Þorsteinn Pálsson (f. 29. október 1947) er fyrrverandi forsætisráðherra Íslands (1987-1988) og formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991.
Foreldrar Þorsteins voru Páll Sigurðsson skrifstofumaður og Ingigerður Nanna Þorsteinsdóttir húsmóðir. Eiginkona Þorsteins var Ingibjörg Þórunn Rafnar hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi umboðsmaður barna en hún lést árið 2011. Þau eignuðust þrjú börn.
Þorsteinn lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1968 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1974. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu samhliða námi 1970-1974 og fastráðinn blaðamaður þar 1974-1975, ritstjóri Vísis 1975-1979 og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands 1979-1983. Þorsteinn sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurlandskjördæmi 1983-1999, þó hann byggi í Reykjavík.[1]
Þorsteinn neyddi Albert Guðmundsson til afsagnar úr stóli iðnaðarráðherra vorið 1987 eftir að meint skattsvik Alberts komust í hámæli. Albert naut lýðhylli og stofnaði Borgaraflokkinn sem fékk gott brautargengi í Alþingiskosningunum 1987. Engu að síður tókst Þorsteini að mynda ríkisstjórn þá um sumarið ásamt Framsóknarflokki og Alþýðuflokki. Verðstöðnun varð síðar ásteitingarsteinn í stjórnarsamstarfinu sem var rofið í sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 þann 17. september 1988.
Þorsteinn tapaði fyrir Davíð Oddssyni borgarstjóra í formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991.
Þorsteinn var sjávarútvegs-, dóms- og kirkjumálaráðherra í fyrstu tveimur ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar, einkum til að tryggja sátt og einingu meðal flokksmanna. Þorsteinn er sá maður sem lengst hefur farið með sjávarútvegsmál í ríkisstjórn Íslands. Haustið 1998 tilkynnti Þorsteinn að hann hyggðist ekki sækjast eftir áframhaldandi setu á Alþingi. Að loknum kosningum fékk hann lausn frá embætti og tók Davíð Oddsson við ráðuneytum Þorsteins uns þriðja ráðuneyti Davíðs var skipað 23. maí 1999. Þá varð Þorsteinn sendiherra í London og síðar í Kaupmannahöfn á árunum 1999-2005.
Þorsteinn var ritstjóri Fréttablaðsins á árunum 2006-2009. Hann hefur alla tíð titlað sig sem blaðamann í símaskránni.
Þorsteinn gekk úr Sjálfstæðisflokknum yfir í Viðreisn árið 2016.[2]