Sveitarfélagið Vogar (áður Vatnsleysustrandarhreppur) er sveitarfélag á norðanverðum Reykjanesskaga. Vogar eru fámennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum með tæplega 1400 íbúa (2023). Flestir íbúar sækja vinnu annars staðar, t.d til Reykjavíkur eða Keflavíkur, en áður byggðist atvinnulífið að mestu á sjósókn. Sveitarfélagið nær yfir bæinn Voga og Vatnsleysuströnd og út á hálft Hvassahraun. Sveitarfélagið nær líka yfir Þráinsskjaldarhraun sunnan Reykjanesbrautar. Víkin sem þorpið stendur í heitir Vogavík en þorpið hét áður Kvíguvogar og Vogastapi sunnan þorpsins hét Kvíguvogabjörg. Í Stakksfirði undan Vogastapa eru góð fiskimið, sem voru kölluð „Gullkistan“. Vogar eru í 14 km fjarlægð frá Reykjanesbæ og 25 km fjarlægð frá Hafnarfirði. Meirihluti íbúa býr í bænum Vogum, en um 100 manns í dreifbýli.
Staðhættir Voga eru þeir að byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni, þó ekki samfelld. Nokkrir bændur voru nokkuð á undan sinni samtíð og urðu brautryðjendur á ýmsan hátt. Bóndi nokkur í Vogum keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn. Þá var annar bóndi á Vatnsleysuströnd sem kom fyrstur manna fram með þá hugmynd að friða Faxaflóa fyrir erlendum fiskveiðiskipum.
Strax á landnámsöld kemur staðurinn við sögu. Jörðin Stóru-Vogar var höfuðból um aldir og fylgdu því mörg smábýli. Á öldum áður var hálfkirkja í Vogum en sóknarkirkja sveitarinnar er á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd.
Margir fallegir staðir eru í nágrenni Voga svo sem Kálfatjarnarkirkja, Staðarborg, Vogastapi og Vogatjörn.