Shirin Ebadi (persneska: شيرين عبادى; f. 21. júní 1947) er íranskur lögfræðingur, fyrrverandi dómari og mannréttindafrömuður. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2003 fyrir starf sitt í þágu lýðræðis og mannréttinda, sérstaklega réttinda kvenna, barna og flóttafólks.
Ebadi var starfandi dómari, fyrst kvenna í Íran, þegar íranska byltingin skall á árið 1979. Nýja klerkastjórnin sem tók við völdum leysti hana strax frá störfum þar sem sjaríalög banna konum að vera dómarar.[1] Eftir að hún var rekin úr dómaraembættinu gerðist Ebadi lagaprófessor við Háskólann í Teheran. Hún hóf jafnframt að tala fyrir auknum réttindum kvenna og barna. Málflutningur hennar hjálpaði meðal annars umbótasinnanum Mohammad Khatami að vinna sigur í forsetakjöri landsins árið 1997. Trúarleiðtogar landsins hafa margsinnis fordæmt Ebadi og hún sat mörgum sinnum í fangelsi til ársins 2003.[1]
Meðal þeirra málefna sem Ebadi hefur lagt áherslu á er að konur fái réttindi til jafns við karla í hjónaböndum, til dæmis rétt til skilnaðar og möguleika á forræði yfir börnum sínum. Hún hefur lagt áherslu á að hægt sé að færa íslömsk lög til nútímans án þess að ógna trúnni sjálfri.[1][2]
Shirin Ebadi hlaut heiðursdoktorsnafnbót félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri þann 6. nóvember árið 2004.[2] Árið 2009 hraktist Ebadi frá Íran vegna aukinna ofsókna gegn stjórnarandstæðingum.[3] Sama ár gerðu írönsk stjórnvöld Nóbelsverðlaunin hennar upptæk.[4]