Aristóteles

Aristóteles
Aristóteles
Persónulegar upplýsingar
Fæddur384 f.Kr.
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilFornaldarheimspeki
Skóli/hefðplatonismi (umdeilt), aristótelismi
Helstu ritverkUmsagnir; Fyrri rökgreiningar; Síðari rökgreiningar; Almæli; Um sálina; Eðlisfræðin; Frumspekin; Siðfræði Níkómakkosar; Stjórnspekin; Mælskufræðin; Um skáldskaparlistina; Rannsóknir á dýrum; Um tilurð dýra
Helstu kenningarUmsagnir; Fyrri rökgreiningar; Síðari rökgreiningar; Almæli; Um sálina; Eðlisfræðin; Frumspekin; Siðfræði Níkómakkosar; Stjórnspekin; Mælskufræðin; Um skáldskaparlistina; Rannsóknir á dýrum; Um tilurð dýra
Helstu viðfangsefnirökfræði, háttarökfræði, vísindaheimspeki, þekkingarfræði, verufræði, frumspeki, náttúruspeki, hugspeki, sálfræði, siðfræði, stjórnspeki, mælskufræði, bókmenntarýni, veðurfræði, líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, dýrafræði, grasafræði

Aristóteles (gríska: Αριστοτέλης Aristotelēs; 3847. mars 322 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá borginni Stagíru. Hann var nemandi Platons og kennari Alexanders mikla. Aristóteles er, ásamt Platoni, af mörgum talinn áhrifamesti hugsuður í vestrænni heimspeki.[1] Hann var einnig mikilvirkur vísindamaður og fékkst við flestar greinar vísinda síns tíma. Hann skrifaði fjölmargar bækur m.a. um rökfræði (fræðigrein sem hann fann upp), verufræði, frumspeki, eðlisfræði, sálfræði, líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, dýrafræði, grasafræði, mælskufræði, skáldskaparfræði, siðfræði, stjórnmálafræði og sögu heimspekinnar fram að hans tíma. Bróðurhluti þess efnis sem Aristóteles skrifaði hefur týnst, enduruppgötvast og týnst á ný í gegnum aldirnar. Talið er að aðeins um fimmtungur af verkum hans hafi varðveist.

Æviágrip

Aristóteles fæddist í borginni Stagíru við austurströnd Kalkidíku (í dag Makedónía skammt frá Þessaloniki). Faðir hans hét Níkómakkos og móðir hans Fæstis.[2] Níkómakkos var líflæknir, þ.e. einkalæknir, Amyntasar III frá Makedóníu. Aristóteles hlaut uppeldi sem var samboðið aðalsstéttinni, 17 ára gamall var hann sendur til Aþenu til að stunda nám við Akademíu Platons. Þar var Aristóteles í tæpa tvo áratugi. Hann yfirgaf Akademíuna eftir að Platon lést árið 347 f.Kr. Þá ferðaðist hann ásamt Xenokratesi, kennara við Akademíu Platons, og heimsótti meðal annars hirð Hermeiasar frá Atarnevs í Litlu Asíu og dvaldi þar í þrjú ár. Aristóteles ferðaðist um Asíu og grísku eyjarnar ásamt Þeófrastosi, skólafélaga Aristótelesar frá Akademíu Platons. Þeir fóru meðal annars til Lesbeyjar, þar sem þeir stunduðu rannsóknir í grasafræði og dýrafræði. Aristóteles kvæntist frænku (eða dóttur) Hermeiasar, Pyþías. Hún ól honum dóttur sem var nefnd Pyþías eftir móður sinni. Skömmu eftir að Hermeias lést fékk Aristóteles boð um að gerast kennari Alexanders, sonar Filipposar II frá Makedóníu.

Aristóteles varði nokkrum árum í Makedóníu þar sem hann kenndi ekki aðeins Alexandri en einnig tveimur verðandi konungum: Ptólemajosi I Sóter og Kassandrosi. Aristóteles sneri að því loknu aftur til Aþenu og stofnaði hinn fornfræga skóla Lýkeion árið 335 f.Kr. Þar kenndi hann og stundaði rannsóknir næstu tólf árin. Þegar Pyþías, kona hans, lést tók Aristóteles saman við Herpyllis frá Stagíru. Hún ól honum soninn Níkómakkos. Í Suda, grískri alfræðiorðabók um Forn-Grikkland frá tíundu öld, er því haldið fram að Aristóteles hafi átt í kynferðislegu sambandi við ungan strák eins og tíðkaðist á þeim tíma.

