Nína Tryggvadóttir (fædd 16. mars1913, dáin 18. júní1968), skírð Jónína, var íslensk myndlistakona og ljóðskáld. Hún vann á ýmsum miðlum en málaði aðallega abstraktverk.
Ævi
Móðir Nínu hét Gunndóra Benjamínsdóttir, húsmóðir, og faðir hennar Tryggvi Guðmundsson, kennari að mennt en hann rak verslun á Seyðisfirði, þar sem Nína fæddist, fram að 1920 þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur. Nína átti tvo bræður, Ólaf fæddan 1910 og Viggó fæddan 1918 auk þess átti hún fimm hálfsystkin. Þegar til Reykjavíkur var komið hóf Nína nám við Barnaskóla Reykjavíkur og svo seinna við Kvennaskóla Reykjavíkur.
Ásgrímur Jónsson, listmálari, var nágranni fjölskyldunnar og hefur hann líklegast leiðbeint Nínu um meðferð og beitingu olíulita. Um þetta leyti hefur þó lítið borið á menningu og listum. Listvinafélagið var stofnað 1919 og heldur fyrstu formlega listaverkasýninguna sama ár.
Nína var ekki viss í sinni sök hvað hún ætti að gera. Foreldrar hennar hvöttu hana til þess að læra matseld en þá þegar var ljóst að hún hneigðist heldur til listrænnar tjáningar. Árið 1933 hóf Nína að læra listmálun hjá Finni Jónssyni og Jóhanni Briem listmálurum og tveimur árum seinna hélt hún til Kaupmannahafnar þar sem hún stundaði listnám á árunum 1935-39.
Að námi sínu loknu og stuttri dvöl í París undir lokin sneri Nína aftur heim til Íslands. Seinni heimsstyrjöldin skall á og Nína varð því áfram hér á landi þótt hana langaði aftur út. Þá hélt hún sína fyrstu einkasýningu í atvinnuhúsnæði kunningja árið 1942, níu árum áður en Listasafn Íslands var stofnað.
Á árunum 1943-46 dvaldi Nína í New York með styrk frá íslenska ríkinu. Þar stundaði hún, og annar Íslendingur, Louisa Matthíasdóttir, nám hjá þýskum listamanni, Hans Hofmann, sem flúið hafði stríðið. Á meðan á námi hennar stóð var Nínu boðið að sýna við listagallerí og sömuleiðis að vinna leikmynd við Macmillan leikhúsið við Columbia háskólann í New York sem þótti mikill heiður.
Á árunum strax eftir stríð var lítil gróska í listalífinu á Íslandi. Þá tók Nína þátt í róttækri sýningu er nefndist Septembersýningin, sem hópur ungra listamanna hélt haustið 1947, og vann við að myndskreyta bækur. Henni var boðið að sýna aftur í listagalleríi í New York í október 1948 og tók hún því fegins hendi. Nokkrum mánuðum síðar giftist hún Alfred L. Copley, þýskum lækni sem flúið hafði til Bandaríkjanna árið 1935 og reyndi nú fyrir sér sem myndlistarmaður. Hún sneri svo aftur til Íslands 1949 til þess að sækja eigur sínar en var þá meinað að ferðast aftur til Bandaríkjanna. Um þetta leyti var mikið fát í Bandaríkjunum í kringum „rauðu ógnina“, sem bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy blés upp. Nína hélt þó ótrauð af stað aftur til Bandaríkjanna en var sett í einangrunarbúðir og því næst vísað úr landi.
Nína og Alfred eignuðust dóttur, Unu Dóru Copley, áður en þau fluttust til Parísar haustið 1952. Þaðan fluttist fjölskyldan svo fimm árum seinna til Lúndúna þar sem Nína hélt tvær sýningar auk einnar í Þýskalandi áður en þau fluttust enn og aftur um set til New York árið 1959.
Sumarið 2018 ákvað Una Dóra Copley, dóttir Nínu, að gefa Reykjavíkurborg lístaverkasafn móður sinnar, um tvö þúsund verk sem eiga að fá samastað í Hafnarhúsinu.[1]