Edgars Rinkēvičs (f. 21. september 1973) er lettneskur embættismaður og stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Lettlands. Hann var utanríkisráðherra Lettlands frá 2011 til 2023. Áður en hann varð ráðherra hafði hann verið formaður yfirdómstóls forsetaembættis Lettlands, ríkisritari varnarmálaráðuneytisins og meðlimur á lettneska þinginu (Saeima). Þegar hann tók við forsetaembætti varð hann fyrsti samkynhneigðiþjóðhöfðingi í Evrópusambandinu.[1]
Rinkēvičs hafði setið á þingi fyrir Lettnesku leiðina og Umbótaflokkinn en var meðlimur í stjórnmálaflokknum Einingu frá maí 2014. Hann sagði upp aðild sinni að flokknum eftir að hann var kjörinn forseti þar sem hefð er fyrir því að forsetar viðhaldi pólitísku hlutleysi.
Æviágrip
Rinkēvičs fæddist í Jūrmala og útskrifaðist úr menntaskóla þar árið 1991.[2] Eftir útskrift hóf hann BA-nám í sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Lettlands og útskrifaðist úr því námi árið 1995. Á sama tíma, frá 1994 til 1995, nam hann stjórnmálafræði og alþjóðasamskipti við Háskólann í Groningen í Hollandi og hlaut gráðu þaðan árið 1995.[3]
Á námsárum sínum frá 1993 til 1994 vann Rinkēvičs sem blaðamaður og fjallaði um utanríkisstefnu og alþjóðasamskipti á útvarpsstöðinni Latvijas Radio.[5] Árið 1995 tók hann að sér stöðu sem álitsgjafi hjá lettneska varnarmálaráðuneytinu og gegndi því embætti til mars 1996, en þá varð hann starfandi leiðtogi stefnumótunardeildarinnar og gegndi þeirri stöðu til september sama árs. Hann varð síðan starfandi aðstoðarríkisritari í varnarmálum.[6] Í maí 1997 varð hann starfandi ríkisritari varnarmála og síðan varnarmálaráðherra í ágúst 1997. Hann gegndi því embætti til október 2008.[6]
Rinkēvičs var meðlimur í stjórnmálaflokknum Lettnesku leiðinni frá 1998 til 2004.[6] Í febrúar 1998 tók hann þátt í viðræðum um samstarfssáttmála Bandaríkjanna og Eystrasaltsríkjanna. Frá 2002 til 2003 var hann meðlimur í samninganefnd Lettlands um inngöngu landsins í Atlantshafsbandalagið. Árið 2008 var hann útnefndur formaður yfirdómstóls forsetaembættis Lettlands og gegndi því starfi til júlí 2011.[6] Í október sama ár hlaut Rinkēvičs sæti í þriðju ríkisstjórn Valdis Dombrovskis sem utanríkisráðherra. Rinkēvičs var á þeim tíma óflokksbundinn stjórnmálamaður en hann gekk í Umbótaflokkinn í janúar 2012.[7] Í maí 2014 færði Rinkēvičs sig yfir í stjórnmálaflokkinn Einingu.[8]
Þegar ríkisstjórn Dombrovskis sagði af sér árið 2014 hélt Rinkēvičs ráðuneyti sínu í fyrstu ríkisstjórn Laimdota Straujuma. Hann var kjörinn á lettneska þingið áður en hann var aftur útnefndur utanríkisráðherra í annarri stjórn Straujuma.[5] Hann var utanríkisráðherra frá 2016 til 2019 í stjórn Māris Kučinskis og frá 2019 til 2023 í stjórn Arturs Krišjānis Kariņš.
Rinkēvičs var kjörinn forseti Lettlands þann 31. maí 2023.[9] Hann tók við embætti þann 8. júlí 2023.[10]
Stjórnmálaskoðanir
Rinkēvičs sagðist taka því fagnandi þegar Ísrael og Barein komu sér upp stjórnmálasambandi árið 2020.[11]
Þann 6. nóvember 2014 lýsti Rinkēvičs því opinberlega yfir á Twitter-síðu sinni að hann væri samkynhneigður.[13][14] Hann var fyrsti þingmaður Lettlands sem lýsti yfir samkynhneigð sinni á opnum vettvangi og er nú fyrsti opinberlega samkynhneigði þjóðhöfðingi aðildarríkis í Evrópusambandinu.[15][1] Auk lettnesku talar Rinkēvičs ensku, rússnesku og frönsku reiprennandi.