Talið er að Aristóteles hafi samið mörg eða flest rita sinna á þessum tíma. Hann samdi fjölmargar samræður en einungis brot eru varðveitt úr þeim. Varðveitt rit hans eru ritgerðir og fyrirlestradrög sem voru ekki ætluð útgáfu. Meðal þeirra mikilvægustu má nefna Eðlisfræðina, Frumspekina, Siðfræði Níkómakkosar, Stjórnspekina, Um sálina, Um skáldskaparlistina og rökfræðiritin sem kallast einu nafni Organon.

Aristóteles lagði stund á nær allar greinar vísinda síns tíma, þar á meðal eðlisfræði, stjörnufræði, hagfræði, fósturfræði, landafræði, jarðfræði, veðurfræði, grasafræði, dýrafræði og líffærafræði. Í heimspeki fjallaði hann um siðfræði, stjórnspeki, rökfræði, vísindaheimspeki, frumspeki, sálfræði, fagurfræði, mælskufræði og guðfræði. Hann fékkst einnig við bókmenntarýni.

Eftir að Alexander lést árið 323 f.Kr. jókst andúð á Makedóníu í Aþenu. Evrymedon nokkur sakaði Aristóteles um að virða ekki guðina. Aristóteles flúði þá borgina og hélt til Evboju. Kvaðst hann ekki leyfa Aþeningum að syndga tvisvar gegn heimspekinni og átti þar við örlög Sókratesar. Hann lést ári síðar úr veikindum. Í erfðaskrá sinni bað hann um að verða grafinn við hlið konu sinnar.

Heimspeki Aristótelesar

Fræðimenn eru ekki allir á einu máli um hvernig heimspeki Aristótelesar þróaðist.[3] Sumir telja að hann hafði í upphafi verið undir meiri áhrifum frá Platoni en hafi síðar orðið ósammála læriföður sínum um flest. Aðrir telja að Aristóteles hafi í upphafi verið um flest á öndverðum meiði við Platon en hafi með tímanum orðið æ meira sammála honum.

Rökfræði

Aristóteles fann upp rökfræðina sem fræðigrein.[4] Enda þótt einhverjar framfarir hafi orðið í rökfræði stóumanna á helleníska tímanum var rökfræði Aristótelesar ríkjandi allt fram á 19. öld. Immanuel Kant sagði í Gagnrýni hreinnar skynsemi að rökfræði Aristótelesar væri fullkomin og gæti ekki tekið neinum framförum.

Það sem í dag er kallað aristótelísk rökfræði kallaði Aristóteles sjálfur rökgreiningu (analytike). Rit Aristótelesar um rökfræði eru sex talsins en saman ganga þau undir nafniu Organon (eða Verkfærið). Þau eru:

Umsagnir fjalla um ólíkar gerðir umsagna sem eiga við hverju sinni.[5] Um túlkun skilgreinir meginhugtök eins og nöfn, sagnir, staðhæfingar, játanir, neitanir og setningar og greinir frá meginatriðum háttarökfræðinnar, þ.e. hvernig staðhæfingar (játanir og neitanir) um nauðsyn og möguleika tengjast. Í Fyrri og Síðari rökgreiningunum er að finna ítarlega greiningu á rökhendum og sönnunum. Í Almælum fjallar Aristóteles um meginatriðin í rökræðulistinni (díalektík) og Spekirök fjalla um ýmsar rökbrellur sófistanna sem varast ber. Auk ritanna í Organon fjallar Aristóteles um rökfræðitengd efni í fjórðu bók Frumspekinnar til að mynda sannleikshugtakið, mótsagnarlögmálið[6] og lögmálið um annað tveggja.

