Víkingaþungarokk (e. viking metal) er undirgrein þungarokks. Því er lýst sem blöndu svartmálms og þjóðlagaþungarokks og einkennist af hljómborðum, dimmu og dularfullu andrúmslofti og textainnihaldi sem sækir í víkingasagnahefð og ásatrú. Víkingaþungarokk kom fram í lok 9. áratugarins á Norðurlöndum og er talið tilkomið úr fyrri þungarokkstefnum sem unnu með kristið eða andkristið efni.
Einkenni
Víkingaþungarokk er fjölbreytt stefna sem skarast við og sækir hljóm í aðrar tónlistarstefnur, svo sem þjóðlagatónlist og sinfóníutónlist. Kórsöngur og orgelleikur eru oft hluti hljóðfæraleiks og sitja gjarnan gegnt hefðbundnari þungarokkshljómum, þá þungum trommuleik, rafmagnsgíturum og kraftmiklum söng eða dauðaöskri. Mikið er um þríunda- og fimmundaraddir í laglínum sem ljá tónlistinni þjóðlagablæ.[1]
Lög og plötur víkingaþungarokks byggja oft á söguþráðum og nýta hljómsveitir þá oft viðbætt hljóð eða hljóðfærabrellur til að aðstoða hlustandann við að skilja eða fylgja eftir sögunni. Þá líkja trommur eftir skeiði hesta eða sverðaglamri, og vindhljóðum, hneggi og fleiru er bætt við á framleiðslustigi.
Margir tónlistarmenn sem semja og spila víkingaþungarokk syngja á íslensku, fornnorrænu, færeysku og öðrum skandínavískum tungumálum en einnig er mjög algengt að sungið sé á ensku.[2]
Víkingaþungarokk og kristni
Í seinni hluta níunda áratugarins sungu flestar þungarokks hljómsveitir um Satan og helvíti sem kemur úr kristinni trú og voru það hljómsveitir eins og Venom, Mayhem og Burzum sem spiluðu mjög svart og grimmt þungarokk og tilbáðu Satan, drápu dýr og ötuðu sig út í blóði á tónleikum svo þeir gætu verið nær dauðanum þegar þeir voru að spila. Þegar svart og djöfladýrkandi þungarokk var búið að vera vinsælt í töluverðan tíma þá komu nokkrir tónlistarmenn fram með útfærslu á þessari tónlist sem sótti innblástur í helvíti kristinnar trúar með því að taka svarta-þungarokkið og blanda því við þjóðlagar-þungarokk. Með því var vakin upp þjóðernishyggja og þeir sömdu lög um ásatrú og gamlar stríðshetjur, þjóðsagnarhetjur og Æsi sem lentu í ævintýrum og bardögum við vætti eða stórherlið víkinga. Með þessu veittu þeir innsýn í ásatrú sem farið hafði halloka fyrir kristinni trú, en eins og þekkt er þá fór ásatrúariðkendum í kringum árið 1000 þegar kristinn trú fór að vera allsráðandi á Norðurlöndunum.[3]
Saga
Það mætti segja að víkingaþungarokkið hafi byrjað 1982 þegar sænska þungarokkshljómsveitin Heavy Load gaf frá sér lagið „Stronger than Evil“ sem er fyrsta víkingaþungarokkslagið þótt að það sé töluvert ólíkt víkingaþungarokkinu sem þróaðist í lok níunda áratugarins. Lagið er frekar rólegt og þar er ekki þetta myrka ívaf sem kemur frá svarta þungarokkinu, en þar er samt hvorki notað hljómborð eða einhver hljóðfæri sem gefa frá sér fornskandínavískan víkingatilfinningu, sem kemur seinna inn í þessa tónlist. Lagið „Stronger than Evil“ hafði áhrif á hljómsveitir sem spiluðu tónlist í þessum anda og endurskoðuðu sumar þeirra tónlistastefnur sínar og byrjuðu að spila víkingaþungarokk. Þrátt fyrir það þá náði víkingaþungarokkið aldrei gífurlegum vinsældum fyrr en fimm árum seinna, í kringum 1990, þegar svarta þungarokkið varð vinsælt, þá fóru víkingaþungarokksveitir að spretta upp um alla Skandinavíu og jafnvel í Norður-Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjum.
