Paragvæ er landluktland í Suður-Ameríku með landamæri að Argentínu í suðri og suðvestri, Brasilíu í norðaustri og Bólivíu í norðvestri. Heiti þess er dregið af nafni Paragvæfljóts sem rennur í gegnum mitt landið frá norðri til suðurs. Landið er stundum kallað „hjarta Ameríku“ vegna legu þess í miðri álfunni.
Langflestir íbúa landsins búa í suðausturhlutanum, þar af nærri þriðjungur í eða við höfuðborgina, Asúnsjón. Frumbyggjamálið gvaraní er útbreiddara en spænska en bæði málin eru opinber tungumál landsins. Efnahagur Paragvæ byggist aðallega á landbúnaði, einkum sojabaunaræktun og nautgriparækt. Paragvæ er fjórði stærsti sojabaunaframleiðandi heims. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt undanfarin ár er talið að milli 30 og 50% íbúa landsins búi við fátækt.
Heiti
Landið dregur nafn sitt af Paragvæfljóti (Ysyry Paraguai á gvaraní). Uppruni heitisins er óviss. Samkvæmt munknum Antonio Ruiz de Montoya sem skrifaði á 17. öld er nafnið dregið af gvaraníorðunum paragua („fjaðrakóróna“) og endingunni -y („vatn“ eða „á“). Spænski fræðimaðurinn Feliz de Azara stakk upp á því á 18. öld að nafnið væri dregið af heiti indíánaættbálksins Payaguá sem bjó við ána. Ýmsar aðrar skýringar eru til á nafninu, eins og að það merki „mikið fljót“ eða „hérna megin árinnar“.
Landfræði
Paragvæfljót skiptir landinu í tvö landfræðilega aðgreind svæði; austurhéraðið (Región Oriental), líka þekkt sem Paraneña, og vesturhéraðið (Región Occidental), sem er líka þekkt sem Chaco og er hluti af láglendinu Gran Chaco. Mörk héraðanna liggja um Paragvæfljót. Paragvæ liggur milli 19. og 28. gráðu suðlægrar breiddar og 54. og 63. gráðu vestlægrar lengdar og situr á Steingeitarbaugnum. Landið er að mestu grösugar sléttur með skógi vaxnar hæðir í austurhlutanum. Í vestri eru láglendar sléttur. Fimmtán þjóðgarðar eru í Paragvæ. Stærstu náttúruverndarsvæðin eru í Chaco-héraðinu eins og Defensores del Chaco (720 þúsund hektarar af um milljón hekturum alls í Chaco-héraði). Í austurhéraðinu eru til dæmis Cerro Cora-þjóðgarðurinn og Ñacunday-þjóðgarðurinn þar sem Ñacunday-fossar eru.
Paragvæ á landamæri að þremur miklu stærri ríkjum: Bólivíu, Argentínu og Brasilíu. Á þremur stöðum við landamæri Paragvæ mætast landamæri þriggja ríkja.
Veðurfar
Í Paragvæ er ríkjandi hitabeltisloftslag og hlýtemprað loftslag með regntíma og þurrkatíma. Vindur hefur mikil áhrif á veður í Paragvæ. Frá október til mars blása hlýir vindar frá Amasón í norðri, en frá maí til ágúst blása kaldir vindar frá Andesfjöllum.
Þar sem engin fjöll standa í vegi fyrir vindum geta þeir náð allt að 161 km/klst hraða. Þetta getur leitt af sér snöggar hitabreytingar. Milli apríl og september geta þeir jafnvel fallið niður fyrir frostmark. Janúar er heitasti sumarmánuðurinn með 28,9˚ meðalhita.
Úrkoma er mjög breytileg eftir landsvæðum, með mikla úrkomu í austurhlutanum og hálfþurrt loftslag vestast. Skógarbeltið austast fær 170 cm meðalúrkomu árlega meðan Chaco-svæðið í vestri nær einungis 50 cm. Í vestri fellur úrkoman óreglulega og gufar hratt upp, sem eykur enn á þurrka svæðiðsins.
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Paragvæ er skipt í sautján sýslur og eitt höfuðborgarsvæði (distrito capital). Landið skiptist líka í tvö héruð: Vesturhéraðið eða Chaco-hérað (Boquerón, Alto Paraguay og Presidente Hayes) og Austurhéraðið (allar hinar sýslurnar og höfuðborgarsvæðið). Sýslurnar skiptast svo aftur í mismörg umdæmi.
Paragvæ hefur notið mikils hagvaxtar milli 1970 og 2013, með 7,2% vöxt á ári að meðaltali. Árin 2010 og 2013 var hagvöxtur í Paragvæ meiri en í nokkru öðru Suður-Ameríkulandi, 14,5% og 13,6% hvort árið.[2]
Árið 2010 lýsti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því yfir að innan við 10% af verkafólki í Paragvæ greiddi í lífeyrissjóð. 95% af lífeyriskerfi Paragvæ liggur í tveimur sjóðum, einum fyrir einkageirann og einum fyrir opinbera starfsmenn (og fyrrum hermenn úr Chaco-stríðinu). [3]
Öll raforka í Paragvæ er framleidd með vatnsaflsvirkjunum. Framleiðslugeta Paragvæ er 8.110 MW og framleiðslan er 63 milljarðar KWh á ári, en innanlandsneysla er aðeins 15 milljarðar KWh. Paragvæ selur umframorku til nágrannaríkjanna og er stærsti útflutningsaðili raforku í heimi.[4] Tvær stórar virkjanir sjá landinu fyrir allri raforkuframleiðslu þess. Þar af er Itaipu-virkjunin langstærst, en hún er önnur stærsta vatnsaflsvirkjun heims.
Óformlegi geirinn myndar stóran hluta hagkerfisins, sem felst í endursölu innfluttra neysluvara til nágrannalanda, auk mikils fjölda örfyrirtækja og götusala. Efnahagslífið hefur orðið fjölbreyttara síðustu áratugi, þar sem raforkuframleiðsla, framleiðsla á varahlutum og fataiðnaður hafa rutt brautina.[5] Paragvæ státar af einu stærsta fríverslunarsvæði heims, Ciudad del Este, á eftir Miami og Hong Kong.[6]
Stór hluti íbúanna í sveitum landsins lifir að mestu af sjálfsþurftarbúskap. Vegna þess hve óformlegi geirinn er stór er erfitt að gera sér nákvæma mynd af umfangi hagkerfisins. Hagkerfið óx hratt milli 2003 og 2013 vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs á neysluvörum sem, ásamt hagfelldu veðurfari, efldi útflutning landsins. Hagvöxturinn dró þó ekki úr fátækt, sem er talin hrjá 26% landsmanna, heldur jók bilið á milli ríkra og fátækra hratt.