Hrafn Sveinbjarnarson (1166? - 4. mars 1213) var íslenskur goðorðsmaður og læknir. Hann var af ætt Seldæla, sonur Sveinbjarnar Bárðarsonar á Eyri, sem einnig var þekktur fyrir læknislist sína, og konu hans Steinunnar Þórðardóttur. Hann fór með Dýrfirðingagoðorð. Hann bjó á Eyri við Arnarfjörð. Bærinn hefur síðar verið kenndur við hann og nefnist Hrafnseyri.
Hrafn var annálaðasti læknir á Íslandi á þjóðveldisöld. Hann ferðaðist til Noregs og hélt þaðan til helgra staða á Englandi, færði heilögum Tómasi Becket í Kantaraborg rostungstennur, og fór síðan í suðurgöngu til Rómar, kom meðal annars við í Santiago de Compostela á Spáni, fór um Frakklandi og Ítalíu og hélt síðan aftur norður til Noregs. Hann hefur vafalaust kynnt sér lækningar á ferðum sínum og er talið að rekja megi lækningaaðferðir hans til Háskólans í Salernisborg (Salerno) á Ítalíu. Hrafn kom svo heim, kvæntist og tók við búi á Eyri og goðorði sínu. Hrafn var ákaflega gestrisinn og vinsæll og var sagt um búskap hans að „öllum mönnum var þar heimill matur, þeim er til sóttu og örenda sinna fóru, hvort sem þeir vildu setið hafa lengur eða skemur. Alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. Hann átti og skip á Barðaströnd. Það höfðu allir þeir sem þurftu yfir Breiðafjörð. Og af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvárum tveggi firðinum fyrir hverjum, er fara vildi.“ Hann veitti líka öllum læknisþjónustu sem til hans leituðu og tók aldrei gjald fyrir.
Hrafn átti í langvinnri deilu við Þorvald Snorrason Vatnsfirðing, sem lauk svo að eftir margar tilraunir náði Þorvaldur honum loks á vald sitt eftir að hafa brotist með menn sína yfir Glámu í illviðri og lét hálshöggva hann á Eyri. Frá Hrafni segir í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar.
Kona Hrafns var Hallkatla Einarsdóttir. Þau áttu fjölda barna sem flest voru ung er faðir þeirra var drepinn. Elstu synirnir, Sveinbjörn (f. um 1200) og Krákur (f. 1203) hefndu föður síns er þeir brenndu Þorvald Vatnsfirðing inni 1228. Þeir börðust með Sturlu Sighvatssyni í Örlygsstaðabardaga og voru höggnir eftir bardagann. Ein systirin, Steinunn, var kona Odds Álasonar á Söndum, sem Órækja Snorrason drap, og móðir Hrafns Oddssonar. Önnur, Herdís, giftist Eyjólfi Kárssyni.