Frumspeki

Platon (til vinstri) og Aristóteles (til hægri) á málverki Rafaels Skólanum í Aþenu. Á kili bókarinnar sem Aristóteles heldur á stendur Ethica, þ.e. Siðfræði Níkomakkosar

Aristóteles aðhylltist ekki frummyndakenninguna en hann gagnrýnir hana harkalega víða í ritum sínum. Frumspeki hans byggðist hugmyndinni um verund og eiginleika.[7] Í Umsögnum segir Aristóteles að verund sé það sem er ekki sagt um neitt annað. Eiginleikar eru hins vegar umsagnir verunda. Auk greinarmunarins á verundum og eiginleikum liggur greinarmunurinn á formi og efni til grundvallar allri frumspeki Aristótelesar. Ítarlegasta rannsókn Aristótelesar á verundum er í 7. bók Frumspekinnar. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að verund sé eining forms og efnis. Efnið er megund verundarinnar en formið er raungerving hennar.

Siðfræði

Siðfræði Aristótelesar var kerfisbundin dygðasiðfræði.[8] Í mikilvægasta riti sínu um siðfræði Siðfræði Níkomakkosar gerir Aristóteles ítarlega grein fyrir eðli dygðarinnar og ræðir samband dygðar og hamingju eða farsældar (evdæmonía). Aristóteles færði rök fyrir því að dygð væri meðalhóf tveggja lasta;[9] til dæmis væri hugrekki meðalvegur hugleysis og fífldirfsku sem gerandinn velur af réttum ástæðum í samræmi við rétta sálarhneigð. Hann taldi enn fremur að dygðin væri nauðsynleg forsenda farsældar en þó ekki nægjanleg forsenda. Í siðfræði Aristótelesar liggur áherslan ekki á athöfnum manna heldur skapgerð þeirra, ekki á því hvað þeir gera í tilteknum aðstæðum, heldur hvernig menn þeir eru, hvaða kenndir og geðshræringar þeir hafa tilhneigingu til að upplifa, hvaða stjórn þeir hafa á þeim og hvers konar athafnir þeir hafa tilhneigingu til þess að velja. Dygðafræði Aristótelesar hvílir á sálarfræði hans og greiningu hans á sálarlífi manna, til dæmis hvötum, löngunum og skapi, skynjun, skynsemi, geðshræringum og breyskleika.[10]

Stjórnspeki

Í Stjórnspekinni fjallar Aristóteles um borgríkið og tengslin milli einstaklings og ríkis.[11] Aristóteles heldur fram lífhyggju um borgríkið og er (ásamt Platoni) talinn einn fyrsti málsvari slíkrar kenningar. Hann taldi að borgríki væru eins og lífverur fremur en eins og vélar og að stjórnmál gætu ekki gengið fyrir sig án þess að allir hlutar borgríkisins virkuðu sem skyldi. Aristóteles taldi að borgríkið væri náttúrulegt samfélag og mönnum eðlilegt að búa í borgríki. Hann sagði að menn væru að eðlisfari borgríkisdýr (zoon politikon). Hann taldi enn fremur að borgríkið væri meiri undirstöðustofnun en fjölskyldan og fjölskyldan lægi á sama hátt til grundvallar lífi einstaklingsins. Aristóteles taldi þess vegna ekki að tilurð ríkisins ætti rætur að rekja til tilraunar til þess að forðast ranglæti eða til að tryggja efnahagslegt öryggi heldur urðu borgríki til af því að það er eðlilegt ástand mannsins að búa í samfélagi af ákveðinni stærð með öðrum mönnum og þannig yrðu til ákjósanleg og raunar nauðsynleg skilyrði þess að maður gæti lifað hinu góða lífi.

Vísindi Aristótelesar

Aristóteles var áhugasamur um flest öll svið mannlegrar þekkingar, eins og fram kemur hér að ofan. Í sumum tilvikum fann hann beinlínis upp fræðigreinar sem áttu síðar eftir að verða afar mikilvægar, svo sem rökfræði, líffræði[12] og sálfræði.

