Þrúður

Þrúður og dvergurinn Alvís á mynd eftir Lorenz Frølich.

Þrúður er dóttir þrumuguðsins Þórs og gyðjunnar Sifjar í norrænni goðafræði. Þrúður er einnig nafn á valkyrju og er þar hugsanlega um að ræða sömu persónu.

Ritaðar heimildir um Þrúði

Minnst er á Þrúði í eftirfarandi heimildum:

Sæmundaredda

Í kvæðinu Alvíssmálum sem ritað er í Sæmundareddu kemur dvergur að nafni Alvís á fund Þórs. Alvís heimtar að fá að kvænast dóttur Þórs og segir að hún hafi trúlofast honum á meðan Þór var að heiman. Dóttir Þórs er ekki nefnd á nafn í kvæðinu en yfirleitt er gert ráð fyrir að hún sé Þrúður.[1] Þór neitar dvergnum um hönd dóttur sinnar og leggur fyrir hann ýmsar gátur til að reyna á gáfur hans. Alvís svarar öllum gátunum en breytist í stein þegar sólin rís.

Snorra-Edda

Í Skáldskaparmálum kemur fram að í kveðskap megi nota kenninguna „faðir Þrúðar“ til að kenna Þór. Jafnframt er „móðir Þrúðar“ kenning sem er notuð til að kenna Sif í kveðskap.

Þrúður virðist vera eina barnið sem hjónin Þór og Sif eiga saman – Þór á Magna með Járnsöxu og Sif á Ull með óþekktum föður. Hugsanlegt er að Móði sé einnig sonur Sifjar en móðir hans er hvergi nafngreind í rituðum heimildum.

Í kvæðinu Ragnarsdrápu eftir Braga Boddason er jötunninn Hrungnir kallaður „Þrúðar þjófur“. Þetta virðist vera vísun í sögu þar sem Hrungnir rænir Þrúði, en engin slík saga er þekkt. Í Skáldskaparmálum segir Snorri Sturluson frá bardaga Þórs og Hrungnis en orsök viðureignarinnar tengist Þrúði þar ekki.

Í Þórsdrápu er Þór kallaður „þrámóðnir Þrúðar“. Hugsanlega er þessi kenning önnur vísun í sögu þar sem Þrúði er rænt.

Rúnasteinninn í Karlevi

Nafn Þrúðar kemur fyrir í dróttkvæðri vísu sem rituð er á rúnastein frá 10. öld í Karlevi á Eylandi. Í vísunni er ónefndur höfðingi kallaður „dólga Þrúðar draugur“.[2]

Tilvísanir

  1. „Alvíssmál“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. 1. janúar 1924. Sótt 16. apríl 2019.
  2. „Skýring“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. 1882. Sótt 16. apríl 2019.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!