Hefðbundin sagnaritun skiptir sögu ólíkra heimshluta í ólík tímabil. Til dæmis er algengt að notast við konungsættir til að afmarka söguleg tímabil eins og gert er í sögu Kína. Í mörgum heimshlutum eru til einhvers konar „klassísk“ tímabil, „miðtímabil“ og „nútími“, en þessi tímabil ná gjarnan yfir ólík tímaskeið. Í sögu Indlands nær til dæmis „klassíska“ tímabilið frá 230 f.o.t. til 1200 e.o.t., „miðtímabil“ frá 1200 til um 1600 og nýöld frá 1600 til okkar daga. Í sögu Ameríku nær „klassíska“ tímabilið frá 200 til 900 þegar Majar mynduðu stór menningarríki, en tímabilið frá 900 til upphafs landvinningatímans 1519 er kallað „síðklassíska“ tímabilið. Í samtímanum tvinnast saga ólíkra heimshluta saman vegna hnattvæðingarinnar.
Mannkynssagan nær yfir um 2,8 milljón ár, frá því ættkvíslin Homo kom fyrst fram á sjónarsviðið til okkar daga. Fyrir um 300.000 árum þróuðust nútímamenn og allar aðrar tegundir af ættkvíslinni dóu smám saman út. Landbúnaðarbyltingin átti sér stað fyrir um 12.000 árum og um 7.000 árum síðar tóku menn að notast við ritmál svo sögulegur tími er í raun agnarlítill hluti af mannkynssögunni í árum talið.
Fyrir 7-5 milljón árum síðan greindist ættkvíslin homininae frá mannöpum í Afríku.[2][3][4][5] Eftir að tegundin greindist frá simpönsum þróaðist tvífætlingsstaða hjá fyrstu suðuröpum (Australopithecus), hugsanlega sem aðlögun að gresjulandslagi í stað skóga.[6][7] Forverar manna tóku að nota frumstæð steinverkfæri fyrir um það bil 3,3 milljónum ára.[8] Sumir steingervingafræðingar hafa stungið upp á 3,39 milljón árum, byggt á beinum frá Dikiki í Eþíópíu sem bera merki um skurði,[9] þótt aðrir dragi það í efa.[10] Það myndi þá marka upphaf fornsteinaldar, miklu fyrr en áður var talið.[11][12]
Ættkvíslin Homo þróaðist frá ættkvísl suðurapa.[13] Elstu minjar um ættkvíslina eru 2,8 milljón ára gömul bein (LD 350-1) frá Eþíópíu,[14] og elsta manntegundin sem lýst hefur verið er Homo habilis sem kom fram fyrir 2,3 milljón árum.[15] Helsti munurinn á Homo habilis og Australopithecus er að heili hinna fyrrnefndu var 50% stærri.[16]H. erectus kom fram á sjónarsviðið fyrir 2 milljón árum[17] og var fyrsta manntegundin sem ferðaðist út fyrir Afríku til Evrasíu.[18] Hugsanlega fyrir 1,5 milljón árum, en örugglega fyrir 250.000 árum, tóku menn að kveikja elda til upphitunar og matreiðslu.[19][20]
Fyrir um 500.000 árum greindist ættkvíslin Homo í margar tegundir frummanna, eins og neanderthalsmenn í Evrópu, denisovmenn í Síberíu, og hina smáu flóresmenn í Indónesíu.[21][22] Þróun mannsins var ekki einfalt línulegt eða sundurgreint ferli, og fól í sér blöndun frummanna og nútímamanna.[23][24] Erfðarannsóknir hafa sýnt fram á að blöndun tiltölulega aðgreindra manntegunda hafi verið algeng í þróunarsögu mannsins.[25] Slíkar rannsóknir benda til þess að mörg gen úr neanderthalsmönnum sé að finna hjá nær öllum hópum fólks utan Afríku sunnan Sahara. Neanderthalsmenn og aðrar manntegundir, eins og denisovmenn, gætu hafa skilið eftir allt að 6% af erfðaefni sínu í nútímamönnum.[26][27]
Elstu nútímamenn
Manntegundin Homo sapiens kom fram á sjónarsviðið í Afríku fyrir 300.000 árum. Hún þróaðist út frá tegundinni Homo heidelbergensis.[28][29][30] Næstu árþúsund hélt þróunin áfram og fyrir um 100.000 árum voru menn farnir að nota skartgripi og okkur til að skreyta líkama sinn.[31] Fyrir um 50.000 árum tóku menn að grafa hina látnu, nota kastvopn og ferðast um höf og vötn.[32] Ein mikilvægasta breytingin (sem ekki er hægt að tímasetja með vissu) var þróun tungumálsins, sem bætti samskiptahæfni manna til mikilla muna.[33] Elstu merki um listræna tjáningu er að finna í hellamálverkum og útskurði í bein, stein og tennur, sem hefur verið túlkað sem merki um andatrú[34] eða sjamanisma.[35] Elstu hljóðfæri sem fundist hafa (fyrir utan mannsröddina) eru beinflautur frá Júrafjöllum í Þýskalandi og eru um 40.000 ára gamlar.[36][37] Steinaldarmenn voru veiðimenn og safnarar og lifðu flökkulífi.[38]
