Karis var rektorEistneska lífvísindaháskólans frá 2003 til 2007, rektor Háskólans í Tartu frá 2007 til 2012, ríkisendurskoðandi Eistlands frá 2013 til 2018 og safnstjóri Þjóðminjasafns Eistlands frá 2018 til 2021.[1][6]
Forsetakosningarnar 2021
Í ágúst 2021 hafði forseti eistneska þingsins, Jüri Ratas, samband við Karis til að bjóða honum tilefningu til embættis forseta Eistlands í forsetakosningum næsta haust.[7] Karis þáði tilnefninguna[8] og framboð hans var í kjölfarið stutt af báðum aðildarflokkum ríkisstjórnarinnar, Umbótaflokknum[9] og Miðflokknum.[10] Þann 31. ágúst 2021 var Karis kjörinn forseti Eistlands með 72 atkvæðum á eistneska þinginu, sem nam tveimur þriðju atkvæðanna.[2][11] Hann tók við embættinu þann 11. október 2021.[2]
Kosningarnar leiddu til gagnrýni og krafa um umbætur á kosningakerfinu þar sem engir mótframbjóðendur gegn Karis höfðu verið í framboði.[12][13][14] Í sigurræðu sinni eftir kosningarnar vísaði Karis til „ólgu sem umvefði forsetakjörið“ og biðlaði til þingsins að endurskoða hvernig forsetinn væri kjörinn, til dæmis með því að skipa stærra kjörmannaráð, auðvelda útnefningar á frambjóðendum eða jafnvel skipta yfir í beinar kosningar.[15]
Einkahagir
Alar Karis hefur verið kvæntur Sirje Karis frá árinu 1977. Hann á með henni þrjú börn og fimm barnabörn.[16] Auk eistnesku talar Karis ensku og rússnesku reiprennandi. Karis hefur þó viðurkennt að hann sé kominn úr æfingu í rússnesku þar sem hann hafi ekki þurft að tala það tungumál lengi.[17]