Jóhanna Kristjónsdóttir (fædd 14. febrúar 1940, látin 11. maí 2017) var íslenskur rithöfundur og blaðamaður.
Menntun og starfsferill
Jóhanna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1959. Ári síðar kom fyrsta skáldsaga hennar, Ást á rauðu ljósi út. Jóhanna gaf bókina út undir höfundarnafninu Hanna Kristjánsdóttir en fljótlega kom í ljós hver höfundurinn var. Jóhanna hóf blaðamannsferil sinn á Vikunni árið 1958 og starfaði um tíma sem blaðamaður á Tímanum. Frá 1967-1995 var hún blaðamaður á Morgunblaðinu og sinnti lengst af erlendum fréttum. Jóhanna stofnaði Félag einstæðra foreldra og gegndi þar formennsku um árabil. Að loknum starfsferli sínum á Morgunblaðinu hélt hún til náms til Egyptalands og lærði arabísku í eitt ár. Árið 1998 fór hún til Sýrlands í áframhaldandi nám í arabísku og þaðan til Jemen árið 2001. Auk þessa sinnti Jóhanna fararstjórn um Líbanon og Sýrland ásamt því að kenna námskeið í arabísku í Tómstundaskólanum Mími. Jóhanna stofnaði Fatímusjóðinn árið 2005, sem beitti sér fyrir menntun stúlkna í Jemen og fyrir margvíslegri neyðaraðstoð í Afríku og Mið-Austurlöndum. Sjóðurinn var m.a. í samstarfi við UNICEF og safnaði tugmilljónum króna fyrir börn í neyð.
Jóhanna var gift Jökli Jakobssyni leikritaskáldi og gaf út endurminningabókina Perlur og steinar - Árin með Jökli, um hjónaband þeirra. Árið 2014 gaf hún út aðra endurminningabók, Svarthvítir dagar og sagði þar frá uppvaxtarárum sínum. Börn Jóhönnu og Jökuls eru Elísabet Kristín Jökulsdóttir skáld, Illugi Jökulsson blaðamaður og rithöfundur og Hrafn Jökulsson blaðamaður, rithöfundur og formaður Taflfélagsins Hróksins. Einnig átti Jóhanna dótturina Kolbrá Höskuldsdóttur.
Ritverk Jóhönnu
- 1960 Á rauðu ljósi: Reykjavíkursaga
- 1963 Segðu engum
- 1967 Miðarnir voru þrír
- 1988 Fíladans og framandi fólk: á ferð með augnablikinu um fjarlæg lönd
- 1989 Dulmál dódófuglsins: á ferð með augnablikinu um fjarlæg lönd.
- 1991 Flugleiðin til Bagdad
- 1993 Perlur og steinar - Árin með Jökli
- 1996 Á leið til Timbúktú: ferðaljóð
- 1997 Kæri Keith
- 2001 Insjallah: Á slóðum Araba
- 2004 Arabíukonur: samfundir í fjórum löndum
- 2014 Svarthvítir dagar[1]
Heimildir
- ↑ „Jóhanna Kristjánsdóttir“. Sótt 29. apríl 2019.