Luis Alberto Cubilla Almeida (f. 28. mars1940 - d. 3. mars2013) var knattspyrnumaður frá Úrúgvæ. Hann var einn sigursælasti leikmaður sinnar þjóðar og vann fjölda meistaratitla á ferli sínum bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann keppti fyrir hönd landsliðs sinnar þjóðar í þremur heimsmeistarakeppnum í knattspyrnu á árabilinu 1962-74.
Ævi og ferill
Cubilla fæddist í bænum Paysandú við vesturlandamæri Úrúgvæ. Sautján ára gamall gekk hann til liðs við stórlið Peñarol frá Montevídeó. Með Peñarol varð Cubilla úrúgvæskur meistari fjögur ár í röð frá 1958-61. Hann var jafnframt tvívegis meistari í Copa Libertadores undir merkjum liðsins. Árið 1962 flutti hann sig yfir Atlantsála og lék í tvær leiktíðir með spænsku risunum í Barcelona þar sem hann varð bikarmeistari árið 1963.
Eftir dvölina á Spáni lá leiðin fyrst til River Plate. Eftir fjögur ár í Argentínu hélt hann aftur heim til Úrúgvæ þar sem Cubilla gekk til liðs við hitt stærsta félagið í heimalandinu, Nacional. Þar endurtók hann afrekið og varð úrúgvæskur meistari fjögur ár í röð, 1969-72 auk þess að sigra einu sinni í Copa Liberatores. Síðasta keppnistímabil Cubilla sem leikmanns var árið 1976 þegar hann lék með Defensor Sporting sem vann sinn fyrsta meistaratitil í sögunni það ár og þann níunda á ferli Cubilla.
Landsliðsferillinn
Luis Cubilla lék 38 landsleiki og skoraði í þeim 11 mörk á tímabilinu 1959-74. Á HM í Síle 1962 kom hann við sögu í tveimur leikjum og skoraði m.a. fyrsta mark Úrúgvæ í keppninni í 2:1 sigri á Kólumbíu. Átta árum síðar lék hann í fimm af sex leikjum sinna manna á HM í Mexíkó 1970. Hann kom Úrúgvæ yfir á móti Brasilíu í undanúrslitunum en leiknum lauk þó með 3:1 sigri brasilíska liðsins sem varð heimsmeistari. Á HM í Vestur-Þýskalandi 1974 tók Cubilla þátt í tveimur leikjum en komst ekki á blað.
Þjálfunarferillinn
Fljótlega eftir að keppnisferli Cubilla lauk sneri hann sér að þjálfun og stýrði hann fjölda liða um gjörvalla rómönsku ameríku frá 1979 til 2012, ári áður en hann lést.
Fyrsta liðið sem hann stýrði var Olimpia frá Paragvæ og átti hann eftir að vera viðloðandi liðið með hléum um áratuga skeið. Undir hans stjórn varð Olimpia níu sinnum paragvæskur meistari og fór tvívegis með sigur af hólmi í Copa Liberatores (1979 og 1990). Í fyrra skiptið varð liðið einnig heimsmeistari félagsliða eftir sigur á Malmö FF.
Cubilla varð einnig úrúgvæskur meistari sem stjóri Peñarol árið 1981 og stýrði úrúgvæska landsliðinu frá 1990-93.