Douglas Noël Adams (11. mars 1952 - 11. maí 2001) var breskur rithöfundur, þekktastur fyrir að hafa samið Hitchhikers Guide to the Galaxy og bækurnar um Dirk Gently.
Upphaf
Douglas Noël Adams fæddist þann 11. mars árið 1952 í Cambridge á Englandi. Hann hneigðist snemma til ritlistar og fékk til þess strax mikla hvatningu frá barnaskólakennurum. Hann fékk styrk til að læra ensku við Cambridge háskóla og þáði hann aðallega vegna þess að í Cambridge starfaði (og starfar enn) stúdentaleikfélagaið Cambridge University Footlights Dramatic Club sem skal hér eftir kallast Footlights. Honum var þó fyrst hafnað en þegar hann sótti um ári seinna var hann tekinn inn í leikfélagið. Það skal tekið fram að það árið sat Simon Jones í stjórn Footlights og átti því þátt í að hann var samþykktur í félagið. Mestu áhrifavaldar Adams voru Monty Python hópurinn en hluti hans hafði einmitt farið í gegnum Footlights og hann vildi gera eins og þeir, þ.e. skrifa efni og flytja það síðan sjálfur. Því var hann ekki sáttur við það, þegar hann átti stóran hluta efnisins í leiksýningu Fottlights, að hann fékk ekki að leika neitt í henni. Þó var það á einni af þessum sýningum þegar nokkuð fýldur Douglas Adams hitti mjög heillaðan Graham Chapman sem dáði margt af því sem hann hafði séð. Upp úr þessum kynnum hefst tiltölulega skammlíft en nokkuð árangursríkt samstarf. Árið 1975 fór Douglas í puttaferðalag um Evrópu og tók með sér bók sem hét leiðarvísir puttaferðalangsins að Evópu. Um tengsl þessarar bókar við The Hitchhiker's Guide to the Galaxy eru til sögur sem slá goðsögunum um Sálumessa Mozart við á marga vegu. Árið 1976 tók Adams að sér að leikstýra sýningu Footlights en það urðu honum þó nokkur vonbrigði.
The Hitchhiker's Guide to the Galaxy
Árið 1977 kom pöntun frá BBC um útvarpsleikrit. Úr því varð The Hitchhiker's Guide to the Galaxy, útvarpsleikrit í sex þáttum sem var send út í mars-apríl 1978, með hinum gamla og virta leikara Peter Jones og félaga úr Footlights klúbbnum Simon Jones í aðalhlutverkum sem Bókin og Arthur Dent. Því er haldið fram á síðum BBC að persóna Arthur Dent hafi verið sérstaklega hönnuð utan um Simon Jones. Sú þáttaröð var endurflutt tvisvar sinnum áður en árið var liðið og svo nokkrum sinnum eftir það en árið 1980 fylgdi önnur sex þátta þáttaröð og skömmu seinna kom bókin The Hitchhiker's Guide to the Galaxy út. Þar, eins og í bókinni The Restaurant at the End of the Universe er hlutum úr útvarpsleikritinu (þó ekki öllu) blandað saman við nýtt efni. Árið 1981 kom svo út sjónvarpsþáttaröð unnin upp úr útvarpsleikritinu.
Hinar þrjár bækurnar: Life, The Universe and Everything, So Long and Thanks For All the Fish og Mostly Harmless eru hins vegar sjálfstæðar framhaldssögur og óháðar útvarpsleikritunum en voru uppfærðar fyrir útvarpsleikrit, að verulegu leyti eftir dauða Adams og þriðja, fjórða og fimmta stig The Hitchhiker's Guide To The Galaxy voru flutt árin 2004-2005. Hafði Adams ætlað að vinna mikið í handritunum að nýju útvarpsleikritunum með leikstjóranum Dirk Maggs en lést því miður áður en sú vinna gat hafist. Þeir höfðu hinsvegar rætt mikið um leikritin áður en hann lést og margar hugmyndir í þeim komu frá Adams. Með hjálp tækninnar gat Adams einnig leikið persónuna Agrajag en notuð var upptaka af upplestri Adams úr bókinni Life, the Universe and Everything.
Eftir The Hitchhiker's Guide to the Galaxy
Adams var mikill náttúruverndarsinni og árið 1985 var honum boðið af WWF í leiðangur til Madagaskar að skoða Aye Aye lemúra. 18 mánuðum seinna var lagt upp í ferð til að skoða önnur nær-útdauð dýr með Mark Carwardine. Upp úr þessum leiðangri var unnin útvarpsþáttarröðin Last Chanse To See, en í henni „lék“ Peter Jones sambærilega rullu og í The Hitchhiker's Guide to the Galaxy, þulinn. Þessir útvarpsþættir voru svo, eins og The Hitchhiker's Guide to the Galaxy, yfirfærðir á bók. En rétt áður en farið var af stað í þann leiðangur kom fyrsta bókin um einkaspæjarann Dirk Gently, þ.e. Dirk Gently's Holistic Detective Agency. Ári seinna kom önnur Dirk Gently bók The Long Dark Teatime Of the Soul út. Hann var einnig mikill áhugamaður um tækni og tölvur og sá um marga útvarpsþætti, m.a. The Hitchhiker's Guide To The Future þar sem hann fjallaði um framtíðarsýn sína um tölvur og hinn stafræna heim. Hann gaf, með Terry Jones út tölvuleikinn Starship Titanic árið 1999. Hann skrifaði nokkuð af öðru efni á tíunda áratugnum og var með nokkur járn í eldinum þegar hann dó úr hjartaáfalli þann 11. maí árið 2001 í Santa Barbara á suðurströnd Kaliforníu, 49 ára að aldri.
Ritverkalisti
Hitchhikers Guide to the Galaxy þáttaröðin
Dirk Gently þáttaröðin
Önnur verk