Kenningar hans á sviði raunvísinda reyndust sumar rangar, t.a.m. kemur fram í bók hans Um tilurð dýra að konur hafi fleiri tennur en karlmenn. Sömuleiðis hafði hann takmarkaðan skilning á eðlisfræði og taldi massameiri hluti falla hraðar til jarðar, eins og fram kemur í Eðlisfræðinni. Einnig má rekja jarðmiðjukenninguna, sem var víðtekin fram að miðöldum, til skrifa Aristótelesar í Frumspekinni. Kaþólska kirkjan hélt upp skoðunum Aristótelesar, þ.á m. jarðmiðjukenningunni, í margar aldir og taldi það villutrú að efast um þær.

Á hinn bóginn er margt býsna nákvæmt í vísindaritum Aristótelesar, ekki síst í lýsingum hans á hinum ýmsu dýrategundum í líffræðiritum hans.[13]

Líffræði

Í líffræði Aristótelesar gildir almennt að það sem hann gat séð með eigin augum hefur að miklu leyti staðist tímans tönn en það sem hann hefur eftir öðrum hefur oftar reynst rangt. Aristóteles krufði dýr en ekki menn. Af þessum sökum var þekking hans á líffærafræði og lífeðlisfræði dýra talsvert traustari en þekking hans á líffærafræði og lífeðlisfræði mannsins. Hann mun hafa rannsakað rúmlega 500 mismunandi tegundir dýra.

Aristóteles hélt að hugsun mannsins ætti sér stað í hjartanu en að heilinn gegndi því hlutverki að kæla blóðið. Hann hélt einnig að karlar væru heitari en konur og að karldýr (bæði menn og dýr) legðu allt af mörkum í getnaði en að kvendýrin gengju einungis með og nærðu afkvæmin (hann hélt að karlar væru í senn gerandaorsök, formleg orsök og tilgangsorsök en að konur væru einungis efnislegar orsakir afkvæmanna).

Varðveisla ritverka Aristótelesar

Aristóteles gerði sjálfur greinarmun á þeim ritum sínum sem voru ætluð almenningi annars vegar („exóterísku ritin“) og hins vegar þeim sem voru ekki ætluð almenningi („esóterísku ritin“).[14] Að öllum líkindum hafa ritin sem ekki voru ætluð almenningi verið ýmist fyrirlestrarglósur Aristótelesar sem hann las fyrir nemendur sína eða rit sem hann dreifði einungis til náinna vina og samstarfsmanna. Svo virðist sem ritin sem ætluð voru almenningi hafi öll glatast. Mörg þeirra munu hafa verið í formi samræðna, líkt og ritverk Platons og að öllum líkindum eru það þessi rit sem rómverski heimspekingurinn Marcus Tullius Cicero hafði í huga þegar hann lofaði Aristóteles fyrir framúrskarandi stíl sinn.[15] Fræðimenn hafa átt erfitt með að ímynda sér að Cicero hafi átt við eitthvert þeirra rita Aristótelesar sem nú eru varðveitt.[16] Það er þó ekki fullljóst til hvaða rita Cicero er að vísa og sumum hefur þótt knappur stíll Aristótelesar í varðveittum ritum hans ágætur.[17]

Ein spurning sem vaknar um varðveislu ritverka Aristótelesar er hvenær þau ritverka hans sem voru ætluð almenningi týndust og hvernig stendur á því að þau sem varðveitt eru, sem voru að líkindum um fimmtungur eða fjórðungur af heildarverkum Aristótelesar, voru varðveitt.[18] Sagan segir að við dauða Aristótelesar hafi Þeófrastosi, nemanda hans og samstarfsmanni, áskotnast þau.[19] Hann hafi síðan fengið þau Neleifi frá Skepsis sem nam ritin á brott með sér frá Aþenu til Skepsis þar sem erfingjar hans földu þau í helli þar til á 1. öld f.Kr. en þá á Apellikon frá Teos að hafa uppgötvað þau, keypt þau og fært þau aftur til Aþenu. Apellikon á að hafa reynt að gera við skemmdir í handritunum og komu þá inn ýmsar villur í textann. Árið 86 f.Kr. þegar rómverski herforinginn Lucius Cornelius Sulla hertók Aþenu komst hann yfir bókasafn Apellikons og hafði það með sér frá Grikklandi til Rómar. Þar voru ritverk Aristótelesar gefin út um árið 60 f.Kr. fyrst undir ritstjórn málfræðingsins Tyrranions frá Amisus og síðar undir ritstjórn heimspekingsins Andrónikosar frá Ródos. Útgáfa Andrónikosar er undirstaða allrar handritageymdar þeirra ritverka Aristótelesar sem nú eru varðveitt.

