María Inés de la Paz García (1825-1844); María de los Dolores de Tosta (1844-1876)
Starf
Herforingi, stjórnmálamaður
Undirskrift
Antonio de Padua María Severino López de Santa Anna y Pérez de Lebrón (21. febrúar 1794 – 21. júní 1876),[1] oft einfaldlega kallaður Santa Anna[2] eða López de Santa Anna, var mexíkóskur stjórnmálamaður og herforingi sem barðist í sjálfstæðisstríði Mexíkó, fyrst með spænskum konungssinnum en síðan með mexíkóskum sjálfstæðissinnum. Santa Anna var mjög áhrifamikill í mexíkóskum stjórnmálum eftir sjálfstæði landsins. Hann var bæði kænn herforingi og stjórnmálamaður og hafði svo mikil áhrif á sögu Mexíkó á fyrri hluta nítjándu aldar að sagnfræðingar tala oft um hana sem „öld Santa Anna“.[3] Santa Anna var kallaður „örlagavaldur“ sem „gnæfði yfir samtíma sinn eins og magnþrunginn risi og ókrýndur einvaldur“.[4]
Santa Anna var í fyrstu á móti því að Mexíkó hlyti sjálfstæði frá Spáni en hann gekk um síðir í lið með sjálfstæðissinnum og barðist með þeim uns sjálfstæði Mexíkó var unnið árið 1821. Santa Anna var ekki fyrsti einræðisherrann eða caudillo sem réð yfir Mexíkó en hann varð táknrænn fyrir „hinn dæmigerða caudillo í sögu Mexíkó“.[5][6] Sagnfræðingurinn og stjórnmálamaðurinn Lucas Alamán hefur skrifað um Santa Anna að „með réttu væri hægt að kalla sögu Mexíkó frá árinu 1822 söguna af byltingum Santa Anna.... Nafn hans er í aðalhlutverki í öllum stjórnmálaviðburðum landsins og örlög landsins og hans voru óaðskiljanleg.“[7]
Santa Anna naut mikilla valda í heimalandi sínu. Ferill hans spannaði fjörutíu ár en á þeim tíma var hann ellefu sinnum forseti á 22 ára tímabili frá 1833 til 1855. Þegar Santa Anna var ekki forseti á þessu tímabili gerðist hann þess í stað áhrifamaður í hernum.[8] Hann var ríkur landeigandi og naut mikils stuðnings í hafnarborginni Veracruz auk þess sem hann var hetja í augum hermanna sinna. Honum tókst hvað eftir annað að viðhalda orðspori sínu þrátt fyrir að Mexíkó byði herfilega ósigra undir stjórn hans. Í dag líta margir Mexíkanar á Santa Anna sem einn þeirra helstu sem „brugðust þjóðinni“.[9] Ofuráhersla hans á miðstýringu og hernaðarósigrar hans leiddu til þess að Mexíkó glataði rúmum helmingi alls landflæmis síns, fyrst í byltingunni í Texas 1836 og síðan eftir ósigur í stríði við Bandaríkin árið 1848.
Santa Anna skipti oft um stjórnmálaskoðanir á ævi sinni; „tækifærissinnaðar stefnur hans gerðu hann ýmist frjálslyndan, íhaldssaman eða ókrýndan konung.“[10] Santa Anna var steypt af stóli í síðasta sinn árið 1854 og lifði þaðan af mestalla ævi sína í útlegð.
Tilvísanir
↑Callcott, Wilfred H., "Santa Anna, Antonio Lopez De," Handbook of Texas Online, accessed April 18, 2017
↑Howe, Daniel Walker (2007), What Hath God Wrought: The Transformation of America, 1815–1848, Oxford Univ. Press, bls. 660
↑For example, Costeloe, Michael P. The Central Republic in Mexico, 1835–1846: Hombres de Bien in the Age of Santa Anna. Cambridge: Cambridge University Press 1993.
↑Krauze, Enrique. Mexico: Biography of Power. New York: Harper Collins 1997, 88.
↑Archer, Christon I. "Fashioning a New Nation" in Michael C. Meyer and William H. Beezley, eds. The Oxford History of Mexico (2000) p. 323
↑Long, Jeff (1990), Duel of Eagles, The Mexican and U.S. Fight for the Alamo, Quill, bls. 85
↑Alamán, Lucas. Historia de México vol. 5. Mexico 1990, quoted in Krauze, Enrique. Mexico: Biography of Power. New York: HarperCollins 1997, p. 135.
↑Mead, Teresa (2016). A History of Modern Latin America. UK: John Wiley & Sons Inc. bls. 126–127.
↑Archer, Christon I. "Fashioning a New Nation" in Michael C. Meyer and William H. Beezley, eds. The Oxford History of Mexico (2000) p. 322