Flutningar nútímamanna frá Afríku áttu sér stað í nokkrum bylgjum fólksflutninga, sem hófust fyrir 194.000 til 177.000 árum.[39] Viðtekin skoðun meðal fræðimanna er að fyrstu bylgjurnar hafi dáið út og að allir nútímamenn utan Afríku séu afkomendur sama hóps sem fluttist þaðan fyrir 70.000-50.000 árum síðan.[40][41][42]H. sapiens fluttist til allra meginlandanna og stærri eyja og kom til Ástralíu fyrir 65.000 árum,[43] Evrópu fyrir 45.000 árum,[44] og Ameríku fyrir 21.000 árum.[45] Þessir fólksflutningar áttu sér stað á síðustu ísöld, þegar mörg af þeim svæðum sem í dag eru hlýtempruð voru óbyggileg vegna kulda.[46][47] Undir lok ísaldarinnar, fyrir um 12.000 árum, höfðu menn náð að breiðast út til nær allra svæða jarðar sem voru laus við ís.[48] Útbreiðsla manna fór saman við fjöldaútdauðann á kvarter og útdauða neanderthalsmanna[49] sem líklega stöfuðu af loftslagsbreytingum, athöfnum manna, eða blöndu af þessu tvennu.[50][51]
Um 10.000 f.o.t. markar landbúnaðarbyltingin upphaf grundvallarbreytinga á lífsháttum manna á nýsteinöld.[52]Landbúnaður hófst á mismunandi tímum á mismunandi svæðum[53] og á sér minnst 11 upprunastaði.[54]Kornrækt og húsdýrahald hófust í Mesópótamíu að minnsta kosti um 8500 f.o.t. og fólust í ræktun hveitis, byggs, kinda og geita.[55] Menn tóku að rækta hrísgrjón við Yangtze-fljót í Kína um 8000-7000 f.o.t. og hirsi kann að hafa verið ræktað við Gulá um 7000 f.o.t.[56] Svín voru mikilvægasta húsdýrið í Kína.[57] Í Sahara í Afríku ræktaði fólk dúrru og aðrar jurtir á milli 8000 og 5000 f.o.t. og aðrar miðstöðvar landbúnaðar voru í hálendi Eþíópíu og regnskógum Vestur-Afríku.[58] Ræktun nytjaplantna hófst í Indusdal um 7000 f.o.t. og tekið var að rækta nautgripi um 6500 f.o.t.[59] Ræktun kúrbíts í Suður-Ameríku byrjaði að minnsta kosti fyrir 8500 f.o.t. og örvarrót var ræktuð í Mið-Ameríku um 7800 f.o.t.[60] Kartöflur voru fyrst ræktaðar í Andesfjöllum þar sem lamadýr voru gerð að húsdýrum.[61][62] Sumir telja líklegt að konur hafi leikið lykilhlutverk í þróun nytjaplantna.[63][64]
Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um orsakir landbúnaðarbyltingarinnar.[65] Sumar þeirra telja að fólksfjölgun hafi fengið fólk til að leita nýrra leiða til að afla matar. Samkvæmt öðrum kenningum var fólksfjölgun afleiðing fremur en orsök betri aðferða við öflun matvæla.[66] Aðrir orsakaþættir sem hafa verið nefndir eru loftslagsbreytingar, skortur á úrræðum, og hugmyndafræði.[67] Umbreytingin skapaði umframmagn matvæla sem hægt var að nota til að halda uppi fólki sem tók ekki beinan þátt í að afla þeirra.[68] Þar með skapaðist grundvöllur fyrir þéttari byggð og fyrstu borgir og ríki urðu til.[69]