Carnes Lord heldur að vinsældir þessarar sögu megi rekja til þess að hún reyni að útskýra á rökréttan hátt þá staðreynd að skyndilega heyrist lítið sem ekkert til aristótelíska skólans eftir miðja 3. öld f.Kr. og að á helleníska tímanum hafi lítið þekkst til tæknilegra ritgerða Aristótelesar og svo skyndilegs blómatíma aristótelískrar heimspeki á 1. öld f.Kr.[20] Lord efast hins vegar um sanngildi sögunnar.

Arfleifð Aristótelesar

Upphaf Eðlisfræðinnar í miðaldahandriti. Áhrif Aristótelesar á miðöldum voru gríðarleg.

Það er skoðun margra að heimspekikerfi Aristótelesar sé eitt það áhrifamesta í sögunni.[21] Auk þess fann hann upp fræðigreinarnar eins og rökfræði, líffræði[12] og sálfræði og hafði þannig óviðjafnanleg áhrif á bæði vestræna heimspeki[22] og vísindi. Að mati sagnfræðingsins Wills Durant hefur enginn annar heimspekingur lagt jafn mikið af mörkum til upplýsingar heimsins.[23] Breska heimspekingnum Bertrand Russell þótti á hinn bóginn heimspeki Aristótelesar ekki rista nægilega djúpt.[24]

Aristóteles hafði í fyrstu áhrif á fylgjendur sína í skólanum Lýkeion, sem hann stofnaði í Aþenu. Meðal nemenda Aristótelesar má nefna Aristoxenos, Díkajarkos, Demetríos frá Faleron, Evdemos frá Ródos, Harpalos, Hefæstíon, Menon, Mnason frá Fókis og Þeófrastos. Einnig ber að geta Alexanders mikla, sem var ef til vill frægasti nemandi Aristótelesar og átti eftir að verða einn áhrifamesti einstaklingur sögunnar.

Aristótelísk heimspeki átti sér verjendur allt fram á síðfornöld. Síðasti aristótelíski heimspekingurinn, Alexander frá Afródisías, var að störfum um 200 e.Kr. Hann hafði svo töluverð áhrif nýplatonska heimspekinga og ritskýrendur í síðfornöld.

Á miðöldum var Aristóteles oft nefndur einfaldlega „heimspekingurinn“ meðal annars af Tómasi frá Akvínó.[25] Kristnir hugsuðir, með Tómas frá Akvínó fremstan í flokki, tvinnuðu saman kristnar kenningar og heimspeki Aristótelesar. Afleiðingin varð meðal annars sú að á endurreisnartímanum þurftu vísindin að hafa þó nokkuð fyrir því að losa sig undan kennivaldi Aristótelesar.

Sagt hefur verið að þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche hafi þegið nær alla stjórnspeki sína að láni frá Aristótelesi.[26] Martin Heidegger setti fram nýja túlkun á heimspeki Aristótelesar sem átti að réttlæta afbyggingu hans á skólaspekilegri og heimspekilegri hefð.

Um miðja 20. öld hélt breski heimspekingurinn G.E.M. Anscombe fram aristótelískri dygðafræði sem ákjósanlegri kosti en nytjastefna og kantísk siðfræði, sem höfðu verið ríkjandi í siðfræði allt frá lokum 18. aldar. Aðrir heimspekingar hafa fylgt í kjölfarið, svo sem Alasdair MacIntyre, Philippa Foot og Rosalind Hursthouse. Dygðafræðin hefur síðan orðið ein af þremur meginkenningum siðfræðinnar.[27]

Heimspekingurinn og rithöfundurinn Ayn Rand sagði í útvarpsviðtali í þættinum Night Call í mars árið 1969 að einungis Aristóteles hefði haft áhrif á hana þegar hún skrifaði Atlas Shrugged.[28]

Útgáfur og þýðingar

Útgáfur

Fræðileg útgáfa verka Aristótelesar á grísku með handritaskýringum er til í ritröðinni Oxford Classical Texts (Scriptorum Classicorum Bibliotheca Oxoniensis) sem Oxford University Press gefur út.

