Hrafnseyri er gamall bæjarstaður á Vestfjörðum, staðurinn er nefndur í höfuðið á Hrafni Sveinbjarnarsyni sem bjó þar á 12. öld. Staðurinn var fyrst byggður á landnámsöld og nefndist þá Eyri. Jón Sigurðsson, sjálfstæðishetja Íslendinga, var fæddur á Hrafnseyri 17. júní1811 og í dag er þar Safn Jóns Sigurðssonar.
Í Landnámu segir að Ánn rauðfeldur og Grelöð, kona hans, hafi byggt þar bú því Grelöðu hafi þótt „hunangsilmur úr grasi“. Rannsóknir benda til þess að byggt hafi verið þar um 900. Þar nálægt eru Grelutóttir og fjallið Ánarmúli þar sem sagt er að Ánn hafi verið heygður.
Í Hrafns sögu, um Hrafn Sveinbjarnarson sem var goðorðsmaður á Sturlungaöld og bjó á Eyri, segir að hann hafi verið víðförull maður og ferðast til m.a. Salerno á Ítalíu, þar sem rekinn var læknaskóli og menntaðist þar. Hann var veginn af frænda sínum Þorvaldi Vatnsfirðingi. Hrafn er sagður grafinn undir bautasteini við Hrafnseyri.