Borgirnar urðu miðstöðvar fyrir viðskipti, iðnað og stjórnmál.[70] Þær mynduðu gagnkvæm tengsl við sveitirnar í kring, þaðan sem þær fengu matvæli, en gáfu í staðinn afurðir iðnframleiðslu og stjórnsýslu.[71][72] Elstu borgir sem fundist hafa eru Çatalhöyük og Jeríkó, sem gætu hafa orðið til á 10. eða 9. árþúsundinu f.o.t.[73][74][75]Hirðingjasamfélög sem flökkuðu með hjarðir húsdýra þróuðust á þurrkastöðum sem hentuðu illa til jarðræktar, eins og á Evrasíusteppunni og Sahelsvæðinu í Norður-Afríku.[76] Átök milli hirðingja og bænda með fasta búsetu hafa blossað upp með reglulegu millibili í mannkynssögunni.[77] Nýsteinaldarmenn dýrkuðu forfeður, helgistaði eða goðmögn sem líktust mönnum.[78] Hofbyggingarnar í Göbekli Tepe í Tyrklandi, frá 9500–8000 f.o.t.,[79] eru dæmi um trúarlega byggingarlist frá nýsteinöld.[80]
Málmvinnsla kom fyrst fram með gerð verkfæra og skrautmuna úr kopar um 6400 f.o.t.[81] Gull- og silfurvinnsla fylgdu í kjölfarið, aðallega sem efni í skartgripi.[82] Elstu minjar um gerð brons, sem er málmblanda kopars og tins, eru frá því um 4500 f.o.t.[83] Bronsvinnsla varð þó ekki algeng fyrr en á þriðja árþúsundinu f.o.t.[84]
Skrift auðveldaði stjórnsýslu borga, tjáningu hugmynda, og varðveislu upplýsinga.[104] Hún gæti hafa þróast með sjálfstæðum hætti að minnsta kosti á fjórum stöðum: í Mesópótamíu um 3300 f.o.t.,[105] Egyptalandi um 3250 f.o.t.,[106][107] Kína um 1200 f.o.t.,[108] og Mið-Ameríku um 650 f.o.t.[109] Til eru eldri ummerki um frumskrift, en elsta þekkta ritkerfið eru fleygrúnir frá Mesópótamíu. Þær þróuðust út frá myndletri sem smám saman varð óhlutbundnara.[110][111] Önnur útbreidd ritkerfi voru helgirúnir Egypta og indusskrift.[112] Í Kína var fyrst tekið að nota ritmál á tímum Shang-veldisins, 1766-1045 f.o.t.[113][114]
Árnar og höfin auðvelduðu flutninga, sem ýtti undir viðskipti með vörur, hugmyndir og nýja tækni.[115][116] Ný hernaðartækni sem kom fram á bronsöld, eins og riddaralið á tömdum hestum, og stríðsvagnar, gerðu herjum kleift að færa sig milli staða hraðar en áður.[117][118] Verslun varð sífellt mikilvægari og borgarsamfélög þróuðu iðnað sem reiddi sig á hráefni frá fjarlægum löndum. Til varð net verslunarleiða og hnattvæðing fornaldar hófst.[119] Sem dæmi, þá notaðist bronsframleiðsla í Suðvestur-Asíu við innflutt tin sem gat borist þangað alla leið frá Englandi.[120]
Vexti borga fylgdi oft stofnun ríkja og stórvelda.[121] Egyptaland skiptist upphaflega í Efra- og Neðra-Egyptaland, en löndin tvö voru sameinuð í eitt ríki í öllum Nílardalnum um 3100 f.o.t.[122] Um 2600 f.o.t. voru borgirnar Harappa og Mohenjo-daro reistar í árdal Indusfljótsins.[123][124] Saga Mesópótamíu einkenndist af stríðum milli borgríkja, sem skiptust á að fara með forræði yfir landinu.[125] Frá 25. til 21. aldar f.o.t. risu stórveldi Akkadíu og Súmer á þessu svæði.[126]Mínóíska menningin kom fram á eynni Krít um 2000 f.o.t. og er sögð vera fyrsta siðmenningarsamfélagið í Evrópu.[127]
Næstu árþúsundin risu samfélög af þessu tagi um allan heim.[128] Um 1600 f.o.t. hóf Mýkenumenningin að þróast á Grikklandi.[129] Hún blómstraði fram að Bronsaldarhruninu sem reið yfir mörg samfélög við Miðjarðarhaf milli 1300 og 1000 f.o.t.[130] Undirstöður indverskrar menningar (meðal annars hindúasiður) voru lagðar á Vedatímabilinu, 1750-600 f.o.t.[131] Frá um 550 f.o.t. urðu til mörg sjálfstæð konungsríki og lýðveldi á Indlandsskaga sem eru þekkt sem Mahajanapada-ríkin.[132]
Þjóðir sem töluðu bantúmál hófu að breiðast út um miðja og sunnanverða Afríku frá 3000 f.o.t.[133] Þessi útþensla og samskipti þeirra við aðrar þjóðir urðu til þess að breiða út blandaðan búskap og járnvinnslu í Afríku sunnan Sahara, og leiddu til þróunar samfélaga eins og Nok-menningarinnar þar sem Nígería er nú um 500 f.o.t.[134]Lapita-menningin varð til á Bismarck-eyjum nærri Nýju-Gíneu um 1500 f.o.t. og nam land á mörgum fjarlægum eyjum Eyjaálfu, allt að Samóa, fyrir 700 f.o.t.[135]