Þýðingar

Enskar þýðingar

Heildarútgáfa á verkum Aristótelesar er fáanleg hjá:
  • Barnes, Jonathan (ritstj.), The Complete Works of Aristotle: The Revised Oxford Translation 2 bindi (Princeton: Princeton University Press, 1995). ISBN 0-691-09950-2
Þýðingar á stökum verkum:
  • Aristotle, Categories and De Interpretatione. J.L. Ackrill (þýð.) (Oxford: Clarendon Press, 1962). ISBN 0-19-872086-6
  • Aristotle, De Anima : Books II and III (With Passages From Book I) D.W. Hamlyn og Cristopher Shields (þýð.) (Oxford: Clarendon Press, 1993). ISBN 0-19-824085-6
  • Aristotle, Metaphysics : Books Z and H. David Bostock (þýð.) (Oxford: Clarendon Press, 1995). ISBN 0-19-823600-X
  • Aristotle, Nicomachean Ethics. Sarah Broadie og Cristopher Rowe (þýð.) (Oxford: Oxford University Press, 2002). ISBN 0-19-875271-7
  • Aristotle, Nicomachean Ethics. Terence Irwin (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1985). ISBN 0-87220-464-2
  • Aristotle, The Politics and the Constitution of Athens. Stephen Everson (þýð.) (Cambridge: Cambridge University Press, 1996). ISBN 0-521-48400-6
  • Aristotle, Posterior Analytics. Jonathan Barnes (þýð.) (Oxford: Clarendon Press, 2. útg. 1994). ISBN 0-19-824089-9
  • Aristotle, Prior Analytics. Robin Smith (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1989). ISBN 0-87220-064-7
  • Aristotle, Topics Books I & VIII : With excerpts from related texts. Robin Smith (þýð.) (Oxford: Clarendon Press, 1997). ISBN 0-19-823942-4

Íslenskar þýðingar

  • Aristóteles, Frumspekin I. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
  • Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1995).
  • Aristóteles, Umsagnir. Sigurjón Halldórsson (þýð.) (Akureyri: Ararit, 1992).
  • Aristóteles, Um sálina. Sigurjón Björnsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1985/1993).
  • Aristóteles, Um skáldskaparlistina. Kristján Árnason (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1976/1997).

