Körfuknattleikur eða körfubolti er hóp- og boltaíþrótt sem leikin er af tveimur fimm manna liðum. Markmið hvors liðs er að skora körfu hjá andstæðingnum og koma í veg fyrir að andstæðingurinn nái knettinum og skori körfu.
Körfubolti er innanhússíþrótt og að því leyti hentug til áhorfs. Körfubolti er leikinn á tiltölulega litlum leikvelli, aðeins eru tíu leikmenn á vellinum samtímis, og þeir nota stóran bolta sem auðvelt er að fylgja eftir. Að auki eru leikmenn yfirleitt ekki með neinar líkamshlífar, sem gerir viðbrögð þeirra sýnilegri. Þetta er ein vinsælasta íþróttin í Bandaríkjunum, og er einnig vinsæl í öðrum heimshlutum, svo sem í Suður-Ameríku, Evrópu, Asíu, og Litháen.
Sagan
Upphaf körfuknattleiks
Körfuknattleikur er óvenjulegur að því leyti að íþróttin var í raun búin til af einum manni. Árið 1891 vantaði dr. James Naismith[1], kanadískan prest í KFUM háskóla í Springfield, Massachusetts[2], innanhússleik sem sameinaði þrek og þokka, til að hafa ofan af fyrir ungum mönnum yfir veturinn. Sagan segir að eftir að búið var að hafna öðrum hugmyndum, þar sem þær þóttu of ruddalegar eða henta illa inni í litlum íþróttasal, hafi hann skrifað nokkrar grunnreglur, neglt upp ferskjukörfu á vegg íþróttasalarins og fengið nemendur sína til að hefja leik í hinni nýju íþrótt. Fyrsti opinberi leikurinn fór fram þar þann 20. janúar 1892. Körfubolti naut vinsælda frá upphafi og í gegnum KFUM dreifðist íþróttin fljótt um gjörvöll Bandaríkin.
Þrátt fyrir að hafa upphaflega staðið að þróun og útbreiðslu köfuknattleiks leið varla áratugur þar til KFUM var farið að reyna að hindra iðkun íþróttarinnar, þar sem grófur leikur og ófriðlegir áhorfendur virtust spilla fyrir upphaflegu markmiði KFUM með íþróttinni. Önnur áhugamannafélög, háskólar og síðar atvinnumannafélög fylltu fljótlega upp í það tóm.
Körfuknattleikur var upphaflega leikinn með fótbolta. Þegar sérstakir boltar voru útbúnir fyrir íþróttina voru þeir upphaflega „náttúrulega“ brúnir á litinn. Það var ekki fyrr en á öndverðum sjötta áratug 20. aldar að Tony Hinkle - sem sóttist eftir bolta sem leikmenn og áhorfendur ættu auðveldara með að sjá - kynnti til sögunnar appelsínugula boltann sem nú er algengastur.
Háskólakörfubolti og fyrstu deildirnar
Naismith átti sjálfur mikinn þátt í að festa háskólaleikinn í sessi, en hann var þjálfari hjá Kansas háskóla(en) í sex ár áður en hinn nafntogaði þjálfari Phog Allen tók við af honum. Amos Alonzo Stagg, lærisveinn Naismiths, kynnti körfuboltann til sögunnar hjá Chicago háskóla(en), og Adolph Rupp, fyrrum nemandi Naismiths í Kansas, náðum miklum árangri sem þjálfari Kentucky háskóla(en). Fyrstu háskóladeildirnar voru stofnaðar upp úr 1920 og fyrsta landsmótið, National Invitation Tournament í New York, fór af stað 1938. Háskólaboltinn riðaði næstum til falls í kjölfar veðmálahneykslis á árunum 1948-1951, þegar tugir leikmanna úr bestu liðunum voru bendlaðir við að hagræða úrslitum leikja.
Upp úr 1920 voru hundruð atvinnuliða í borgum og bæjum Bandaríkjanna. Það var lítið sem ekkert skipulag á atvinnumannaleiknum. Leikmenn stukku óheft á milli liða, og lið léku í vöruskemmum og reykmettuðum danssölum. Deildir byrjuðu og hættu, og lið eins og New York Rens og Original Celtics léku upp undir tvöhundruð leiki á ári á ferðalögum sínum.
