Ranavalona 3.

Skjaldarmerki Hova-ætt Drottning Madagaskar
Hova-ætt
Ranavalona 3.
Ranavalona 3.
Ríkisár 30. júlí 188328. febrúar 1897
SkírnarnafnRazafindrahety
Fædd22. nóvember 1861
 Amparibe, Manjakazafy, Madagaskar
Dáin23. maí 1917 (55 ára)
 Algeirsborg, Alsír
GröfAmbohimanga, Madagaskar
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Andriantsimianatra
Móðir Raketaka
EiginmaðurRainilaiarivony

Ranavalona 3. (22. nóvember 1861 – 23. maí 1917) var síðasta drottning Madagaskar. Hún ríkti frá árinu 1883 til 1897 og reyndi án árangurs að koma í veg fyrir að landið lenti undir nýlenduyfirráðum Frakka.

Æviágrip

Ranavalona fæddist undir nafninu Razafindrahety. Hún var valin úr hópi ungra aðalskvenna til að gerast drottning eftir að frænka hennar, drottningin Ranavalona 2., lést árið 1861. Ranavalona var þá þegar gift, en forsætisráðherra landsins, Rainilaiarivony, lét slíta hjónabandi hennar eftir krýningu hennar og kvæntist henni sjálfur. Rainilaiarivony hafði áður verið kvæntur síðustu tveimur drottningum á undan henni og hafði verið forsætisráðherra í stjórnum þeirra.[1] Sem slíkur sá hann að mestu leyti um daglega stjórn og utanríkismál Madagaskar.

Stjórnir Madagaskar höfðu eftirlátið Evrópumönnum nokkur áhrif á eyríkinu eftir tímabil einangrunarstefnu á stjórnartíð Ranavalonu 1. drottningar, en staða ríkisins gagnvart þessum nýlenduveldum var mjög viðkvæm. Á valdatíð sinni reyndi Ranavalona 3. að spyrna á móti nýlenduvæðingu Madagaskar með því að rækta nánari verslunar- og stjórnmálasambönd við Bandaríkin og Bretland. Frakkar gerðust æ ágengari gagnvart eyjarskeggjum og sóttust í auknum mæli yfir stjórn á landinu. Árið 1885 stofnuðu Frakkar nokkurs konar verndarsvæði á eyjunni og gerðu síðan allsherjar innrás í Madagaskar árið 1894. Frakkar gerðu árásir á hafnarbæi landsins og bundu árið 1895 loks enda á sjálfstæði Madagaskar með því að leggja undir sig drottningarhöllina í höfuðborginni Antananarívó.

Nýja franska nýlendustjórnin sendi Rainilairarivony umsvifalaust í útlegð til Algeirsborgar. Ranavalona og hirð hennar fengur fyrst um sinn að sitja áfram sem táknrænir þjóðhöfðingjar en þegar uppreisn braust út árið 1897 og Frakkar urðu áskynja launráðum gegn þeim innan hirðarinnar var drottningin handtekin og konungsveldið leyst upp.[2] Drottningin var send í útlegð til frönsku eyjarinnar Réunion.[3] Rainilaiarivony lést sama ár og Ranavalona var í kjölfarið flutt á setur í Algeirsborg ásamt ættingjum sínum. Þar bjuggu þau við talsverðan munað með lífeyri frá frönsku stjórninni og fóru stundum til Parísar í verslunar- og skoðunarferðir. Ranavalona fékk þó aldrei að snúa heim til Madagaskar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir sínar til franskra stjórnvalda. Hún lést úr segareki árið 1917 í Algeirsborg, þá 55 ára gömul. Hún var jarðsett þar í borginni en kista hennar var grafin upp 21 árum síðar og flutt til Madagaskar. Þar var henni komið fyrir í grafhýsi Rasoherinu drottningar í Antananarívó.

Þóra Kristinsson hitti hina herteknu drottningu Ranavalona 3 í París árið 1898 og lýsir henni svo í grein í Kvennablaðinu árið 1901:

Drottningin er lítil vexti og grannvaxin, andlitsdrættirnir eru mjög líkir og á svertingjum; varirnar þykkar, hárið svart og hrokkið, en litarhátturinn mórauður; augun blíðleg og allt viðmótið viðkunnanlegt. Hún var klædd eptir nýjustu tízku. Hún var í gulleitum kjól ofnum rósum, og með hvítan hatt, settum svörtum fjöðrum. Föðursystir hennar var með henni; hún var í svörtum silkikjól, og hafðí á höfði eins hatt og drottningin. Með henni var einnig systurdóttir hennar, lítil telpa 5 ára gömul; hún var i bleikrauðum kjó) og með eins litan hatt. Drottningin er næstum ávallt eins klædd; því að sagt er, að hún eigi ekki mjög mikinn klæðnað til skiptanna, og hefur sú uppástunga því staðið hjer í blöðunum,að stjórnin gæfi henni svo mikið af kjólum og höttum, sem henni geðjaðist. Frakkar eru eigi mjög rífir við hana......Hún getur lítið talað frakknesku, en hún hefur þó lært og vanið sig á að segja ýmsar þær setningar, sem lýsa aðdáun hennar að einhverju. Ein af konum þeim, sem með henni voru, sagði mjer síðan, að Ranavalouna hefði sagt sjer, að hún hefði verið kveldinu áður í leikhúsmu og hefði skemmt sjer ágætlega. »Hvaða leik sá yðarhátign?« »Veit ekki«, svaraði Ranavalouna og hristi höfuðið brosandi. Þeir sem hafa haft tækifæri til að tala við hana, hrósa blíðleik hennar og eptirlátsemi, en hinir andlegu hæfilegleikar hennar eru eins og hjá óþroskuðubarni; hún er hrædd og feimin, og gagnvart Frökkum hefur húh aðdáanlega haldið loforð sín, þau er hún gaf sigurvegaranum þann dag, er sigurinn var unninn. »Það er gjört. Jeg er ambátt Frakklands*, sagði hún þennan dag með mikilli stillingu og kurteisi."[4]

Tilvísanir

  1. „Madagaskar“. Nýtt dagblað. 6. maí 1942. Sótt 7. mars 2019.
  2. Christian Roche (2011). L'Afrique noire et la France au XIXe siècle. Conquêtes et résistances. Éditions Karthala. bls. 202-204..
  3. „Madagascar“. Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi. 9. nóvember 1910. bls. 204.
  4. Þóra Kristinsson (27. júlí 1901). „Brjef frá Parísborg“. Kvennablaðið. bls. 50-53.


Fyrirrennari:
Ranavalona 2.
Drottning Madagaskar
(30. júlí 188328. febrúar 1897)
Eftirmaður:
Konungsveldið leyst upp


Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!