Tengt efni

Tilvísanir

  1. Sjá m.a. Ólaf Pál Jónsson, „Hver var Aristóteles?“ Geymt 21 apríl 2005 í Wayback Machine, Vísindavefurinn 21.6.2004. (Skoðað 8.8.2007); Gunnar Harðarson, „Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur?“ Geymt 10 janúar 2007 í Wayback Machine Vísindavefurinn 21.6.2002. (Skoðað 9.8.2007); og Geir Þ. Þórarinsson, „Hvaða áhrif höfðu kenningar Platons á aðra heimspekinga, vísindamenn og fólk almennt?“[óvirkur tengill], Vísindavefurinn 8.6.2006 (Skoðað 9.8.2007).
  2. Díogenes Laertíos, V.1. Um ævi og störf Aristótelesar, sjá inngang Svavars Hrafns Svavarssonar að Aristótelesi, Siðfræði Níkomakkosar (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélags, 1995), einkum bls. 19-69. Sjá einnig Barnes (2000): 1-13; Randall (1960): 9-31; Ólaf Pál Jónsson, „Hver var Aristóteles?“ Geymt 21 apríl 2005 í Wayback Machine, Vísindavefurinn 21.6.2004. (Skoðað 8.8.2007); og „Aristotle (384-322 BCE): General Introduction“ í The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 8.8.2007).
  3. Greinargott yfirlit yfir heimspeki Aristótelesar er að finna hjá Ackrill (1981) og Barnes (2000). Ítarlegri umfjöllun er að finna hjá Guthrie (1981) og Lear (1988).
  4. Um rökfræði Aristótelesar, sjá Robin Smith, „Aristotle's Logic“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 21.9.2008).
  5. Um Umsagnir, sjá Paul Studtmann, „Aristotle's Categories“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 21.9.2008).
  6. Um umfjöllun Aristótelesar um mótsagnarlögmálið, sjá Paula Gottlieb, „Aristotle on Non-contradiction“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 21.9.2008).
  7. Um frumspeki Aristótelesar, sjá S. Marc Cohen, „Aristotle's Metaphysics“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2003) (Skoðað 9.8.2007); og Joe Sachs, „Aristotle (384-322 BCE.): Metaphysics“, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (9.8.2007).
  8. Um siðfræði Aristótelesar, sjá Bostock (2000); Broadie (1993); Kraut (1991); Urmson (1988); og Rorty (1980). Einnig, Richard Kraut, „Aristotle's Ethics“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 9.8.2007); og Joe Sachs, „Aristotle (384-322 BCE.): Ethics“, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 9.8.2007).
  9. Um meðalhófskenninguna, sjá Richard Kraut, „Aristotle's Ethics: 5. The Doctrine of the Mean“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 23.9.2008).
  10. Sjá Cooper (1986); og Kraut (1991). Um umfjöllun Aristótelesar um breyskleika, sjá Richard Kraut, „Aristotle's Ethics: 7. Akrasia, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 23.9.2008).
  11. Um stjórnspeki Aristótelesar, sjá Fred Miller, „Aristotle's Political Theory“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2002) (Skoðað 21.9.2008); og Edward Clayton, „Aristotle (384-322 BCE.): Politics“, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 21.9.2008).
  12. 12,0 12,1 James Lennox, „Aristotle's Biology“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 23.9.2008).
  13. Um líffræði Aristótelesar, sjá James Lennox, „Aristotle's Biology“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 23.9.2008).
  14. Jonathan Barnes, „Life and Work“ hjá Jonathan Barnes (ritstj.) The Cambridge Companion to Aristotle (1995): 12. Sbr. Aristóteles, Siðfræði Níkómakkosar 1102a26-27.
  15. „flumen orationis aureum fundens Aristoteles“. Sjá Cicero, Academica 2.38.119.
  16. Jonathan Barnes, „Life and Work“ hjá Jonathan Barnes (ritstj.) The Cambridge Companion to Aristotle (1995): 12. Um varðveislu og útbreiðslu ritverka Aristótelesar, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hafa rit Platons og Aristótelesar verið útbreidd og þekkt frá því þau voru skrifuð?“, Vísindavefurinn 13.10.2006. (Skoðað 24.9.2008).
  17. Jonathan Barnes, „Roman Aristotle“ hjá Gregory Nagy (ritstj.) Greek Literature 8. bindi (Routledge 2001): 174 nmgr. 240.
  18. Sjá Jonathan Barnes, „Roman Aristotle“ hjá Gregory Nagy (ritstj.) Greek Literature 8. bindi (Routledge 2001).
  19. Sjá Strabon, Landafræðina; og Plútarkos, Ævisögu Súllu.
  20. Carnes Lord, Introduction to the Politics by Aristotle (Chicago: Chicago University Press, 1984): 11).
  21. Um áhrif og útbreiðslu ritverka Aristótelesar, sjá m.a. Geir Þ. Þórarinsson, „Hafa rit Platons og Aristótelesar verið útbreidd og þekkt frá því þau voru skrifuð?“, Vísindavefurinn 13.10.2006. (Skoðað 24.9.2008).
  22. Robin Smith, „Aristotle's Logic“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 23.9.2008).
  23. Will Durant, The Story of Philosophy (Simon & Schuster, 1926).
  24. Bertrand Russell, A History of Western Philosophy (Simon & Schuster, 1945).
  25. Gunnar Harðarson, „Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur?“, Vísindavefurinn 21.6.2002. (Skoðað 24.9.2008). Sjá einnig Tómas frá Akvínó, Summa Theologica I.3 o.s.frv.
  26. Will Durant, The Story of Philosophy (Simon & Schuster, 1926): 86.
  27. Sjá Rosalind Hursthouse, „Virtue Ethics“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 23.9.2008).
  28. Sjá Robert Mayhew,Ayn Rand Answers (Penguin, 2005).