Körfuknattleikur á Íslandi
Körfuknattleikssamband Íslands
Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, var stofnað þann 29. janúar1961, þrátt fyrir mikla andstöðu annarra sérsambanda. Í fyrstu stjórn KKÍ voru Bogi Þorsteinsson, sem var kjörinn formaður, Benedikt Jakobsson, Matthías Matthíasson, Magnús Björnsson, Kristinn V. Jóhannsson, Ásgeir Guðmundsson og Helgi V. Jónsson. Bogi var formaður KKÍ í tæp níu ár samfleytt; frá stofnfundinum fram að aðalfundi 1. nóvember1969, þegar hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Snemma árs 2001 voru úrvalslið 20. aldar í karla- og kvennaflokki tilkynnt. Í hvoru liði voru 12 leikmenn. Einnig voru valdir þjálfarar og dómarar aldarinnar. Pétur Guðmundsson var valinn leikmaður aldarinnar í karlaflokki, en Anna María Sveinsdóttir í kvennaflokki.
Körfuknattleikur erlendis
NBA deildin
NBA deildin, National Basketball Association, var stofnuð árið 1946. Þar voru sett undir sama hatt bestu lið atvinnumannaliðin, og leiddi þetta til töluverðrar vinsældaaukningar íþróttarinnar. Önnur atvinnumannadeild, American Basketball Association (ABA) var stofnuð árið 1967 og átti um skeið í harðri samkeppni við NBA deildina, allt til ársins 1976 þegar deildirnar sameinuðust. Fjögur lið úr ABA hófu þátttöku í NBA, en hin liðin voru leyst upp. Í dag telur NBA deildin 30 lið, þar af eitt í Kanada.
Körfuknattleikur var fyrst með á Ólympíuleikum árið 1936, þó kynningarmót hafi verið haldið árið 1904. Bandaríkin hafa lengst af einokað þessa keppni, en landslið þeirra hafa aðeins þrisvar orðið af titlinum. Fyrsta skiptið sem það gerðist var í mjög umdeildum úrslitaleik í München árið 1972 gegn Sovétríkjunum.[3]
Heimsmeistaramót karla var fyrst haldið 1950 í Argentínu. Þremur árum seinna var fyrsta heimsmeistaramót kvenna haldið í Chile.
Árið 1989 ákvað framkvæmdastjórn FIBA að heimila atvinnumönnum þátttöku á Ólympíuleikum. Á Ólympíuleikunum í Barcelona1992 tóku atvinnumenn því í fyrsta skipti þátt. Yfirburðir Bandaríkjamanna voru algjörir á leikunum í Barcelona, en strax á næstu leikum var þetta orðið erfiðara og önnur landslið náðu þeim að áratug liðnum. Árið 2002 endaði lið, eingöngu skipað NBA leikmönnum, í sjötta sæti á heimsmeistaramótinu í Indianapolis, á eftir Serbíu og Svartfjallalandi, Argentínu, Þýskalandi, Nýja Sjálandi og Spáni. Á Ólympíuleikunum í Aþenu2004 komust Bandaríkjamenn aðeins í þriðja sæti á eftir Argentínu og Ítalíu.
Konur kepptu fyrst í körfuknattleik á Ólympíuleikunum 1976. Sterkustu þjóðirnar voru Bandaríkin, Brasilía og Ástralía.
