Um miðja 14. öld tók Gullnu hordunni að hnigna. Svarti dauði og stríð milli erfingja kansins veiktu ríkið og Stórhertogadæmið Litháen og Konungsríkið Pólland gengu á lagið, lögðu undir sig lönd Mongóla og hættu að greiða þeim skatt. Eftir 1420 tók hordan að brotna upp í nokkur kanöt, þar á meðal Krímkanatið og Kasakkanatið. Árið 1476 hætti Ívan 3. af Moskvu að greiða Gullnu hordunni skatt og staðan mikla við Úgrafljót sýndi að yfirráðum Tatara og Mongóla í Rússlandi var í raun lokið. Síðasti kan Gullnu hordunnar lést í fangelsi í Kaunas í Litháen einhvern tíma eftir 1504. Krímkanatið var áfram við lýði þar til Katrín mikla lagði það undir sig 1783 og Kasakkanatið ríkti yfir Kasakstan til 1847, en síðustu kanarnir voru leppar Rússa.
Heiti
Orðið horda er dregið af tyrkíska orðinu ordu, sem merkir „valdastöð“[1] eða „konungshirð“.[2][3] Heitið barst úr rússnesku í ensku sem horde. Á 17. öld fékk enska orðið svo aukamerkinguna „mannfjöldi“ eða „herskari“.[4] Á íslensku hefur heiti Gullnu hordunnar því útlagst á ýmsa vegu, meðal annars sem Gullni skarinn, Gullnu tjaldbúðirnar og Gullna hjörðin.
Heitið sem Gullna hordan notaði yfir sjálfa sig var Ulug Ulus, sem merkir „ríkið mikla.“[5]