Þær hugmyndir sem komu fram á öxulöld mótuðu hugmynda- og trúarbragðasögu heimsins. Konfúsíusismi var einn af þremur skólum sem urðu ríkjandi í kínverskri hugmyndasögu, ásamt daóisma og löghyggju.[155] Konfúsíska hefðin leitaðist við að þróa stjórnvisku byggða á hefðum fremur en ströngum lögum.[156] Konfúsíusismi breiddist síðar út til Kóreu og Japans.[157] Búddatrú náði til Kína á 1. öld[158] og breiddist hratt út. Á 7. öld voru 30.000 búddahof í Norður-Kína.[159] Búddatrú varð ríkjandi trúarbrögð í stórum hluta Suður-, Suðaustur- og Austur-Asíu.[160]Gríska heimspekin[161] breiddist út um Miðjarðarhafið, og náði allt til Indlands, frá 4. öld f.o.t., eftir landvinninga Alexanders mikla frá Makedóníu.[162] Bæði kristni og íslam þróuðust síðar út frá gyðingdómi.[163]
Staðbundin stórveldi
Á þúsund ára tímabili milli 500 f.o.t. og 500 e.o.t. risu nokkur ríki sem náðu meiri stærð en áður þekktist. Þjálfaðir atvinnuhermenn, hugmyndafræði og þróuð stjórnsýsla gerðu keisurum kleift að stýra stórum ríkjum þar sem fjöldi íbúa gat náð tugum milljóna.[164] Á sama tíma þróuðust langar verslunarleiðir, sérstaklega siglingaleiðir í Miðjarðarhafi, Indlandshafi og Silkivegurinn um Asíu.[165]
Rómverska lýðveldið var stofnað í Evrópu á 6. öld f.o.t.[181] og hóf útþenslu sína á 3. öld f.o.t.[182] Lýðveldið breyttist í rómverska keisaradæmið undir stjórn Ágústusar keisara. Á þeim tíma höfðu Rómverjar náð yfirráðum yfir nær öllu Miðjarðarhafi.[183] Rómaveldi hélt útþenslu sinni áfram og náði hátindi sínum í valdatíð Trajanusar (53-117) þegar ríkið náði frá Englandi til Mesópótamíu.[184] Á eftir fylgdu tvær aldir sem kenndar eru við Rómarfrið þar sem þær einkenndust af friði, velmegun og stöðugleika í stórum hluta Evrópu.[185]Kristni varð lögleg í valdatíð Konstantínusar 1. árið 313, eftir þriggja alda ofsóknir gegn kristnum mönnum í Rómaveldi. Árið 380 varð kristni einu löglegu trúarbrögðin í keisaradæminu. Þeódósíus 1. bannaði heiðin trúarbrögð 391-392.[186]
Í Kína batt Qin Shi Huang enda á öld hinna stríðandi ríkja með því að sameina Kína í Qin-veldið (221-206 f.o.t.).[192][193] Qin Shi Huang aðhylltist löghyggjuskólann og kom á áhrifaríku stjórnkerfi með hæfum embættismönnum í stað aðalsins.[194] Harka Qin-veldisins leiddi til uppreisna og falls keisaradæmisins.[195] Á eftir því kom Hanveldið (202 f.o.t.-220 e.o.t.) sem sameinaði löghyggjuna og konfúsíusisma.[196][197] Hanveldið var sambærilegt að stærð og áhrifum við Rómaveldi á hinum enda Silkivegarins.[198] Efnahagsuppgangur leiddi til landvinninga í Mongólíu, Mið-Asíu, Mansjúríu, Kóreu og Norður-Víetnam.[199] Líkt og hjá öðrum stórveldum fornaldar urðu miklar framfarir í stjórnsýslu, menntun, vísindum og tækni í Kína Hanveldisins.[200][201] Á þeim tíma tók fólk að nota leiðarsteina (forvera áttavitans) og pappír (tvær af kínversku uppfinningunum fjórum).[202][203]
Konungsríkið Kús blómstraði í Norðaustur-Afríku vegna viðskipta við Egypta og þjóðir sunnan Sahara.[204] Það ríkti yfir Egyptalandi sem tuttugasta og fimmta konungsættin frá 712 til 650 f.o.t. og hélt svo velli sem verslunarveldi í kringum borgina Meróe fram á fjórðu öld.[205] Á 1. öld var konungsríkið Aksúm stofnað þar sem Eþíópía er nú og myndaði stórt verslunarveldi við Rauðahaf sem náði yfir bæði Suður-Arabíu og Kús.[206] Konungar Aksúm slógu peninga og reistu gríðarstóra einsteinunga yfir grafir keisara.[207]