Vinsældir körfuknattleiks á heimsvísu endurspeglast í þeim fjölda þjóða sem eiga fulltrúa í NBA deildinni, sem óhætt er að halda fram að sé sterkasta körfuboltadeild heims. Meðal þeirra „erlendu“ leikmanna sem leikið hafa í NBA eru Emanuel Ginobili frá Argentínu; Vlade Divac og Peja Stojakovic frá Serbíu; Toni Kukoc og Drazen Petrovic frá Króatíu; Tony Parker og Rudy Gobert frá Frakklandi; Andrei Kirilenko frá Rússlandi; Arvydas Sabonis og Sarunas Marciulionis frá Litháen; Dirk Nowitzki og Detlef Schrempf frá Þýskalandi; Carlos Arroyo frá Puerto Rico; Yao Ming frá Kína; Steve Nash frá Kanada; Luc Longley frá Ástralíu; Pau Gasol frá Spáni og Íslendingarnir Pétur Guðmundsson og Jón Arnór Stefánsson. Jón Arnór hefur reyndar ekki leikið í NBA deildarkeppninni, en var hins vegar samningsbundinn Dallas Mavericks tímabilið 2003-2004.
Reglur og reglugerðir
Markmið leiksins er að skora fleiri stig en andstæðingurinn með því að henda knetti ofan frá í gegnum körfuhring andstæðinganna, og reyna að koma í veg fyrir að þeir geti svarað í sömu mynt. Tilraun til að skora kallast skot, eða skottilraun. Tvö stig eru gefin fyrir heppnað skot, þrjú stig fyrir körfu sem skoruð er utan þriggja stiga línunnar (6,75 metrum frá körfunni), og eitt stig fyrir hvert heppnað vítaskot.
Tímaákvæði, leikhlé og leikmannaskipti
Í meistaraflokki er leiknum skipt í fjóra leikhluta sem eru tíu mínútur hver[4] (12 mínútur í NBA)[5]. Ef staðan er jöfn í lok venjulegs leiktíma er jafnan gripið til framlengingar sem stendur í fimm mínútur.[6] Leikirnir taka þó mun lengri tíma en sem svarar þessu, þar sem klukkan er aðeins látin ganga á meðan boltinn er í leik. Klukkan, sem látin er ganga niður, er t.d. stöðvuð þegar boltinn lendir utan vallar eða ef dæmd er villa. Hálfleikur er 15 mínútna langur, og hlé á milli leikhluta stendur í tvær mínútur. Í yngri flokkum gilda oft önnur tímaákvæði.
Leikhlé og leikmannaskipti eru leyfð í leiknum. Leikmannaskipti eiga sér stað þegar leikmaður yfirgefur völlinn, og sest á varamannabekkinn, og annar kemur inn í hans stað. Leikhlé er þegar þjálfari annars liðsins biður um að leiktíminn sé stöðvaður svo hann og lið hans geti ráðið ráðum sínum á svæði varamanna. Leikhlé stendur í eina mínútu samkvæmt alþjóðlegum reglum, en ýmist 100, 60 eða 20 sekúndur í NBA deildinni. Fjöldi leikhléa er takmarkaður. (Skv. alþjóðlegum reglum má hvort lið taka tvö leikhlé í fyrri hálfleik, þrjú í þeim seinni, og eitt í hverri framlengingu sem grípa þarf til. Í NBA má hvort lið taka sex 100/60 sekúndna leikhlé í öllum leiknum, en ekki fleiri en þrjú í síðasta leikhlutanum, og þrjú 100/60 sekúndna leikhlé í hverri framlengingu, auk eins 20 sekúndna leikhlés í hvorum hálfleik.)
Tæki
Einu nauðsynlegu tækin í körfuknattleik eru völlur, tvær körfur á spjaldi, og körfubolti. Í keppni er nauðsynlegt að hafa til staðar leikklukku til að hafa stjórn á leiktímanum. Í alvöru mótum, s.s. Íslandsmóti, landsleikjum og í atvinnudeildum, þarf oft að hafa fleiri tæki til staðar. Þar á meðal er skotklukka, ritaraborð og hávær flauta eða bjalla tengd leikklukku.
Boltinn sem notaður er í karlaflokki skal vera á bilinu 749 til 762 millimetrar í ummál, 238 til 242 mm í þvermál, og vega á bilinu 567 til 624 grömm. Kvennaboltinn er minni, og skal ummál hans vera 724-737 mm, þvermálið 230-235 mm, og þyngdin 510-567 grömm.
