Stöð 2 fór í loftið 9. október þetta sama ár sem áskriftarstöð með læstri dagskrá þar sem þurfti að kaupa lykilnúmer og slá inn í myndlykil til að afrugla útsendinguna. Jón Óttar var sjónvarpsstjóri og þau Vala Matt voru áberandi á skjánum þessa fyrstu daga stöðvarinnar. Dagskráin var byggð upp á aðkeyptu afþreyingarefni, leiknu íslensku skemmtiefni og fréttum. Erfiðlega gekk að fá fjárfesta til að taka þátt í starfseminni til að byrja með. Í byrjun árs 1987 voru áskrifendur um fimm þúsund, en voru orðnir tæplega þrjátíu þúsund fyrir árslok. Á sama tíma fjölgaði starfsfólki og stöðin fór í samkeppni við RÚV um dagskrárgerðarfólk og fréttamenn.
Allar stöðvar verða Stöð 2
Margar systurstöðvar voru starfræktar undir sama fyrirtæki en árið 2008 voru þær allar sameinaðar undir nafn stöðvar 2, þannig varð íþrótta-stöðin Sýn að Stöð 2 Sport. Sirkus varð að Stöð 2 Extra og Fjölvarpið varð að Stöð 2 Fjölvarp aftur á móti hélt Stöð 2 Bíó sínu nafni.
Íslenskir þættir
Fréttatengt
Kvöldfréttir, öll kvöld
Ísland í dag, Umsjónarmenn þáttarins fara yfir helstu tíðindi dagsins úr pólitík, menngingu og mannlífinu. Ítarlegur íþróttapakki og veðurfréttir.
Dagvaktin, framhald Næturvaktarinnar, þar sem þremenningarnir eru farnir að vinna í Hótel Bjarkarlundi með skemmtilegum afleiðingum.
Gnarrenburg, gamanspjallþáttur. Gestgjafi var Jón Gnarr og settist hann að í Gnarrenburg í framtíðinni, litlum hafnarbæ í Norður-Þýskalandi.
Fangavaktin, þremenningarnir eru nú komnir á Hraunið vegna glæpa sem þeir frömdu í Dagvaktinni. Ýmsar nýjar persónur bætast við og lenda þeir félagar í ýmsum ævintýrum innan fangelsisveggjanna.
Idol stjörnuleit, íslensk útgáfa raunveruleikaþáttarins American Idol. Kynnar voru Simmi og Jói en í dómarasætunum sátu m.a. Þorvaldur Bjarni, Sigga Beinteins, Bubbi Morthens, Jón Ólafsson, Selma Björnsdóttir og Björn Jörundur.
Bandið hans Bubba, einn stærsti viðburður Stöðvar 2 árið 2008. Bubbi Morthens lagði allt undir í leit að sannri rokkstjörnu framtíðarinnar, einhverjum sem söng á íslensku, fyrir íslenska rokkþjóð. Þátturinn var í beinni útsendingu og einn keppandi féll úr leik hverju sinni, þar til eftir stóð nýr söngvari fyrir Bandið hans Bubba.