John Boyd Orr

John Boyd Orr
Boyd Orr árið 1949.
Fæddur23. september 1880
Dáinn25. júní 1971 (90 ára)
ÞjóðerniSkoskur
MenntunHáskólinn í Glasgow
StörfLæknir, líffræðingur, næringarfræðingur
MakiElizabeth Pearson Callum (g. 1915)
Börn3
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1949)

John Boyd Orr, Boyd-Orr barón (23. september 1880 – 25. júní 1971), var skoskur kennari, læknir, líffræðingur, næringarfræðingur, viðskiptamaður og bóndi sem vann friðarverðlaun Nóbels árið 1949 fyrir rannsóknir sínar í næringarfræðum og störf sín sem fyrsti framkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Æviágrip

John Boyd Orr lagði ungur stund á læknisfræði. Eftir að hann lauk prófi varð hann forstjóri Fóðurrannsóknadeildarinnar við Háskólann í Aberdeen. Stofnunin var þá illa fjármögnuð en Boyd Orr jók verulega við hróður hennar með rannsóknastarfsemi sinni þar.[1] Boyd Orr gegndi herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni en sneri sér aftur að rannsóknarstörfum eftir að henni lauk.[2]

Boyd Orr ferðaðist til Austur-Afríku árið 1929 og kynnti sér mataræði innfæddra. Hann bar saman mataræði höfðingjastéttarinnar, sem borðaði aðallega kjöt, og mataræði alþýðunnar, sem nærðist fremur á jarðargróða og mjólk. Eftir ferðina hvarf Boyd Orr frá rannsóknum sínum á mataræði búpenings og sneri sér að mataræði manna.[1]

Eftir heimkomuna til Skotlands hélt Boyd Orr rannsóknum sínum áfram og kom því meðal annars til leiðar að skólabörnum í sjö skoskum borgum var gefin mjólk á hverjum degi. Niðurstaðan varð sú að börnin bættu verulega á sig en leið mun betur en áður. Boyd Orr gaf í kjölfarið út fræðiritið Food, Health and Income (ísl. Fæði, heilsa og tekjur), þar sem hann færði rök fyrir því að helmingur bresku þjóðarinnar þjáðist af vannæringu.[1]

Boyd Orr vann rannsóknir sínar á tveimur óðölum sem hann átt í Skotlandi. Ætlun hans var að arfleiða einkason sinn að landeignunum, en sonur hans féll í valinn í seinni heimsstyrjöldinni. Auk sonarins átti Boyd Orr tvær dætur.[2]

Í seinni heimsstyrjöldinni var Boyd Orr falin umsjá með matvælaforða Bretlands. Á stríðsárunum fundaði Boyd Orr einnig með Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta til að ræða um matvælaástandið í heiminum. Fundur þeirra leiddi til þess að kallað var til ráðstefnu í Bandaríkjunum um matvælamálefni. Bretar neituðu að senda Boyd Orr þangað sem fulltrúa sinn en þess í stað sendi Boyd Orr myndband þar sem hann gerði grein fyrir matvælaskorti og úrbótatillögum sínum.[1]

Árið 1945 var ráðstefna haldin í Québec sem leiddi til stofnunar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Boyd Orr sótti ráðstefnuna sem ráðgjafi frekar en sem fulltrúi og hélt eina ræðu. Hann bjóst síðar til heimfarar en hlaut þá fregnir af því að hann hefði verið kjörinn fyrsti framkvæmdastjóri nýju stofnunarinnar. Sem framkvæmdastjóri réð Boyd Orr til sín samverkamenn og sérfræðinga úr öllum þáverandi aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og skipaði framkvæmdanefndir. Boyd Orr mælti með því að samtökin ynnu bug á matvælaskorti með því að útbýtta landbúnaðarvélum og áburði og byggja nýjar árveitur og virkja ný ræktarlönd.[1]

Meðal verkefna sem Matvæla- og landbúnaðarstofnunin fékkst við á stjórnartíð Boyd Orr var að vinna bug á jarðvegseyðingu ræktarlands með gróðursetningu trjáa, koma bóluefni fyrir nautgripi í umferð og bæta geymsluaðferðir matvæla til að koma í veg fyrir matarskemmdir af völdum meindýra. Boyd Orr sagði af sér sem framkvæmdastjóri FAO árið 1948 þar sem honum þótti stofnunin of valdalítil og vonaðist til þess að geta gert meira gagn utan hennar.[1]

Boyd Orr hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín árið 1949. Hann gaf allt verðlaunaféð stofnunum sem unnu að heimsfriði og alþjóðlegri lögsögu. Hann var aðlaður árið 1950 og var þaðan af þekktur sem Boyd-Orr barón af Menchin Mearns í Angus-sýslu.[3]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Hungurvofan alvarlegri en kjarnasprengjur“. Lesbók Morgunblaðsins. 10. október 1948. Sótt 31. mars 2020.
  2. 2,0 2,1 „John Boyd Orr“. Tíminn. 6. nóvember 1949. Sótt 31. mars 2020.
  3. Kay, H. D. (1972). „John Boyd Orr. Baron Boyd Orr of Brechin Mearns 1880–1971“. Biographical Memoirs of Fellows of the Royal Society. 18: 43–81. doi:10.1098/rsbm.1972.0004. PMID 11615751.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!