Heimildir og frekari fróðleikur

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Aristotle“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. nóvember 2005.
  • Ackrill, J.L., Aristotle the Philosopher (Oxford: Clarendon Press, 1981). ISBN 0-19-289118-9
  • Barnes, Jonathan, Aristotle: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 1982/2000). ISBN 0-19-285408-9
  • Barnes, Jonathan (ritstj.), Articles on Aristotle: Psychology and Aesthetics (Duckworth Publishing, 1979). ISBN 0-7156-0932-7
  • Barnes, Jonathan (ritstj.), The Cambridge Companion to Aristotle (Cambridge: Cambridge University Press, 1995). ISBN 0-521-41133-5
  • Bostock, David, Aristotle's Ethics (Oxford: Oxford University Press, 2000). ISBN 0-19-875265-2
  • Broadie, Sarah, Ethics With Aristotle (Oxford: Oxford University Press, 1993). ISBN 0-19-508560-4
  • Cooper, John M., Reason and Human Good in Aristotle (Inianapolis: Hackett, 1986). ISBN 0-87220-022-1
  • Gotthelf, Allan og Lennox, James G. (ritstj.), Philosophical Issues in Aristotle's Biology (Cambridge: Cambridge University Press, 1987). ISBN 0-521-31091-1
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy, Vol 6: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981). ISBN 0-521-38760-4
  • Hughes, Gerard, Routledge Philosophy Guidebook to Aristotle on Ethics (London: Routledge, 2001). ISBN 0-415-22187-0
  • Jori, Alberto, Aristotele (Milan: Bruno Mondadori, 2003). ISBN 88-424-9737-1
  • Kraut, Richard, Aristotle on the Human Good (Princeton: Princeton University Press, 1991). ISBN 0-691-02071-X
  • Lear, Jonathan, Aristotle: The Desire to Understand (Cambridge: Cambridge University Press, 1988). ISBN 0-521-34762-9
  • Mann, Wolfgang-Rainer, The Discovery of Things (Princeton: Princeton University Press, 2000). ISBN 0-691-01020-X
  • Nussbaum, Martha C., Aristotle's De Motu Animalium (Princeton: Princeton University Press, 1986). ISBN 0-691-02035-3
  • Nussbaum, Martha C. og Rorty, Amélie Oksenberg (ritstj.), Essays on Aristotle's De Anima (Oxford: Oxford University Press, 1995). ISBN 0-19-823600-X
  • Patterson, Richard, Aristotle's Modal Logic : Essence and Entailment in the Organon (Cambridge: Cambridge University Press, 2002). ISBN 0-521-52233-1
  • Politis, Vasilis, Routledge Philosophy GuideBook to Aristotle and the Metaphysics (London: Routledge, 2004). ISBN 0-415-25148-6
  • Randall, John Herman Jr., Aristotle (New York: Columbia University Press, 1960).
  • Rorty, Amélie Oksenberg (ritstj.), Essays on Aristotle's Ethics (Los Angeles: University of California Press, 1980). ISBN 0-520-04041-4
  • Rorty, Amélie Oksenberg (ritstj.), Essays on Aristotle's Poetics (Princeton: Princeton University Press, 1992). ISBN 0-691-01498-1
  • Rorty, Amélie Oksenberg (ritstj.), Essays on Aristotle's Rhetoric (Los Angeles: University of California Press, 1996). ISBN 0-520-20228-7
  • Ross, David, Aristotle (London: Routledge, 1995). ISBN 0-415-12068-3
  • Urmson, J.O., Aristotle's Ethics (Oxford: Blackwell, 1988). ISBN 0-631-15946-0
  • Whitaker, C.W.A., Aristotle's De Interpretatione : Contradiction and Dialectic (Oxford: Oxford University Press, 2002). ISBN 0-19-925419-2

Tenglar

  • „Hvaða álit hafði Aristóteles á konum?“. Vísindavefurinn.

  • Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!