Fossfjörður er stuttur fjörður, sem gengur til suðurs inn úr Arnarfirði. Hann er einn af Suðurfjörðum og er syðstur og næstvestastur þeirra. Fossfjörður er eini Suðurfjörðurinn, utan Bíldudalsvogs, sem enn er í byggð. Heitir bær í botni fjarðarins Foss en býlið Dufansdalur er í samnefndum dal í vesturhlíð Fossfjarðar. Er hann kenndur við Dufan, leysingja Áns rauðfelds Grímssonar landnámsmanns en Án bjó í Dufansdal áður en hann fluttist á Hrafnseyri norðan Arnarfjarðar.
Fyrsta surtarbrandsnáman sem grafin var á Íslandi var fremst í
Dufansdal og kölluð Dufansdalsnáman, og var hún grafin um 1904. Það mun hafa
verið Vestur-Íslendingurinn Sigurður Jósúa Björnsson sem stóð fyrir því
en verkið fjaraði út. Seinna var líka grafinn önnur náma í Þernudal sem ennfremur er í Fossfirði.