Kona Ólafs var Sigríður Magnúsdóttir (13. nóvember 1734-29. nóvember 1807), dóttir Magnúsar Gíslasonar amtmanns og Þórunnar Guðmundsdóttur konu hans. Börn þeirra voru Magnús Stephensen dómstjóri, Þórunn kona Hannesar Finnssonar biskups, Stefán Stephensen amtmaður, Björn Stephensen dómsmálaritari í yfirréttinum og Ragnheiður kona Jónasar Schevings sýslumanns.
Ævi
Ólafur var fæddur á Höskuldsstöðum á Skagaströnd og voru foreldrar hans Stefán Ólafsson prestur þar og fyrri kona hans, Ragnheiður Magnúsdóttir frá Espihóli. Hann fór í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan 1751, sigldi síðan og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla1754. Ólafur kvæntist Sigríði, dóttur Magnúsar Gíslasonar amtmanns, mesta valda- og virðingamanni á Íslandi. Í brúðkaupi þeirra leiddu biskupar brúðina til altaris en landfógeti og landlæknir leiddu brúðgumann.[1] Hann var fyrst bókhaldari við Innréttingarnar þar sem Magnús Gíslason var í forystu en árið 1756 var hann settur varalögmaður norðan og vestan. Síðar varð hann aðstoðarmaður Magnúsar Gíslasonaramtmanns tengdaföður síns og tók við embættinu er hann andaðist 1766 og flutti þá á Bessastaði. Þegar landinu var skipt í tvö ömt 1770 varð Ólafur amtmaður í Norður- og Austuramti. Árið 1783 fékk hann lausn frá embætti af því að hann vildi ekki flytja norður í land eins og ætlast var til og var Stefán Þórarinsson skipaður í staðinn.
Ólafur gerði út tugi báta til fiskveiða og nýtti sér fornan rétt landeigenda til að knýja leiguliða sína til að róa á bátum sínum og svipti þá jafnframt rétti til að gera út eigin báta. Ólafur var eindreginn andstæðingur hvers konar rýmkunar á kjörum leiguliða og var kröfuharður og óbilgjarn. Leiddi það m.a. til uppreisnar leiguliða 1785.[1] Magnús var settur af konungi til að stjórna sölu Skálholtsjarða sem hófst 1785 með það að markmiði stjórnvalda í Kaupmannahöfn að fjölga íslensku sjálfseignarbændum og bæta lífskjör bændastéttarinnar. Bestu jarðirnar lentu hins vegar flestar í höndum höfðingjanna og Stefánungar náðu sér í vænar sneiðar. Ólafur notaði stundum leppa til að dylja hver átti í hlut við jarðarkaupin og dæmi eru um hreina spilling við ráðstöfun jarðanna. Úthlíð í Biskupstungum var slegin ábúanda árið 1794 en Ólafur sá til þess að hann fengi ekki afsal og seldi jörðina góðkunningja sínum. Mörg dæmi um dómaskipan þar sem Stefánungar réðu á öllum stigum mála er að finna í Alþingisbókum frá þessum árum.[1]
En þegar suður- og vesturamtinu var skipt í tvennt 1787 varð Ólafur amtmaður í vesturamtinu og 14. apríl 1790 varð hann jafnframt stiftamtmaður, fyrstur Íslendinga í langan tíma. 1793 hafði hann amtaskipti og var skiptur yfir suðuramtið. Ólafi var vikið úr embætti 1803 vegna ásakana um spillingu. Hann fékk lausn frá embættum sínum 1806 en fékk að búa áfram endurgjaldslaust í Viðey, þar sem hann var þá. Fyrst hafði hann búið á Leirá í Leirársveit, síðan á Bessastöðum, Elliðavatni, í Sviðholti og á Innra-Hólmi.
Ólafur var all-afkastamikill rithöfundur. Meðal annars ritaði hann gagnlegar ritgerðir í lærdómslistafélagsritunum. Einnig liggur eftir hann prentuð reikningsbók, Stutt undirvísun í reikningslistinni og algebra, útgefin í Kaupmannahöfn árið 1785. Ólafur sagðist í formála hafa ritað kver sitt árið 1758 eftir dvöl sína í Kaupmannahöfn. Uppkastið hefði gengið manna á milli í uppskriftum og því hefði hann talið rétt að láta prenta það. Hann sendi Magnús Stephensen, son sinn, með handritið til prentunar haustið 1784. Í sjálfsævisögu Magnúsar kemur fram að Magnús umritaði kverið töluvert og bætti við það sex köflum af 26 eða 78 bls. af 248 bls. texta. Meðal annars bætti Magnús við kafla um tugabrot sem voru þá nýmæli í evrópskum kennslubókum fyrir almenning. Bókin var strax löggilt sem kennslubók í lærðu skólunum tveimur í Skálholti og á Hólum.
Ættir
Ólafur var ættfaðir Stefánunga og þótti mörgum nóg um veldi þeirra feðga og tengdamanna þeirra. Árið 1792 kom út í Kaupmannahöfn bókin Ærefrygt. Liste over Hr. Stiftamtmand Oluf Stephensens Familie i Island. Allene de beregnede som sidde i publiqve Embeder 1791. Höfundur var Halldór Jakobsson, fyrrum sýslumaður í Strandasýslu en þetta rit fjallaði um hve valdamiklir Stefánungar væru í íslensku samfélagi og hélt fram að ættin einokaði opinber embætti á Íslandi. Þegar bókin kom út var Ólafur Stefánsson stiftamtmaður og settur amtmaður í Suðuramti og skipaður amtmaður í Vesturamti. Í Norður- og austuramti sat systursonur hans Stefán Þórarinsson. Biskupinn á Hólum, Sigurður Stefánsson , var hálfbróðir Ólafs og Hannes FinnssonSkálholtsbiskup var tengdasonur Ólafs. Þegar Skúli Magnússon var leystur frá embætti 1793 þá var í hans stað settur Magnús Stephensen (f. 1762) sonur Ólafs.[2]
Meðal Stefánunga voru hjónabönd skyldmenna líklega tíðari en í nokkurri annarri fjölskyldu í landinu fyrr og síðar. Þeir bræður Magnús og Stefán Stephensen stofnuðu til hjónabanda nokkurra barna sinna.[1]
Jarðarför Ólafs
Ólafur andaðist í Viðey og var jarðsunginn þar 26. nóvember. Ekki voru við útför hans aðrir en börn hans og barnabörn, prestarnir Brynjólfur Sigurðsson dómkirkjuprestur í Seli og Árni Helgason á Reynivöllum og líkmenn. Í Árbókum Reykjavíkur stendur þetta: Þótti mörgum það kynleg ráðstöfun, þar sem í hlut átti sá, er allra Íslendinga hafði orðið æðstur að mannvirðingum.
Tilvísanir
↑ 1,01,11,21,3Guðmundur Magnússon. Íslensk ættarveldi.