan Svíum á flótta. Friður var svo saminn á Konungahellu sumarið 1101 og var ákveðið að landamæri ríkjanna skyldu vera eins og þau höfðu áður verið. Magnús vann því engin lönd með herferðinni til Svíþjóðar en fékk hins vegar Margréti dóttur Inga Svíakonungs fyrir eiginkonu og var hún síðan kölluð friðkolla.
Magnús fór í vesturvíking 1098-1099; fór fyrst til Orkneyja og tók Orkneyjajarla til fanga, hélt síðan til Suðureyja og síðan Manar og allt suður til Wales og herjaði og rændi. 1102 fór hann aftur af stað með mikinn her og hugðist styrkja ríki sitt á Bretlandseyjum og herja á Írlandi og fékk raunar Mýrkjartan (Muircheartach Ua Briain) Írakonung í lið með sér. Þeir unnu Dyflinni og mestalla austurströnd Írlands en þegar halda skyldi heim á leið fór Magnús á land með hluta liðs síns í könnunarferð. Þá komu Írar að þeim, ráku þá í sjálfheldu í mýrlendi og þar féll konungur.
Magnús átti engin börn með Margréti drottningu sinni en með frillum átti hann synina Eystein, Sigurð Jórsalafara og Ólaf og dæturnar Ragnhildi og Þóru, konu Lofts Sæmundssonar frá Odda og móður Jóns Loftssonar.
Heimildir