Hún starfaði sem lögfræðingur hjá Verslunarráði Íslands 1999–2005, sat í Dómstólaráði 2004–2009, starfaði sem héraðsdómslögmaður hjá lögmannsstofunni LEX 2007–2015. Sigríður sat í nefnd um heildarendurskoðun laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, 2013–2014 og gegndi embætti Dómsmálaráðherra frá 11. janúar 2017 til 14. mars 2019.
Sigríður sat í stjórn Andríkis, útgáfufélags 1995–2006 og í ritstjórn Vefþjóðviljans 1995–2006. Hún var Í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1996–1997, í stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2005–2009. Formaður Félags Sjálfstæðismanna í Vestur- og Miðbæ 2006–2009. Formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins 2007–2011. Sigríður var einn stofnenda Advice-hópsins og talsmaður gegn Icesave 2011 og sat í stjórn Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins 2013–2017.[2]
Sigríður kom illa út úr prófkjöri Sjálfstæðismanna í aðdraganda Alþingiskosninga árið 2021 og gaf því ekki kost á sér til endurkjörs.[3]
Fyrir Alþingiskosningar 2024 ákvað Sigríður að ganga til liðs við Miðflokkinn og bjóða sig fram sem oddviti. [4]
Ráðherratíð Sigríðar einkenndist af nokkrum deilumálum, ekki síst um skipanir hennar á fimmtán dómurum í Landsrétt árið 2017. Sigríður fór þar ekki eftir hæfnismati dómnefndar á umsækjendum í stöðurnar og réð ekki fjóra af þeim dómurum sem hæfnisnefndin hafði metið hæfasta í starfið. Þeirra í stað réð hún meðal annars dómara sem voru persónulega tengdir henni og flokksfélögum hennar.[5] Sigríður sagðist hafa aukið vægi dómarareynslu í eigin hæfnismati á umsækjendunum.[6]
Tveir af þeim umsækjendum sem voru ekki ráðnir þrátt fyrir að hafa verið metnir meðal þeirra 15 hæfustu af hæfnisnefnd lögsóttu í kjölfarið ríkið. Í desember árið 2017 dæmdi Hæstiréttur Íslands gegn Sigríði og úrskurðaði að hún hefði brotið stjórnsýslulög með skipuninni og hefði átt að óska eftir nýju hæfnismati ef hún teldi hinu fyrsta ábótavant. Vegna dómsins hlutu umsækjendurnir tveir hvor um sig 700 þúsund króna miskabætur frá ríkinu.[6] Í mars næsta ár lagði stjórnarandstaðan fram vantrauststillögu gegn Sigríði á Alþingi en tillagan var felld með 33 atkvæðum gegn 27.[7]
Þann 1. janúar árið 2018 var lögð fram krafa um að Arnfríður Einarsdóttir, einn af dómurunum sem Sigríður skipaði gagnstætt mati hæfnisnefndar, yrði metin vanhæf sem dómari í dómsmáli hjá Landsrétti vegna annmarka við ráðningu hennar. Málið fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem dæmdi þann 12. mars árið 2019 að einn af þeim dómurum sem dæmdu mál fyrir Landsrétti hefði verið ólöglega skipaður.[8]
Vegna úrskurðar Mannréttindadómstólsins ákvað Sigríður að stíga tímabundið til hliðar sem dómsmálaráðherra þann 14. mars 2019.[9] Afsögn hennar reyndist varanleg og Sigríður sneri aldrei aftur á ráðherrastól.