Í Ameríku urðu líka til staðbundin stórveldi allt frá 2500 f.o.t.[208] Í Mið-Ameríku þróuðust stór þjóðfélög eins og ríki Sapóteka (700 f.o.t.-1521 e.o.t.)[209][210] og Maja, sem náði hátindi sínum á klassíska tímabilinu (um 250-900),[211] og hélt velli út allt síðklassíska tímabilið.[212] Borgríki Maja urðu smám saman fleiri og stærri og menning þeirra breiddist út um Júkatanskaga og til nærliggjandi svæða.[213] Majar þróuðu ritmál og notuðust við núll í útreikningum.[214] Vestan við Maja, í miðhluta Mexíkó, blómstraði stórborgin Teotihuacan sem stýrði verslun með hrafntinnu.[215] Veldi hennar var mest um 450 e.o.t. þegar íbúar voru milli 125 og 150.000 og borgin því ein sú stærsta í heimi.[216]
Þróun tækni í fornöld gekk í bylgjum.[217] Oft komu tímabil þar sem tækniþróun var mjög hröð, eins og grísk-rómverska tímabilið við Miðjarðarhafið.[218] Talið er að grísk vísindi, tækni og stærðfræði hafi náð hátindi sínum á helleníska tímabilinu. Frá þeim tíma eru tæki eins og Antikyþera-sólkerfislíkanið.[219] Á milli komu tímabil hnignunar, eins og þegar Rómaveldi tók að hnigna.[220] Tvær mikilvægustu tækninýjungar þessa tíma voru pappír (Kína á 1. og 2. öld)[221] og ístaðið (Indland á 2. öld f.o.t. og Mið-Asía á 1. öld).[222] Báðar þessar nýjungar breiddust hratt um heiminn. Í Kína tók fólk að gera silki og Kínverjar réðust í stórar byggingaframkvæmdir eins og Kínamúrinn og Kínaskurðinn.[223] Rómverjar voru líka mikilhæfir steinsmiðir. Þeir fundu upp steinsteypu, fullkomnuðu aðferðir við gerð boga og reistu kerfi áveita til að flytja vatn til borga sinna.[224][225]
Í flestum fornaldarsamfélögum var þrælahald stundað.[226] Þetta var sérstaklega áberandi í Aþenu og Rómaveldi þar sem þrælar voru stórt hlutfall íbúa og undirstaða efnahagslífsins.[227] Algengt var að samfélagsskipanin byggðist á feðraveldi þar sem karlar höfðu meiri völd en konur.[228]
Hnignun, fall og endurreisn
Algeng vandamál sem stórveldi fornaldar stóðu frammi fyrir voru viðhald stórra herja og miðlægrar stjórnsýslu.[229] Í Róm og Kína Hanveldisins tók ríkinu að hnigna og árásir barbara við landamærin flýttu fyrir upplausn innanlands.[229] Borgarastyrjöld braust út í Hanveldinu árið 220 og leiddi til þriggja ríkja tímabilsins, meðan Rómaveldi skiptist um sama leyti í þriðju aldar kreppunni.[230]Evrasískir hirðingjar á hestum ríktu yfir stórum hlutum evrasíska meginlandsins.[231] Ístaðið og bogaskyttur á hestbaki gerðu þeim kleift að ógna samfélögum sem byggðust á fastri búsetu.[232]
Á 4. öld klofnaði Rómaveldi til frambúðar í vestur- og austurhluta undir sitt hvorum keisaranum.[233]Vestrómverska keisaradæmið féll í hendur Germana undir forystu Ódóakers árið 476.[233] Austrómverska keisaradæmið, þekkt sem Býsantíum, stóð miklu lengur.[234] Keisaraveldin í Kína risu og hnigu með reglulegu millibili, en ólíkt stórveldunum við Miðjarðarhafið, var landið alltaf sameinað á ný.[235] Eftir fall Austur-Hanveldisins og hrun ríkjanna þriggja, gerðu hirðingjar innrás úr norðri og hröktu marga kínverska þjóðflokka á flótta til suðurs.[236]
Síðklassíska tímabilið
Frá því seint á 20. öld hefur verið vaxandi tilhneiging til að notast við hugtök á borð við „síðklassíska tímabilið“ yfir tímabilið frá um 500 til um 1500, til að forðast hugtakið „miðaldir“, sem tengist fyrst og fremst sögu Evrópu.[b] Áður hefur síðfornöld verið notað um tímabil í sögu Evrópu sem nær frá um 250 til 600.[c][d] Upphaf tímabilsins markast af hruni nokkurra stórvelda fornaldar, eins og Hanveldisins í Kína (220), Vestrómverska keisaradæmisins í Evrópu (476), Guptaveldisins á Indlandi (543) og Sassanída í Íran (651).
