Klakki (áður Exista) er íslenskt fjármálaþjónustufyrirtæki stofnað í júní 2001. Það var eitt stærsta íslenska fyrirtækið mælt í eigin fé. Fyrirtækið var skráð á íslenskan hlutabréfamarkað í september 2006.[1] Klakki var þekkt sem Exista þangað til að ákveðið var á hluthafafundi að breyta um nafn í september 2011.[2]
Meðal eigna Exista voru Vátryggingafélag Íslands, Lífís og Lýsing, sem Exista átti að öllu leyti; fjórðungshlutur í Kaupþingi Banka, 39,6% í Bakkavör Group og var stærsti hluthafinn í Símanum með 43.6% hlut.
Saga
Exista var skráð á markað í Bretlandi í júní 2006.[3] Í febrúar2007 tilkynnti fyrirtækið methagnað upp á ríflega 37 miljarða króna.[4] Jafnframt voru tilkynnt kaup á hlutum í finnska tryggingafélaginu Sampo Oyj að andvirði um 170 milljarða króna, samanlagður hlutur Exista er því 15,48% í fyrirtækinu.[5]
Í ágúst 2007 lauk Exista lántöku upp á 43 milljarða króna (~€500 milljónir). Mikil eftirspurn var hjá bankastofnunum eftir þáttöku og var því ákveðið að hækka lánsfjárhæðina um 300 milljónr króna. Alls tóku 27 bankar frá 12 löndum þátt í sambankaláninu. Umsjónarbankar eru Bayerische Landesbank, Fortis Bank, HSH Nordbank og Raiffeisen Zentralbank Österreich.[6]
Í byrjun árs 2008 féll úrvalsvísitalan, sem er vísitala byggð á gengi hlutabréfa 15 verðmætustu íslensku fyrirtækjanna, nokkuð hratt. Verðmæti Exista féll sömuleiðis. Sérfræðingur sænska blaðsins Dagens Industri skrifaði grein um fyrirtækið og sagði það vera mjög skuldsett og eiga í erfiðleikum. [7]