Mannerheim er talinn þjóðhetja í Finnlandi og hans er minnst sem eins af stofnfeðrum Finnlands sem nútímaríkis. Mannerheim-safnið í Helsinki er oft talið „það næsta sem kemst þjóðlegum helgireit Finna.“[1]
Æviágrip
Mannerheim fæddist árið 1867 í Stórfurstadæminu Finnlandi, sem var undir yfirráðum rússneska keisaradæmisins en bjó þó að eigin lögum. Hann var af sænskum aðalsættum í föðurætt og af Finnlands-sænskum ættum í móðurætt. Faðir hans, Carl Robert Mannerheim greifi, hafði yfirgefið fjölskylduna og flutt ásamt hjákonu sinni til Parísar þegar Carl Gustaf Emil var ungur.[2]
Þegar hann var fimmtán ára hóf hann nám við finnskan herskóla.[3] Mannerheim byrjaði feril sinn í rússneska keisarahernum og gegndi þar liðsforingjastöðu, m.a. í stríði Rússa við Japani árið 1904.[4] Hann var viðstaddur krýningu Nikulásar 2.Rússakeisara og hitti keisarann nokkrum sinnum augliti til auglitis.
Eftir byltinguBolsévika í Rússlandi 1917 lýsti Finnland yfir sjálfstæði sínu en steyptist brátt í borgarastyrjöld milli rauðliða sem studdu stjórn Bolsévika og hvítliða sem studdu finnska þingið. Mannerheim var útnefndur leiðtogi hvítliðahersins og tókst á tveimur og hálfum mánuði að hrekja innlenda og útlenda Bolsévika frá norður- og miðhluta Finnlands.[4] Með hernaðaraðstoð Þjóðverja tókst Finnum svo að frelsa Helsinki og að lokum að hrekja rauðliða úr landi. Eiginlegur sigur hvítliða var unninn þann 29. apríl 1918 þegar Mannerheim tókst að brjóta á bak síðasta vígi rauðliða í Viborg.
Eftir borgarastyrjöldina var Mannerheim lyft upp á stall sem frelsishetju Finnlands. Hann gegndi embætti ríkisstjóra Finnlands á meðan ný stjórnarskrá var rituð en tapaði forsetakjöri fyrir Kaarlo Juho Ståhlberg þann 25. júní. Á næstu árum Mannerheim einkum að sér mannúðarmál og stóð m.a. fyrir stofnun barnaverndarsamtaka og varð formaður finnska Rauða krossins.[5] Hann var gerður marskálkur Finnlands árið 1933.
Árið 1939 gerðu Sovétríkin innrás í Finnland í vetrarstríðinu samkvæmt sáttmála þeirra við Þjóðverja um áhrifasvæði í Molotov-Ribbentrop-sáttmálanum. Mannerheim, þá kominn yfir sjötugt, leiddi enn varnarher Finnlands og þótti sýna innrásarhernum undraverða mótstöðu. Manntap Rússa var tíu sinnum meira en Finna og þótti erfiðleiki þeirra gegn miklu smærri her Finna mikil auðmýking fyrir sovéska herinn og jafnvel einn hvatinn að innrás Þjóðverja í Rússland 1941. Að endingu neyddust Finnar þó til að semja frið við Rússa og láta af hendi stór landsvæði í austri sem Rússar ásældust til þess að eiga auðveldara með að verja Leníngrad árásum úr vestri.[6]
Í seinni heimsstyrjöldinni gengu Finnar í bandalag við Þjóðverja og hjálpuðu þýskum hermönnum að hrekja Sovétmenn frá þeim landsvæðum sem tekin höfðu verið af Finnlandi. Þegar blikur voru á lofti árið 1944 um að Þjóðverjar myndu tapa stríðinu var Mannerheim kjörinn forseti Finnlands og samdi um frið við Sovétríkin og Bretland. Hann sagði af sér árið 1946 og dó árið 1951.
Heimildir
Borgþór Kjærnested (2017). Milli steins og sleggju: Saga Finnlands. Reykjavík: Skrudda. ISBN9789935458728.