Georgía Björnsson (18. janúar 1884 – 18. september 1958), fædd undir nafninu Georgia Hoff-Hansen, var eiginkona Sveins Björnssonar og þar með fyrsta forsetafrú Íslands.
Georgía fæddist í Danmörku til danskra foreldra. Faðir hennar var Hans Henrik Emil Hoff-Hansen, lyfjasali og jústisráð í Hobro á Jótlandi, en móðir hennar var Anna Catherine Hansen, sem rakti ættir sínar til jótlenskra presta og stórbænda. Georgía kynntist Sveini þegar hún dvaldi hjá systur sinni á Íslandi veturinn 1901-1902 og hitti hann aftur í Kaupmannahöfn nokkrum árum síðar. Georgía og Sveinn gengu í hjónaband árið 1908 og fluttu stuttu síðar til Íslands.[1] Þau eignuðust sex börn.
Georgía varð forsetafrú sextug að aldri þegar Sveinn var kjörinn fyrsti forseti nýja íslenska lýðveldisins þann 17. júní árið 1944. Áður hafði hún verið sendiherrafrú í Danmörku þegar Sveinn var sendiherra þar og síðar ríkisstjórafrú á Íslandi þau þrjú ár sem Sveinn gegndi því embætti. Hún var sæmd stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1946.[2]
Það kom að miklu leyti í hlut Georgíu að móta heimilisbraginn í embættisbústað forseta á Bessastöðum á upphafsárum embættisins. Hún þótti útsjónarsöm við val og uppröðun á húsgögnum og nýtti ýmis sambönd við áhrifafólk í sendiráði Íslands í London og í viðskiptalífinu til að annast innkaup fyrir forsetaembættið í útlöndum, m.a. á matvælum sem erfitt var að nálgast hér á landi á þessum tíma.[3]