Margæs (fræðiheiti: Branta bernicla) er smávaxin gæsategund, um 60 sm löng. Stélið er svart og mjög stutt. Margæsir skiptast í þessar þrjár undirtegundir:
Vestræn margæs verpir í Norðvestur-Kanada, Alaska og Austur-Síberíu og hefur vetursetu aðallega á vesturströnd Norður Ameríku frá suður Alaska til Kaliforníu en einnig í austur Asíu, aðallega í Japan.
Búsvæði
Að vetrarlagi voru margæsir til skamms tíma einvörðungu strandfuglar og héldu til við sjó þar sem þær lifðu á marhálmi og þangi en átu einnig þörunga og smádýr. Kjörsvæði margæsa eru grunnir og skjólgóðir firðir og vogar þar sem eru lífríkar leirufjörur. Síðustu áratugi hafa margæsir einnig sótt í nýræktuð tún og ræktarland skammt frá sjó þar sem þær lifa á grasi og vetrarsánu korni. Þetta er hugsanlega hegðun sem margæsir hafa lært af öðrum gæsategundum.
Margæsir klippa gras í túnum þar sem þær eru á beit en rífa það ekki upp eins og grágæsir. [1]
Farleið margæsa við Ísland
Margæsir eru alfriðaðar á Íslandi. Þær eru fargestir á Íslandi og hafa hér viðkomu á leið til og frá varpstöðvum sínum í heimsskautahéruðum NA-Kanada. Fyrstu fuglarnir koma frá Írlandi í byrjun apríl og þeim fjölgar jafnt og þétt til 10. maí en þá er hámarki náð. Gæsirnar eru við strendur Faxaflóa og við sunnanverðan Breiðafjörð (við mynni Álftafjarðar) þangað til þær fljúga á brott síðustu daga maímánaðar. Þær fara héðan um 3000 km leið á varpstöðvar og er algengt að þær fljúgi þá leið í einni lotu á þremur sólarhringum. Leið þeirra liggur yfir Grænlandsjökul í allt að 2400 metra hæð yfir sjó. Þetta flug er mjög erfitt fyrir margæsirnar, þær eru spikfeitar, þær hafa safnað orkuforða og eiga því í erfiðleikum með að ná nógu mikilli flughæð til að komast yfir jökulinn.
Margæsir flytja með sér orkuforða af farstöð sinni á Íslandi til varpstöðva. Sú orka nýtist þeim við varp skömmu eftir komu á varpstöðvar. Staðsetning Íslands og milt loftslag gerir skilyrði til forðasöfnunar fyrir áframhaldandi flug mjög hagstæð og ráða miklu um viðgang stofnsins.
Árið 2018 fannst varp hjá margæs á Bessastaðanesi. Er það í fyrsta sinn sem vitað er um slíkt varp margæsa á Íslandi. [2]