Knettinum leikið
Í körfuknattleik er knetti aðeins leikið með höndum og má senda, henda, blaka, rúlla eða rekja í hvaða átt sem er innan takmarkana sem settar eru í leikreglunum. Sending er þegar leikmaður hendir boltanum til samherja. Knattrak er þegar leikmaður dripplar (skoppar) boltanum viðstöðulaust, hvort sem hann hleypur, gengur eða stendur kyrr. Hvorki er leyfilegt að sparka viljandi í boltann né kýla hann með hnefa, og hann verður að vera innan marka leikvallarins.
Að hlaupa með boltann án þess að drippla honum er óleyfilegt og kallast skref. Sömuleiðis er tvírak eða tvígrip óleyfilegt, þ.e. að drippla með báðum höndum eða hefja knattrak að nýju eftir að hafa gripið boltann í kjölfar fyrra knattraks. Ekki má setja höndina undir boltann í knattraki, það kallast sóp. Í elstu flokkum gilda tímaákvæði um að koma knetti af varnarvelli yfir á sóknarvöll, það að vera í takmarkaða svæðinu (oftast kallað teigur), og að reyna skot á körfu.
Að eiga við knöttinn þegar hann er á niðurleið eftir skottilraun, og er allur fyrir ofan körfuhringinn, er óleyfilegt og kallast knatttruflun.
Villur
Villa er brot á leikreglum þegar um er að ræða ólöglega snertingu við mótherja og/eða óíþróttamannslega hegðun. Oftast er varnarmaður í hlutverki hins brotlega, en sóknarmenn geta líka brotið af sér. Venjulegar villur kallast persónuvillur. Leikmenn sem brotið er á fá knöttinn aftur til innkasts, eða þeir fá að taka vítaskot ef brotið var á þeim í skottilraun. Eitt stig er gefið fyrir að hitta úr vítaskoti, frá vítalínu sem er 4,5 metra frá körfunni.
Ef lið brýtur oftar en fjórum sinnum af sér í einum leikhluta (skv. alþjóðareglum og NBA reglum) fá mótherjarnir að taka vítaskot í hvert sinn sem villa er dæmd það sem eftir lifir leikhlutans. Þó eru aldrei gefin vítaskot þegar dæmd er sóknarvilla. Sóknarvillur, tvívíti og tæknivillur eru ekki taldar til liðsvillna í NBA, öfugt við alþjóðakörfuboltann.
Leikmaður eða þjálfari sem sýnir af sér óíþróttamannslega hegðun, svo sem að rífast við dómara, getur fengið dæmda á sig tæknivillu. Fái þjálfari tvær tæknivillur er honum gert að fara til búningsherbergis. Grófar villur, þar sem ekki er reynt að leika knettinum, kallast óíþróttamannslegar villur. Fái leikmaður tvær óíþróttamannslegar villur í sama leiknum skal hann yfirgefa leikstað.
Ef leikmaður fær dæmdar á sig fimm villur í sama leiknum (sex villur í NBA) fær hann ekki að taka meira þátt í leiknum. Ef enginn varamaður er gjaldgengur inn á í hans stað, verður lið hans að halda leik áfram manni færri. Þannig getur lið haldið áfram leik með aðeins tvo leikmenn á vellinum.
Leikmenn
Í hverju liði eru fimm leikmenn[7] og allt að sjö varamenn. Fjöldi skiptinga í hverjum leik er ótakmarkaður, en leikmannaskipti eru aðeins heimil þegar leikklukkan er stopp.
Venjulega leika karlar í stuttbuxum og ermalausri treyju, og skóm með góðum ökklastuðningi. Konur hafa í gegnum tíðina m.a. leikið í pilsi og skyrtu, en í dag leika flestar konur í sams konar búningum og karlar.
Dómarar og starfsmenn ritaraborðs
Aðaldómari og einn til tveir meðdómarar dæma leikinn. Á ritaraborðinu eru starfsmenn sem stjórna leik- og skotklukku, halda utan um stigaskor á þar til gerðri skýrslu og gefa til kynna villufjölda einstakra leikmanna.