Svíþjóð
Eins og komið hefur fram, þá var hljómsveitin Heavy Load fyrsta hljómsveitin til að spila víkingaþungarokk þótt að hún væri stofnuð 1976, áður en víkingaþungarokkið kom fram. Hljómsveitin var fyrst þekkt fyrir að vera fyrsta þungarokkshljómsveitin í Svíþjóð en er núna þekkt fyrir að vera fyrsta hljómsveitin til að spila víkinga-þungarokk.[4] Árið eftir að lagið „Stronger than Evil“ kom út þá var sænska hljómsveitin Bathory stofnuð sem spilaði þungarokk en byrjaði ekki að spila víkingaþungarokkinu fyrr en 1990 þegar það datt í tísku hjá þungarokks aðdáendum.[5] Árið 1989 var sænska þungarokkssveitin Unleashed stofnuð og var hún fyrsta sænska hljómsveitin sem var stofnuð sem víkingaþungarokkssveit. Unleashed sækir innblástur í textana sína frá ásatrú og sögum eftir J.R.R. Tolkien sem var mikill aðdáandi ásatrúar og skandinavískra þjóðsagna.[6] Árið 1992 stofnuðu nokkrir Svíar hljómsveitina Amon Amarth sem kemur úr tungumálinu sindarin sem J.R.R. Tolkien bjó til og er það nafnið yfir Dómsdyngju sem er í sögu heimi hans.[7] Árið 1995 var hljómsveitin Månegarm stofnuð. Hljómsveitin dregur nafn sitt af úlfinum Mánagarmi (Hati Hróðvitnisson) sem eltir mánann þar til að hann nær honum þegar Ragnarök byrja og Fenrisúlfurinn sleppur.[8] Á sama ári var hljómsveitin Thyrfing stofnuð og kemur nafnið frá töfrasverðinu Tyrfing sem kemur fram í Snorra-Eddu.[9] Hljómsveitin Hel var stofnuð 1999 og er hún nefnd í höfuðið á dóttur Loka, Hel sem sér um Niflheima sem er staður þar sem menn fara sem hafa ekki dáið hetjulegum dauða í bardaga.[10]
Noregur
Hljómsveitin Burzum er ein af fyrstu norsku víkingaþungarokkssveitunum. Burzum þýðir myrkur á svarttungu sem er töluð í Mordor sem er í söguheimi J.R.R. Tolkiens[11]. Árið 1992 var hljómsveitin Helheim stofnuð og nafnið þýðir heimur Heljar eða Niflheimur og er þekktur fyrir mikinn kulda og sorg.[12] Hljómsveitin Einherjer var stofnuð í Noregi 1993 og þýðir nafn hljómsveitarinnar Einhverjar sem eru fallnir stríðsmenn sem berjast Valhöll.[13] Árið 1994 stofnuðu nokkrir norskir drengir hljómsveitina Kampaf. Hljómsveitameðlimirnir segja að Kampaf sé gamalt bardagaóp sem þýðir Óðinn.[14] Á sama ári og Kampaf var stofnuð þá voru norsku hljómsveitirnar Storm[15] og Windir[16] stofnaðar. Hljómsveitin Drottnar var stofnuð 1996 og kemur nafnið af íslenska orðinu drottinn sem er samheiti fyrir meistara og konung. Hljómsveitin einkennist af því að hljómsveitarmeðlimir klæðast rússneskum einkennisbúningum á sviði.[17] Árið 1998 var hljómsveitin Ásmegin stofnuð og þýðir nafnið „Máttur Ásana“.[18] Glittertind er þungarokks/pönkhljómsveit sem byrjaði sem einsmanns ferill 2001 en varð að hljómsveit 2010. Nafnið kemur af norsku fjalli sem mörg forn skáld hafa fengið innblástur af.[19]
Finnland
Árið 1992 var hljómsveitin Darkwoods My Betrothed en gekk hún fyrst undir nafninu Virgin Cunt og hefur hljómsveitin fengið þann titil að vera siðspilltasta þungarokkhljómsveit allra tíma.[20] Árið 1995 var hljómsveitin Ensiferum stofnuð í Helsinki, hljómsveitin segist spila „Hetju þjóðlagaþungarokk“. Hljómsveitin Turisas var stofnuð 1997 og hún er nefnd í höfuðið á forn finnska stríðsguðinum.[21]
