Háskólinn á Akureyri er háskóli í bænum Akureyri á Íslandi sem stofnaður var árið 1987. Hann hefur vaxið mikið síðan og í dag eru þar skráðir í kring um 2.800 stúdentar. Skólinn er meðal þeirra fremstu á Íslandi og hefur verið framsækinn þegar kemur að sveigjanlegu námsfyrirkomulagi.
Sveigjanlegt nám er stór kostur við Háskólann á Akureyri. Fjölbreyttar og nútímalegar kennslu- og námsaðferðir eru notaðar við miðlun námsefnis.
Allt grunnám er í boði sem sveigjanlegt nám. Það þýðir að stúdentar þurfa ekki endilega að vera búsettir á Akureyri heldur koma í háskólann í sérstakar námslotur þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.
Í námslotunum gefst þér tækifæri til að hitta kennara, stúdenta og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu.
Fjölbreytt nám er í boði við Háskólann á Akureyri, bæði á grunn- og framhaldsstigi. Frá og með vormisseri 2019 varð Háskólinn á Akureyri fullvaxta háskóli með nám á öllum þrepum háskólanáms þegar honum var veitt heimild til að bjóða upp á doktorsnám. Kennsla fer fram á tveimur fræðasviðum og þau eru:
Hug- og félagsvísindasvið
Hug- og félagsvísindasvið samanstendur af fjórum deildum; Félagsvísindadeild, Lagadeild, Sálfræðideild og Kennaradeild. Þar er boðið upp á fjölbreytt grunnnám
bakkalárprófs (B.A. og B.Ed.) og framhaldsnám til meistaraprófs (M.A., M.Ed., M.l.
og ll.M). Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri tilheyrir einnig sviðinu
og starfar það í nánum tengslum við Kennaradeild að þróunar- og umbótastarfi í
skólum, ásamt ráðgjöf og fræðslu.
Námið einkennist af fjölbreyttum áherslum sem koma til móts við ólíkar þarfir
og áhuga stúdenta. Hver deild hefur sína sérstöðu:
Í Félagsvísindadeild er boðið upp á fjórar námsleiðir til BA gráðu, þar af eru félagsvísindi, fjölmiðlafræði og lögreglufræði einungis kennd við Háskólann á Akureyri. Að hluta til er boðið upp á sömu námskeið í þessum námsleiðum á fyrsta ári og stúdentar fá fljótlega tækifæri til að sérhæfa sig með því að taka valnámskeið. Til viðbótar eru í boði tvær námsleiðir á meistarastigi.
Við Lagadeild er kennd lögfræði í grunnnámi og framhaldsnámi auk þess sem heimskautaréttur er í boði í framhaldsnámi. Sérstaða lögfræðináms Háskólans á Akureyri felst í alþjóðlegri nálgun og sveigjanlegu námsfyrirkomulagi.
Í Sálfræðideild er boðið upp á 3 ára BA nám í sálfræði þar sem sérstaðan er sveigjanlegt námsfyrirkomulag og námsmat. Auk þess býður Sálfræðideild upp á MA nám í sálfræði sem er rannsóknartengt og er sniðið að áhugasviði hvers og eins.
Við Kennaradeild er kennt fjölbreytt nám á grunn- og framhaldsstigi. Námið miðar að því að stúdentar öðlist þá þekkingu, leikni og hæfni sem kennarastarf krefst á hverjum tíma. Deildin býður upp á fjölbreytt nám með margvíslegri sérhæfingu sem leggur traustan grunn að þeirri færni sem þróun skólastarfs, iðkun rannsókna og frekara nám gerir kröfur um.
