Júanveldið (kínverska: 元朝; pinyin: Yuáncháo; mongólska: Их Юань улс) var mongólskt ættarveldi sem ríkti yfir Kína frá 1271 til 1368 á eftir Songveldinu og á undan Mingveldinu. Það var stofnað af Kúblaí Kan, barnabarni Djengis Khan, stofnanda Mongólaveldisins í Asíu. Að nafninu til ríkti Kúblaí Kan líka yfir allri Norður-Asíu allt til Rússlands þar sem hann hafði erft stórkanstitilinn, en í reynd viðurkenndi aðeins eitt af hinum kanötunum yfirráð hans. Eftirmenn hans reyndu ekki að taka upp stórkanstitilinn og kölluðu sig keisara í Kína. Smám saman misstu Júankeisararnir völdin yfir héruðum sínum í Mongólíu og misstu um leið áhrif í Kína. Á endanum féll veldi þeirra þegar nokkrir hirðmenn gerðu hallarbyltingu og gerðu Zhu Yuanzhang að fyrsta keisara Mingveldisins.