Fyrir útbreiðslu íslam á 7. öld ríktu Austrómverska keisaradæmið og Sassanídar yfir Mið-Austurlöndum og tókust þar á um yfirráð yfir umdeildum landsvæðum.[249] Átökin voru jafnframt menningarleg, þar sem kristin menning Býsantíum, tókst á við sóríska menningu Persa.[250] Með uppgangi íslam kom nýr samkeppnisaðili til sögunnar, sem brátt varð voldugri en bæði keisaraveldin.[251]
Múhameð, stofnandi íslam, hóf landvinninga múslima á 7. öld.[252] Hann stofnaði nýtt sameinað ríki á Arabíuskaga sem stækkaði hratt undir stjórn Rasídúna og Úmajada. Þessir landvinningar náðu hámarki þegar yfirráð múslima náðu yfir þrjár heimsálfur (Asíu, Afríku og Evrópu) árið 750.[253] Á tímum Abbasída stóð gullöld íslam sem einkenndist af menntun, vísindum og tækniframförum, þar sem íslömsk heimspeki, íslömsk myndlist og íslamskar bókmenntir blómstruðu.[254][255] Íslamskir menntamenn varðveittu og þróuðu áfram þekkingu og tækni Grikkja og Persa,[256] lærðu pappírsframleiðslu af Kínverjum[257] og tóku upp tugakerfið frá Indlandi.[258] Á sama tíma gerðu þeir nýjar uppgötvanir á mörgum sviðum, eins og með algebruAl-Khwarizmis og heimspeki Avicenna.[259] Íslömsk siðmenning breiddist út með landvinningum og verslun.[260] Kaupmenn áttu þátt í að breiða út íslam í Kína, Indlandi, Suðaustur-Asíu og Afríku.[261]
Yfirráð Araba í Mið-Austurlöndum tóku enda um miðja 11. öld þegar Seljúkar, tyrkísk þjóð sem fluttist suður á bóginn frá Mið-Asíu, kom til skjalanna.[262] Vegna landvinninga Seljúka í Litlu-Asíu og Botnalöndum hófu Evrópubúar krossferðir gegn þeim. Krossferðirnar voru nokkrar skipulegar herfarir gerðar í þeim tilgangi að endurheimta landsvæði úr höndum múslima, sérstaklega Landið helga.[263] Á endanum mistókst ætlunarverkið, en krossferðirnar veiktu Austrómverska ríkið verulega, sérstaklega rán Konstantínópel árið 1204.[264] Snemma á 13. öld gerði nýr innrásarher, Mongólar, árásir á Mið-Austurlönd. Árásirnar bundu enda á gullöld íslam, en að lokum tóku Tyrkir við og stofnuðu Tyrkjaveldi þar sem Tyrkland er nú, um 1299.[265][266]
Steppuhirðingjar frá Mið-Asíu ógnuðu enn kyrrsetusamfélögum á síðklassíska tímabilinu, en stóðu líka frammi fyrir innrásum Araba og Kínverja.[267] Á tímum Sui-veldisins (581–618) stækkaði Kína og náði inn í Mið-Asíu.[268] Kínverjar mættu þar tyrkískum þjóðum sem voru þá orðnar ríkjandi í þeim heimshluta.[269][270] Í byrjun einkenndust samskiptin af samvinnu, en árið 630 hóf Tangveldið hernað gegn Tyrkjum með því að leggja undir sig hluta Ordoseyðimerkurinnar.[271] Á 8. öld barst íslam til svæðisins og varð brátt eina trú flestra íbúa, þótt búddatrú héldi enn stöðu sinni í austri.[272] Frá 9. öld til 13. aldar skiptist Mið-Asía milli nokkurra öflugra ríkja eins og Samanída,[273]Seljúka,[274] og Khwarazm-veldisins. Öll þessi ríki féllu undir stjórn Mongóla á 13. öld.[275] Árið 1370 náði tyrkísk-mongólski herforinginn Tímúr að leggja svæðið undir sig og stofna Tímúrveldið.[276] Þetta heimsveldi hrundi skömmu eftir lát Tímúrs,[277] en afkomendur hans héldu völdum á litlu kjarnasvæði í Mið-Asíu og Íran.[278] Þar átti Tímúrendurreisnin í myndlist og byggingarlist sér stað.[279]
Allt frá því á 4. öld hefur kristni leikið stórt hlutverk við að móta menningu, gildi og stofnanir vestrænnar siðmenningar.[280]Ármiðaldir í Evrópu einkenndust af fólksfækkun, dreifbýlisvæðingu og árásum barbara, sem allt hófst í síðfornöld.[281] Barbarar stofnuðu ný ríki þar sem Vestrómverska ríkið stóð áður.[282] Þrátt fyrir miklar samfélagslegar og stjórnarfarslegar breytingar, nýttu flest nýju konungsríkin sér stofnanir frá tímum Rómaveldis.[283] Kristni breiddist út um Vestur-Evrópu, og klausturlífi voru stofnuð.[284] Á 7. og 8. öld stofnuðu FrankarKarlungaveldið sem náði yfir megnið af Vestur-Evrópu.[285] Karlungaveldið stóð til 9. aldar þegar nýir innrásarherir Víkinga, Magýara og Araba, tóku að herja á það.[286] Á Karlungatímabilinu þróaðist nótnaskrift (neume) í kirkjum og varð grundvöllur nútímanótnaskriftar.[287]Garðaríki stækkaði frá höfuðstaðnum Kænugarði og varð stærsta Evrópuríkið seint á 10. öld. Árið 988 tók Valdimar gamli upp kristinn rétttrúnað sem ríkistrú.[288][289]
