Vikan mín með Marilyn (enska: My Week with Marilyn) er bresk kvikmynd sem leikstýrð er af Simon Curtis og skrifuð af Adrian Hodges. Michelle Williams, Kenneth Branagh, Eddie Redmayne, Dougray Scott, Emma Watson og Judi Dench fara með aðalhlutverkin í myndinni sem er byggð á tveimur bókum eftir Colin Clark. Myndin fjallar um gerð kvikmyndarinnar The Prince and the Showgirl þar sem Marilyn Monroe og Laurence Olivier fóru með aðalhlutverkin og vikuna sem hún eyddi með Colin Clark í Bretlandi eftir að eiginmaður hennar Arthur Miller fór úr landi. Forsýning myndarinnar átti sér stað á kvikmyndahátíðinni í New York þann 9. október 2011 og var frumsýnd í Bandaríkjunum þann 4. nóvember 2011 og 30. desember á Íslandi.
Söguþráður
Sumarið 1953 fylgist hinn 23. ára gamli Colin Clark með og skrásetur spennuna sem ríkir á milli Laurence Olivier og Marilyn Monroe á meðan að framleiðslu myndarinnar The Prince and the Showgirl stendur á. Sagan er byggð á tveimur dagbókum Colin Clarks sem þá var nýskriðinn úr Oxfordháskólanum og hafði tekist að fá vinnu sem aðstoðarmaður við gerð myndarinnar eftir mikla þrautsegju. Það upphófst mikið fjölmiðlafár í Bretlandi þegar Marilyn kom til London til að leika í myndinni í leikstjórn sjálfs Sir Laurence Olivier, konungs enskra leikara á þeim tíma. Með í för var eiginmaður Marilyn, rithöfundurinn frægi Arthur Miller, en þau voru þá nýgift og í raun var ferðin til Englands hluti af brúðkaupsferð þeirra.
Þegar Arthur ákveður að fara heim til Bandaríkjanna til að hitta börnin sín á undan Marilyn varð hún bæði óörugg og einmana og leitaði til Colins sem var að sjálfsögðu meira en fús til að gera hvað sem er fyrir þessa fegurstu og frægustu kvikmyndastjörnu heims. Á meðan varð Sir Laurence Olivier sífellt stirðari í skapi yfir óstundvísi og sérlundi Marilyn sem tafði tökur og ljóst að eitthvað varð að láta undan.
Leikendur