Inann Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs eru fimm deildir: Auðlindadeild, Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum, Hjúkrunarfræðideild, Iðjuþjálfundarfræðideild og Viðskiptadeild. Fræðasviðið býður upp á fjölbreytt grunn- og framhaldsnám og þar er einnig að finna námsleiðir sem einungis eru kenndar við Háskólann á Akureyri og hafa markað sér ákveðna sérstöðu. Hver deild hefur sína sérstöðu:
Í Auðlindadeild er lögð rík áhersla á nám og rannsóknir í tengslum við sjálfbæra og arðbæra nýtingu náttúruauðlinda. Með þetta að leiðarljósi er boðið upp á hagnýtt viðskipta- og raunvísindatengt nám á þremur fræðasviðum; líftækni, sjávarútvegsfræði og náttúru- og auðlindafræði.
Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum hefur það að markiði að mennta fagfólk á heilbrigðissviði til vísindarannsóknastarfa og nýsköpunar. Sérstaða og styrkur námsins felst meðal annars í þverfaglegum stúdentahópi þar sem fagfólk úr hinum ýmsu fagstéttum heilbrigðiskerfisins kemur saman til að taka sínar meistaragráður.
Hjúkrunarfræðideild býður upp á 4 ára BS nám í hjúkrunarfræði og er Háskólinn á Akureyri eini háskólinn á landinu sem býður upp á sveigjanlegt nám í hjúkrunarfræði.
Iðjuþjálfundarfræðideild býður upp á 3 ára BS nám í iðjuþjálfunarfræði og 1 árs viðbótardiplómu til starfsréttinda í iðjuþjálfun en Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á landinu sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræði.
Viðskiptadeild býður upp á grunn og framhaldsnám sem er fjölbreytt og hagnýtt. Áhersla er lögð á sveigjanlegt námsfyrirkomulag. Þá býður HA upp á nám í tölvunarfræði í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.
Doktorsnám við Háskólann á Akureyri er einstaklingsmiðað nám og rannsóknarverkefni doktorsnemans er lykilþáttur námsins. Doktorsnemar háskólans verða virkir þátttakendur í vísindasamfélagi HA. Námið veitir prófgráðuna Philosophiae Doctor (PhD) á tilteknu fræðasviði.
Stofnanir
Innan vébanda Háskólans á Akureyri eru starfræktar ýmsar stofnanir sem sinna rannsóknum og ýmiss konar þjónustu við fræðasamfélagið.
Stúdentafélag Háskólans á Akureyri, SHA er félag allra innritaðra stúdenta við Háskólann á Akureyri. Félagið er fyrst og fremst hagsmunafélag stúdenta, bakland og sameiningartákn aðildarfélaga þess og þeirra aðila sem sinna trúnaðarstörfum á vegum félagsins. Félagið stendur vörð um hagsmuni heildarinnar, stuðlar að bættri heilsu og líðan stúdenta og vinnur náið með starfsfólki skólans að hagsmunamálum, kynningarmálum og öðru því sem snertir stúdenta, beint eða óbeint.[1]
Sjö aðildarfélög eiga aðild að SHA. Aðildarfélög SHA eru sviðs- og deildarfélög. Starfsemi þeirra og hlutverk hafa þróast gegnum árin og tekið breytingum eins og starfsemi og hlutverk SHA. Félögin eru:
Data, félag tölvunarfræðinema, var stofnað árið 2016.
Eir, félag heilbrigðisnema, var stofnað árið 1990.
Kumpáni, félag félagsvísinda- og sálfræðinema, var stofnað árið 2004.
Magister, félag kennaranema, var stofnað árið 1993.
Reki, félag viðskiptafræðinema, var stofnað árið 1990.
Stafnbúi, félag auðlindafræðinema, var stofnað árið 1990.
↑Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri. (e.d.). Aðildarfélög. Sótt af https://www.fsha.is/is/undirfelog 11. desember 2017
Rektorar
Rektor er forseti Háskólaráðs, yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart starfsfólki og stofnunum innan háskólans og utan. Hann hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki heildarstefnu í málefnum háskólans. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans og á milli funda Háskólaráðs fer hann með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans. Núverandi rektor Háskólans á Akureyri er Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir sem tók við embætti rektors 1. júlí 2025.