Thomas Mun (17. júní 1571 – 21. júlí 1641) var breskur kaupsýslumaður og hagfræðingur. Mun var einn af stjórnendum Breska Austur-Indíafélagsins, og einn af mikilvægustu fulltrúum merkantílismans. Mun er iðulega talinn upphafsmaður klassísks ensks merkantilisma, ásamt Edward Misselden. Ásamt Misselden setti Mun fram kenningu um mikilvægi jákvæðs viðskiptajöfnuðar við umheiminn, frekar en afgang af viðskiptum við hvert ríki fyrir sig. Líkt og aðrir merkantilistar taldi Mun að uppspretta auðs væri að finna í utanríkisviðskiptum.[1][2]Adam Smith eyddi miklu púðri í að hrekja og gagnrýna kenningar Mun í riti sínu Auðlegð Þjóðanna.
Ævi
Thomas Mun kom af efnaðri kaupmannafjölskyldu í London. Fjölskyldan stundaði viðskipti með klæði og vefnaðarvöru, en afi hans var myntsláttumaður og einn af stjórnendum Konunglegu Myntsláttunnar. Ekkert er vitað um menntun Mun, en hann er talinn hafa öðlast þekkingu á viðskiptum og peningamálum í gegnum fjölskyldu sína og eigin reynslu af utanríkisviðskiptum.
Faðir Mun lést þegar hann var ungur. Stjúpfaðir hans var auðugur kaupmaður sem stundaði viðskipti við Austurlönd Fjær og starfaði Mun sem lærlingur í fyrirtæki stjúpföður síns. Mun hóf eigin rekstur 1596, með viðskiptum við Miðjarðarhaf, sérstaklega Ítalíu og Austurlönd Nær, Tyrkland, Sýrland og Líbanon.[3] Mun dvaldi löngum stundum erlendis, þar á meðal á Ítalíu.[1] Hann var einn af stofnendum Austur Indíafélagsins, og var árið 1615 kjörinn einn af stjórnendum þess, og var einn af mest áberandi og atkvæðamestu stjórnendum þess.
Thomas Mun kvæntist Ursulu Malcott þegar hann var 41 árs. Þau eignuðust saman börnin John, Mary og Anne og bjuggu þau öll saman í London. [3]
Framlög til hagfræði
Thomas Mun gaf út sitt fyrsta rit árið 1621, Ritgerð um viðskipti, frá Englandi til Austurlanda Fjær (enska: A Discourse of trade, from England unto the East Indies). Ritið var svar við gagnrýni á Austur-Indíafélagið, sem var sakað um að stuðla að neikvæðum viðskiptajöfnuði Englands, og að hafa þar með stuðlað að kreppu sem gekk yfir England á árunum 1618-1622.[2]
Upphaf þess má rekja til þess að félagið fjármagnaði viðskipti sín með því að flytja út góðmálma til að fjármagna viðskipti á erlendri grundu, sem margir töldu óeðlielega viðskiptahætti, og grafa undan velmegun og rýra auð Englands. Mun bendir á að ef félagið gæti ekki flutt gull og silfur úr landi til að borga fyrir vörur á Indlandi myndi það ekki binda endi á skort á gulli og góðmálmum í Englandi, heldur stöðva innflutning og hefta útflutning, því England þyrfti að flytja inn vörur og hráefni til að flytja áfram til annarra landa. "Peningar geta af sér viðskipti, og viðskipti geta af sér aukna peninga." Það sem skipti máli væri greiðslujöfnuður Englands við öll lönd, ekki hvort það væri neikvæður eða jákvæður jöfnuður í viðskiptum við einstaka ríki.[4].[2]
Mun hafnaði því að athafnir eða ætlanir einstaka kaupmanna stýrðu straumi peninga í alþjóðaviðskiptum eða gengisbreytingum, heldur væri það greiðslujöfnuður hagkerfisins við útlönd. Efnahagsstefna stjórnvalda ætti að stefna að jákvæðum viðskiptajöfnuði með öllum ráðum, efla útflutning, setja hömlur á innflutning munaðarvöru og styðja við einokunarfyrirtæki á borð við Austur Indíafélagið sem fluttu inn hráefni í iðnað, og fluttu út fullunnar vörur.
Mikilvægasta framlag Mun var rit hans Auður Englands með utanríkisviðskiptum (enska: England´s treasure by foreign trade) sem hann skrifaði í kringum 1630, en var ekki gefin út fyrr en 1664 af syni hans, John Mun. Ritið er talið eitt mikilvægasta hagfræðirit 17. aldar, þar sem það tekur saman allar helstu hugmyndir og kenningar kaupauðgisstefnunnar með skýrum hætti. Fyrir utan hugmyndina um viðskiptajöfnuð setur hann einnig fram hugmyndir um verðteygni útflutningsvöru, en fyrri hagfræðingar, á borð við Malynes, höfðu talið útflutning og innflutning fullkomlega óverðteyginn. Í ritinu gagnrýndi Mun bæði góðmálmaáherslu (enska bullionist) fyrri merkantilískra hagfræðinga, og skort enskra kaupsýslumanna á aga og fyrirhyggju og bendir á Holland sem fyrirmynd. Hann benti á Spán sem dæmi um misheppnaða hagstjórn, en þrátt fyrir að hafa aðgang að nánast óþrjótandi uppsprettu góðmálma í nýlendum sínum í Ameríku væri Spánn fátækt land. Ástæðan væri sú að Spánverjar fluttu inn meira af vörum en þeir fluttu út, sem yrði til þess að góðmálmar flæddu hraðar úr landi en inn.[5]