Danmörk
Eina danska víkingaþungarokks hljómsveitin sem hefur náð vinsældum er hljómsveitin Svartsod og var hún stofnuð árið 2005.[22]
Færeyjar
Eins og í Danmörku þá er aðeins ein víkingaþungarokkshljómsveit sem hefur náð vinsældum og er það hljómsveitin Týr sem var stofnuð 1998. Nafnið kemur af ásinum Týr sem var stríðsgoðið. Hljómsveitin er talin vera ein vinsælasta víkingaþungarokkshljómsveit sem hefur verið stofnuð. Týr fjallar í lögum sínum töluvert um færeysku hetjuna Þránd í götu (Trónd í Gøtu) sem barðist gegn upptöku kristinnar trúar og var mjög sannur Ásunum, einnig syngja þeir um aðrar víkingahetjur.[23]
Ísland
Íslendingar eru mjög stoltir af forfeðrum sínum og eru margir íslenskir áhugamenn um ásatrú, Íslendingasögur og þungarokk. Þrátt fyrir það þá er aðeins ein íslensk víkingaþungarokkshljómsveit sem hefur náð miklum vinsældum og er það hljómsveitin Skálmöld. Skálmöld var stofnuð 2009 en nafnið kemur úr goðafræðinni og stendur það fyrir „öld sverðanna“ eða „lagaleysi“. Samkvæmt Snorra-Eddu þá kemur Skálmöld áður en Ragnarök skella á og þegar Skálmöldin skellur á þá fara allir að berjast.
Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 2010 sem heitir Baldur. Baldur hefur söguþráð sem gengur á milli laga á plötunni og ersagan samin af textahöfundi hljómsveitarinnar. Sagan fjallar um bóndann Baldur sem fer í hefndarför eftir dularfullri skepnu sem drap fjölskyldu hans og allt sem hann átti. Sagan endar á því að hann drepur skepnuna en deyr síðan sjálfur af sárum sínum og sameinast aftur fjölskyldu sinni í Valhöll.
Árið 2012 gaf Skálmöld út sína aðra plötu Börn Loka sem hafði einnig söguþráð. Sagan fjallaði um ungan mann, Hilmar að nafni, sem er munaðarlaus og flakkar á milli bæja með litlu systur sinni, Brynhildi. Kvöld eitt kemur Óðinn til hans og segir að honum að hann ætti að berjast við börn Loka og fá í laun víkingablóð og tryggan stað í Valhöll og segir honum að þrátt fyrir það að hann leysi þrautirnar þá þurfi hann að greiða gjafir goðana með sínum mestu verðmætum. Hilmar samþykkir þetta því hann telur sig hafa engu að tapa. Hilmar berst við Fenrisúlfinn, Miðgarðsorminn og Hel. Þegar hann kemur til baka til að ná í Brynhildi þá kemur Váli og tekur hana, þegar Hilmar finnur hana aftur þá er búið að binda hana niður með innyflum hennar og snákur seytlar eitri á hana síðan hverfur hún burt frá honum. Í enda sögunnar kemur í ljós að þetta var einn af mörgum sjúkum leikum Loka því nú gengur Hilmar um sem ódauðlegur maður og systir hans þarf að þjást fyrir það.[24]
Önnur lönd
Þrátt fyrir að ásatrú hafi aðallega verið stunduð á Norðurlöndunum þá hafa þónokkrar víkingaþungarokkshljómsveitir verið stofnaðar annarstaðar en þar. Þar á meðal er tékkneska hljómsveitin Trollech sem var stofnuð 1999 og syngja þeir um dverga, tröll og aðrar verur.[25] Einnig eru til töluvert margar víkingaþungarokks hljómsveitir frá Þýskalandi enda eru þeir nálægt Norðurlöndunum og áttu forfeður þeirra mikil samskipti. Einnig er til þónokkrar víkingaþungarokkshljómsveitir í Bandaríkjum.
Heimildir