Hámiðaldir hófust eftir árþúsundaskiptin 1000. Á þeim tíma jókst íbúafjöldi Evrópu þar sem framfarir í samgöngutækni og landbúnaðarframleiðslu leiddu til aukinnar verslunar og uppskeru.[290] Komið var á lénskerfi sem hafði mikil áhrif á samfélagið. Landeigendur reistu herragarða, en bændur urðu leiguliðar sem bjuggu í þorpum og greiddu leigu og inntu af hendi vinnu fyrir landeigendur. Riddarar og annar lágaðall voru bundnir hærra settum aðalsmönnum með lénsskyldu þar sem þeir inntu af hendi herskyldu fyrir réttinn til að innheimta leigu af tilteknu landi.[291] Konungsríki urðu stærri og miðstýring jókst á ný, eftir valddreifingu sem fylgdi upplausn Karlungaveldisins.[292] Árið 1054 átti kirkjusundrungin sér stað, þar sem kristin kirkja klofnaði í vestræna kaþólska kirkju og austræna rétttrúnaðarkirkju, sem jafnframt fól í sér menningarlegan klofning í Vestur- og Austur-Evrópu.[293]Krossferðirnar, herfarir kristinna manna til að vinna Landið helga af múslimum, leiddu til stofnunar nokkurra Krossfararíkja í Mið-Austurlöndum.[294] Ítalskir kaupmenn fluttu inn þræla til að starfa við heimilisstörf eða við sykurvinnslu.[295]Skólaspeki var ríkjandi stefna í heimspeki og háskólar voru stofnaðir. Bygging dómkirkja í gotneskum stíl er eitt af því sem helst einkennir byggingarlist þessa tímabils í Evrópu.[296] Á miðöldum hófst þéttbýlisvæðing í Norður- og Vestur-Evrópu, sem hélt áfram til upphafs árnýaldar á 16. öld.[297]
Innrásir Mongóla í Evrópu hófust árið 1236. Mongólar lögðu Garðaríki undir sig og réðust stuttlega inn í Pólland og Ungverjaland.[298]Stórhertogadæmið Litáen gerðist bandamaður Mongóla, en hélt sjálfstæði sínu og myndaði konungssamband við Pólland seint á 14. öld.[299]Síðmiðaldir einkenndust af erfiðleikum og áföllum.[300] Farsóttir og stríð urðu til þess að íbúafjöldi Vestur-Evrópu hrundi.[301] Talið er að svartidauði einn og sér hafi leitt til dauða 75 til 200 milljóna á aðeins þremur árum, frá 1347 til 1350.[302][303] Svartidauði var ein af mannskæðustu farsóttum mannkynssögunnar. Hann hófst í Asíu og náði Miðjarðarhafi og Vestur-Evrópu seint á 5. áratug 14. aldar.[304] Þar olli hann dauða tugmilljóna á sex árum. Talið er að fjórðungur til þriðjungur íbúafjöldans hafi dáið úr farsóttinni.[305]
Eftir fall Guptaveldisins árið 550, skiptist Norður-Indland milli nokkurra minni ríkja.[339] Fyrstu innrásir múslima á Indlandsskaga enduðu með því að Umayya-kalífadæmið lagði undir sig mest af því svæði sem í dag er Pakistan.[253] Framsókn Araba stöðvaðist þar, en íslam breiddist út með arabískum kaupmönnum meðfram vesturströnd Indlands.[243] Á 9. öld hófust átök um stjórn Norður-Indlands milli Gurjara-Pratihara-ættar, Palaveldisins og Rashtrakuta-ættar.[340]
Eftir sundrungartímabil var Kína sameinað á ný undir Sui-veldinu árið 589.[352] Þegar Tangveldið (618–907) tók við hófst gullöld sem einkenndist af pólitískum stöðugleika og efnahagsuppgangi, þar sem bókmenntir og listir blómstruðu. Frá þeim tíma eru Tangljóðin eftir Li Bai og Du Fu.[353][354] Sui-veldið og Tangveldið komu á keisaralegum prófum þar sem stjórnunarstöður voru veittar mönnum sem stóðust erfitt próf í konfúsískri hugsun og klassískum kínverskum bókmenntum.[355][356] Kína átti í samkeppni við Tíbetveldið (618-842) um yfirráð yfir svæðum í Innri-Asíu.[357] Tangveldið klofnaði að lokum og við tók tími fimm konungsætta og tíu konungsríkja sem stóð í hálfa öld þar til Songveldið sameinaði stóran hluta landsins á ný.[358] Þrýstingur frá hirðingjum í norðri fór vaxandi.[359] Um 1127 var Norður-Kína undir stjórn Jurchena eftir Jin-Song-stríðin og Mongólar lögðu síðan allt Kína undir sig árið 1279.[360] Eftir um eina öld af yfirráðum Mongóla tóku Kínverjar aftur völdin þegar Mingveldið var stofnað árið 1368.[359]
↑Kropacek, Lubos (1984). „Nubia from the late 12th century to the Funj conquest in the early 15th century“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
↑Tadesse, Tamrat (1984). „The Horn of Africa: The Solomonids in Ethiopia and the states of the Horn of Africa“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
↑Tamrat, Taddesse (1977), Oliver, Roland (ritstjóri), „Ethiopia, the Red Sea and the Horn“, The Cambridge History of Africa: Volume 3: From c.1050 to c.1600, The Cambridge History of Africa, Cambridge: Cambridge University Press, 3. árgangur, bls. 98–182, ISBN978-0-521-20981-6, sótt 3. september 2024
↑ 316,0316,1Tamrat, Taddesse (1977), Oliver, Roland (ritstjóri), „Ethiopia, the Red Sea and the Horn“, The Cambridge History of Africa: Volume 3: From c.1050 to c.1600, The Cambridge History of Africa, Cambridge: Cambridge University Press, 3. árgangur, bls. 98–182, ISBN978-0-521-20981-6, sótt 3. september 2024
↑Vansina, Jan (1984). „Equatorial Africa and Angola: Migrations and the emergence of the first states“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
Bentley, Jerry H.; Ziegler, Herbert F. (2008). Traditions & Encounters: A Global Perspective on the Past: Volume II From 1500 to the Present (4th. útgáfa). McGraw-Hill. ISBN978-0-07-333063-1.
