Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) er framhaldsskóli starfræktur í Keflavík í Reykjanesbæ. Hann var annar í röð fjölbrautaskóla á Íslandi, stofnaður sumarið 1976 og settur í fyrsta sinn þann 11. september það ár. Skólinn var stofnaður og rekinn í samvinnu 7 sveitarfélaga (síðar 5 vegna samruna) og ríkisins. Skólinn varð til við samruna Iðnskóla Suðurnesja, Framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans í Keflavík (sem nú heitir Holtaskóli) og Öldungadeildar Gagnfræðaskólans í Keflavík. Hann fékk til umráða húsnæði Iðnskólans, sem þá þegar var allt of lítið og var það bætt upp með leiguhúsnæði frá Gagnfræðaskólanum og víðar um bæinn.
Strax á öðru starfsári skólans var byggt ofan á húsið, í stað einnar hæðar voru þær orðnar þrjár. Það var samt allt of lítið. Skömmu síðar var byggt við endann á húsinu og fjölgaði kennslustofum þá um sex auk þess sem kennarastofa stækkaði mikið. Enn var þetta ófullnægjandi. Árið 1990 var hafist handa við byggingu þverálmu á eldra húsið. Hún var 1000 fermetrar að grunnfleti og á 3 hæðum. Varð þá heildargólfflötur hússins um 6500 fermetrar og mátti með góðum vilja segja, að húsið fullnægði brýnustu þörfum þegar þessi álma var tekin í notkun haustið 1992, en ekkert var umfram það.
Haustið 2004 var tekin í notkun enn ein álman, sem er einnig á þremur hæðum og á þriðja þúsund fermetrar að heildargólffleti. Einnig hafa farið fram gagngerðar endurbætur á eldra húsnæðinu. Er skólinn nú hinn glæsilegasti í alla staði og er starfsaðstaða nemenda og kennara mjög góð. Er nú loksins kominn salur sem risið getur undir því nafni, svo og glæsilegt nemendamötuneyti, nýjar og mjög vandaðar kennslustofur raungreina, ný kennaraaðstaða og svo mætti lengi telja.
Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja voru um 250 talsins þegar skólinn hóf starfsemi sína, en síðan hefur fjöldi þeirra fjórfaldast og voru nemendur um eitt þúsund á vorönn 2006. Þessi fjölgun nemenda samsvarar nokkurn veginn 5% stöðugri aukningu á ári frá upphafi til þess árs. Reyndar var fjölgunin ekki jöfn allan tímann heldur gekk hún í stökkum. Eftir 'hrunið' 2008 fjölgaði nemendum í framhaldsskólum á Íslandi verulega og var nemendafjöldinn í FS hátt á 12. hundrað árin 2009 og 2010, en hefur fækkað aftur og eru nú (haust 2014) aftur tæplega 1000.
Skólameistarar Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafa verið eftirtaldir:
- Jón Böðvarsson (1976 – 1984), síðar ritstjóri Iðnsögu Íslendinga
- Ingólfur S. Halldórsson, aðstoðarskólameistari, vorönn 1984 (Jón í leyfi)
- Hjálmar Árnason (1984 – 1995), síðar alþingismaður, framkvæmdastjóri Keilis
- Ægir Sigurðsson, aðstoðarskólameistari, (1989 – 1990) (Hjálmar í leyfi)
- Ólafur Jón Arnbjörnsson (1995 – 2008)
- Oddný G. Harðardóttir, aðstoðarskólameistari, allt árið 2005, (Ólafur í leyfi), alþingismaður, fjármálaráðherra
- Kristján Ásmundsson, aðstoðarskólameistari, (2008 – 2011) (Ólafur í leyfi)
- Ólafur Jón Arnbjörnsson (2011 – 2012)
- Kristján Ásmundsson (2012 – )
Tengill