Guterres nam verkfræði við Tækniháskólann í Lissabon og fékk árið 1971 stöðu sem lektor í rafmagnsverkfræði við háskólann. Þann 25. apríl 1974 gekk Guterres í portúgalska Sósíalistaflokkinn og tók þátt í nellikubyltingunni gegn einræðisstjórn Portúgals. Í upphafi vantreystu sósíalistar Guterres vegna kaþólskrar trúrækni hans en hann ávann sér smám saman traust flokksins og hlaut ýmsar ábyrgðarstöður innan hans.[2][3][4] Árið 1976 var Guterres kjörinn á portúgalska þingið og frá 1979 til 1995 var hann formaður sveitastjórnarinnar í Fundão. Árið 1992 varð hann formaður Sósíalistaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar gegn stjórn Aníbal Cavaco Silva.
Eftir þingkosningar árið 1995 varð Guterres forsætisráðherra Portúgals og náði nokkrum vinsældum með alþýðlegri og málefnalegri framkomu sinni. Guterres stýrði störfum Evrópska ráðsins á fyrri helmingi ársins 2000 þar sem Portúgal fór með forsæti Ráðs Evrópusambandsins. Eftir kosningaósigur árið 2002 sagði Guterres af sér sem leiðtogi Sósíalistaflokksins og Eduardo Ferro Rodrigues tók við af honum. Hinn miðhægrisinnaði Jafnaðarmannaflokkur vann kosningarnar og José Manuel Durão Barroso tók við af Guterres sem forsætisráðherra.
Í október árið 2016 tilkynnti Guterres Öryggisráðinu að hann hygðist gefa kost á sér til að taka við af Ban Ki-moon sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Þann 13. október 2016 var Guterres kjörinn í embættið og tók við því þann 1. janúar 2017.[5] Guterres var endurkjörinn af Allsherjarþinginu og sór embættiseið í annað skipti þann 18. júní 2021. Núverandi kjörtímabili hans lýkur í árslok 2026.[1]