Dómarar leiksins eru venjulega í grárri stutterma treyju og svörtum síðbuxum. Þeir dæma villur, gefa til kynna hvort skoruð karfa er eitt, tvö eða þrjú stig og svo má lengi telja.
Algeng tækni og framkvæmd
Stöður
Fyrstu fimm áratugina sem körfuknattleikur var í þróun, skipaði hver leikmaður eina af eftirfarandi fimm stöðum: á vellinum voru tveir bakverðir, tveir framherjar og einn miðherji. Upp úr 1980 fóru stöðurnar að greinast meira og urðu eftirfarandi:
Stundum stillir þjálfarinn upp þriggja bakvarða sókn, skiptir þá öðrum framherjanna eða miðherjanum út fyrir bakvörð.
Skottilraun
Algengasta aðferðin við að skjóta knettinum og sú aðferð sem helst er mælt með, er þar sem boltanum er haldið með báðum höndum, en skotið með því að hreyfa úlnlið skothandarinnar snöggt niður á við þannig að boltinn færist fram á fingurna. Skotið klárast svo með því að boltinn rennur fram af fingurgómunum um leið og úlnliðurinn klárar sína hreyfingu. Handleggurinn stendur beint út frá líkamanum í 40° horni upp á við, hefur þannig byrjað að réttast út frá líkamanum við upphaf skottilraunarinnar og er beinn í lokin þegar boltanum er sleppt. Þegar hreyfingunni er lokið hefur höndin farið 180° frá því að hún studdi við boltann og „lafir“ nú sem dauð væri.
Sending
Sending er aðferð til að koma boltanum frá einum leikmanni til annars. Flestar sendingar eru þannig að leikmaður tekur eitt skref fram á við til að auka styrk sendingarinnar og fylgir á eftir með báðum höndum til að tryggja nákvæmni hennar.
Grunnsendingin er brjóstsending. Boltinn er sendur frá bringu sendandans að bringu þess sem sendingin er ætluð. Helsti kostur þessarar sendingar er að hún tekur stuttan tíma, þar sem sendandinn reynir að senda eins beint og mögulegt er.
Annars konar sending er gólfsending. Hér skoppar boltinn í gólfið u.þ.b. 2/3 vegalengdarinnar frá sendandanum. Eins og brjóstsendingin, á þessi sending að fara frá bringu að bringu og skal vera eins bein og hægt er, t.d. ætti boltinn ekki að vera farinn að leita niður aftur, eftir að hafa lent í gólfinu, áður en móttakandinn grípur hann. Á þennan hátt tekur sendingin stysta mögulega tíma. Það tekur lengri tíma að gefa svona sendingu en venjulega brjóstsendingu, en það er erfiðara fyrir mótherjana að komast inn í sendinguna á löglegan hátt. Þannig er þessi sending oft notuð þegar þröngt er á þingi, eða ætlunin er að senda fram hjá mótherja.
Ein sending er notuð til að senda yfir höfuð andstæðings. Þá heldur sendandinn boltanum fyrir aftan höfuð sér og sendir boltann yfir sig og andstæðinginn. Þessi sending drífur lengra en venjuleg brjóstsending.
Meginsjónarmið góðrar sendingar er að erfitt sé fyrir andstæðingana að komast inn í hana. Af þeim sökum eru langar bogasendingar yfirleitt ekki reyndar og sendingar þvert yfir völlinn eru afar fátíðar.
Hæð
Það telst körfuknattleiksmanni tvímælalaust til tekna að vera hávaxinn. Í atvinnudeildum eru flestir karlmenn yfir 180 cm háir, og flestar konur yfir 170 cm. Í atvinnudeildum karla eru bakverðir yfirleitt lægstu menn vallarins, en geta þó verið ansi hávaxnir. Framherjar eru flestir yfir tveir metrar á hæð. Margir miðherjar og einstaka framherjar eru meira en 210 cm háir. Hæstu leikmenn NBA deildarinnar frá upphafi eru Manute Bol og Gheorghe Muresan, báðir 231 cm háir.