Á 10. öld tvöfaldaðist íbúafjöldi landsins vegna aukinnar hrísgrjónaframleiðslu með nýjum fljótsprottnum afbrigðum frá Suðaustur-Asíu. Aukin framleiðni og meiri umframframleiðsla leiddu til efnahagslegrar byltingar og með tilkomu byssupúðurs þróuðu menn nýjar aðferðir í hernaði.
Songveldinu er skipt í tvö tímabil: Norður-Songveldið (kínverska: 北宋, 960–1127) með höfuðborg í Bianjing (nú Kaifeng) og Suður-Songveldið (kínverska: 南宋, 1127–1279), eftir að Songveldið missti stjórn norðurhluta landsins í hendur Jinveldisins. Árið 1234 lögðu Mongólar Jinveldið undir sig og 45 árum síðar, árið 1279, lögðu þeir undir sig síðustu leifar Songveldisins eftir tveggja áratuga styrjöld.