Zhejiang

Zhejiang (kínverska: 浙江; rómönskun: Zhèjiāng) er hérað á austurströnd Alþýðulýðveldisins Kína. Sem strandhérað liggur Zhejiang við Austur-Kínahaf en handan þess liggja Ryukyu-eyjar. Það er síðan afmarkað af héruðunum Fujian í suðri, Jiangxi í suðvestri, Anhui í norðvestri og Jiangsu í norðri, og borghéraðinu Sjanghæ í norðaustri. Héraðið nær yfir 101.800 ferkílómetra.

Nafn héraðsins er dregið af aðalfljóti þess Qiantang-fljóti sem rennur að ósum Hangzhou-flóa. Fljótið hér áður Zhe Jiang („Krókótt áin“) og gaf héraðinu nafn.

Um aldir hefur Zhejiang verið ein af stóru menningar- og bókmenntamiðstöðvum Kína. Landslag héraðsins er þekkt fyrir mikla fegurð.

Landsvæði Zhejiang var stjórnað af konungsríkinu Yue. Qin keisaraveldið innlimaði það síðar árið 222 f.Kr. Á tímum Ming og Tjingveldanna urðu hafnir Zhejiang mikilvægar miðstöðvar alþjóðaviðskipta. Stærsti hluti héraðsins var hernuminn af Japan í seinna kínverska-japanska stríðinu (1937–1945). Eftir ósigur Japans og valdatöku Maó Zedong staðnaði efnahagur Zhejiang mjög.

En eftir efnahagsumbætur síðari ára í Kína, hefur Zhejiang dafnað og er nú talið eitt af auðugustu héruðum Kína. Þrátt fyrir að vera ein minnsta stjórnsýslueiningin meðal héraða Kína, er héraðið engu að síður eitt af þeim þéttbýlli og efnaðri. Það er stundum sagt „burðarás Kína“ þar sem það er stór driffjöður í kínverska hagkerfinu.

Hagkerfi Zhejiang byggist á raf- og efnaiðnaði, framleiðslu textíls, matvæla og byggingarefnis. Héraðið þykir mjög framarlega í framleiðni landbúnaðar og er leiðandi í teframleiðslu og fiskveiða í Kína.

Íbúar Zhejiang héraðsins eru 57 milljónir. Höfuðborg þess og stærsta borgin er Hangzhou. Meðal annarra athyglisverðra borga héraðsins eru Ningbo og Wenzhou.

Héraðið er einnig fæðingarstaður nokkurra athyglisverðra einstaklinga, þar á meðal leiðtoga kínverska þjóðernissinna Chiang Kai-shek og athafnamannsins Jack Ma.

Myndir

Tenglar

Heimildir

Tilvísanir

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!