Cai-Göran Alexander Stubb (f. 1. apríl 1968) er finnskur stjórnmálamaður og núverandi forseti Finnlands. Stubb var kjörinn forseti í seinni umferð finnsku forsetakosninganna árið 2024. Hann var áður forsætisráðherra Finnlands frá 2014 til 2015 og fjármálaráðherra frá 2015 til 2016. Stubb var leiðtogi finnska Samstöðuflokksins frá 14. júní 2014 til 11 júní 2016. Stubb hefur jafnframt verið varaformaður Evrópska fjárfestingabankans og prófessor við European University Institute
Stubb hefur verið dálkahöfundur í ýmsum fréttablöðum og tímaritum. Hann hefur samið nokkrar bækur um Evrópusambandið og hefur jafnframt skrifað bók um maraþonhlaup. Hann stjórnaði útvarpsþættinum Sommar i P1 hjá Sveriges Radio þann 24. júní árið 2009.
Stjórnmálaferill
Alexander Stubb sat á Evrópuþinginu frá 2004 til 2008. Hann var utanríkisráðherra Finnlands í ríkisstjórnum Matti Vanhanen og Mari Kiviniemi frá 2004 til 2011 og utanríkis- og Evrópumálaráðherra í ríkisstjórn Jyrki Katainen frá 2011 til 2014. Hann var aftur kjörinn á Evrópuþingið Evrópuþingskosningunum 2014[3] en þann 14. júní sama ár var hann kjörinn flokksleiðtogi Samstöðuflokksins og var þá gert ráð fyrir því að hann yrði forsætisráðherra Finnlands þegar Jyrki Katainen tilkynnti afsögn sína þann 16. júní.[4] Finnska þingið kaus Stubb forsætisráðherra þann 23. júní 2014[5] og Sauli Niinistö forseti staðfesti ríkisstjórn hans daginn eftir.[6]
Stubb myndaði fimm flokka ríkisstjórn en Græningjar yfirgáfu stjórn hans í september 2014 eftir að ákvörðun var tekin um að reisa nýtt kjarnorkuver í norðurhluta Finnlands. Stubb sat sem forsætisráðherra út kjörtímabilið en ljóst þótti eftir kosningar árið 2015 að hann hefði ekki stuðning til að sitja áfram.[7]
Forsetaframboð
Stubb gaf kost á sér í forsetakosningum Finnlands árið 2024. Hann lenti í fyrsta sæti í fyrri umferð kosninganna, sem fóru fram þann 28. janúar. Stubb hlaut rúm 27 prósent en fyrrum utanríkisráðherrann Pekka Haavisto hlaut um 25 prósent.[8] Stubb var kjörinn forseti Finnlands í seinni umferð kosninganna þann 11. febrúar og hlaut þar um 52 prósent atkvæða gegn um 48 prósentum sem Haavisto hlaut. Bæði Stubb og Haavisto höfðu boðað svipaða stefnu í utanríkismálum sem gekk meðal áframhaldandi stuðning við Úkraínu og viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi.[9]
Einkahagir
Alexander Stubb er sonur íþróttamannsins Görans Stubb[10] og er er kvæntur enska lögfræðingnum Suzanne Innes-Stubb. Hann á með henni tvö börn sem eru fædd árin 2001 og 2004. Fjölskyldan býr í Esbo.
Stubb iðkar ýmsar íþróttir í tómstundum sínum, meðal annars þríþraut.[11]