Chakrabarti, Dilip K. (2004). „Introduction“. Í Chkrabarti, Dilip K. (ritstjóri). Indus Civilization Sites in India: New Discoveries. Marg Publications. bls. 10–13. ISBN978-81-85026-63-3.
Geraghty, Paul (1994). „Linguistic Evidence for the Tongan Empire“. Í Dutton, Tom (ritstjóri). Language Contact and Change in the Austronesian World. Trends in linguistics: Studies and monographs. 77. árgangur. Gruyter. ISBN978-3-11-012786-7. Afrit af uppruna á 29. apríl 2024. Sótt 6. júní 2016.
Koch, Paul L.; Barnosky, Anthony D. (2006). „Late Quaternary Extinctions: State of the Debate“. Annual Review of Ecology, Evolution, and Systematics. 37 (1): 215–250. doi:10.1146/annurev.ecolsys.34.011802.132415. S2CID16590668.
Larson, G.; Piperno, D. R.; Allaby, R. G.; Purugganan, M. D.; Andersson, L.; Arroyo-Kalin, M.; Barton, L.; Climer Vigueira, C.; Denham, T.; Dobney, K.; Doust, A. N.; Gepts, P.; Gilbert, M. T. P.; Gremillion, K. J.; Lucas, L.; Lukens, L.; Marshall, F. B.; Olsen, K. M.; Pires, J.C.; Richerson, P. J.; Rubio De Casas, R.; Sanjur, O.I.; Thomas, M. G.; Fuller, D.Q. (2014). „Current Perspectives and the Future of Domestication Studies“. PNAS. 111 (17): 6139–6146. Bibcode:2014PNAS..111.6139L. doi:10.1073/pnas.1323964111. PMC4035915. PMID24757054.
Lewton, Kristi L. (2017). „Bipedalism“. Í Fuentes, Agustín (ritstjóri). The International Encyclopedia of Primatology, 3 Volume Set (enska). John Wiley & Sons. ISBN978-0-470-67337-9.
McPherron, Shannon P.; Alemseged, Zeresenay; Marean, Curtis W.; Wynn, Jonathan G.; Reed, Denné; Geraads, Denis; Bobe, René; Béarat, Hamdallah A. (2010). „Evidence for Stone-tool-assisted Consumption of Animal Tissues Before 3.39 million Years Ago at Dikika, Ethiopia“. Nature. 466 (7308): 857–860. Bibcode:2010Natur.466..857M. doi:10.1038/nature09248. PMID20703305. S2CID4356816.
Stutz, Aaron Jonas (2018). „Paleolithic“. Í Trevathan, Wenda; Cartmill, Matt; Dufour, Darna; Larsen, Clark (ritstjórar). The International Encyclopedia of Biological Anthropology (enska). Hoboken: John Wiley & Sons, Inc. bls. 1–9. doi:10.1002/9781118584538.ieba0363. ISBN978-1-118-58442-2. S2CID240083827. Afrit af uppruna á 1. ágúst 2022. Sótt 4. ágúst 2022.
Wengrow, David (2011). „The Invention of Writing in Egypt“. Before the Pyramids: Origin of Egyptian Civilization. Oriental Institute of the University of Chicago.
Whitecotton, Joseph W. (1977). The Zapotecs: Princes, Priests, and Peasants. University of Oklahoma Press.
Wragg-Sykes, Rebecca (2016). „Humans Evolve“. Big History: Our Incredible Journey, from Big Bang to Now (enska). Dorling Kindersley. ISBN978-0-241-22590-5. Afrit af uppruna á 2. maí 2024. Sótt 4. maí 2024.
↑Rapp, Claudia; Drake, H.A. (ritstjórar), The City in the Classical and Post-Classical World, Cambridge University Press, bls. xv–xvi, doi:10.1017/cbo9781139507042.016 (óvirkt 27 May 2024)