Adam Smith

Adam Smith
Adam Smith
Persónulegar upplýsingar
Fæddurfæðingardagur óþekktur, skírður 16. júní 1723Skotlandi)
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 18. aldar
(Nýaldarheimspeki)
Skóli/hefðKlassísk frjálshyggja
Helstu ritverkAuðlegð þjóðanna
Helstu kenningarAuðlegð þjóðanna
Helstu viðfangsefnihagfræði, stjórnspeki, siðfræði

Adam Smith (skírður 16. júní 172317. júlí 1790) var skoskur heimspekingur og er meðal áhrifamestu hagfræðinga allra tíma. Smith er einnig einn helsti hugsuður klassísks frjálslyndis og mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Rit hans Auðlegð þjóðanna, sem kom út 1776, var ein fyrsta tilraunin til að rannsaka þróun viðskipta og iðnaðar í Evrópu. Óumdeilt er að ritið hefur haft mikil áhrif á alla kenningasmíð um efnið allar götur síðan. Smith greiddi þannig veginn fyrir tilurð hagfræðinnar en auk þess er rit hans enn þá eitt helstu rita um kapítalisma.

Ævi og störf

Inquiry into the nature and causes of the wealth of nations, 1922

Adam Smith fæddist í smábænum Kirkcaldy í Skotlandi, faðir hans var tollgæslumaður en hann lést um hálfu ári fyrir fæðingu Adams. Fæðingardagur hans er óþekktur en vitað er að hann var skírður þann 16. júní 1723. Þegar Adam var aðeins fjögurra ára gamall rændi hópur sígauna honum en maður nokkur sem átti leið hjá lét vita af staðsetningu barnsins og því tókst að endurheimta hann heilu og höldnu. Á árunum 1729-37 stundaði Adam nám í latínu, stærðfræði, sögu og skrift við Burgh-grunnskólann. Hann hóf nám í Háskólanum í Glasgow fjórtán ára gamall þar sem hann nam undir leiðsögn Francis Hutcheson. Síðar stundaði hann nám við Oxford-háskóla en var ekki eins ánægður með námið þar og í Glasgow.

Árið 1748 hóf Smith kennslu við Háskólann í Glasgow. Hann var skipaður prófessor í rökfræði við háskólann árið 1751 en ári síðar gerðist hann einnig prófessor í siðfræði og gegndi þá sömu stöðu og fyrrverandi kennari hans Francis Hutcheson. Nokkrum árum síðar var hann skipaður skólameistari. Smith kynntist heimspekingnum David Hume í Glasgow árið 1750 og urðu þeir góðir vinir. Þeir deildu skoðunum um jafn margvísleg efni og sögu, stjórnmál og heimspeki, hagfræði og trúarbrögð. Í kennslu sinni fjallaði hann meðal annars um siðfræði, mælskufræði og hagfræði.

Adam gaf út fyrstu bók sína Kenningu um siðferðiskenndirnar (e.: A Theory of Moral Sentiments) 1759. Bókin náði talsverðum vinsældum, hún var m.a. rædd í Þýskalandi. Í árslok árið 1763 gerðist Smith einkakennari , Henrys Scott, stjúpsonar Charles Townshend hertogans af Buccleuch, vegna þess að kaupið var betra en við kennslu. Á árunum 1764-1766 ferðuðust þeir til Frakklands og Sviss. Í Frakklandi hittu þeir fyrir Voltaire, Turgot, D'Alembert, André Morellet, Helvétius og Francois Quesnay, lækni við hirð Loðvíks 15. og marga fleiri sem höfðu mikil áhrif á þá. Adam safnaði efni í bók um lögmál hagsældarinnar, sem tók hann 12 ár að ljúka. Auðlegð þjóðanna (e. An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) kom út 1776. Tveimur árum síðar var Smith boðin staða tollstjóra í Skotlandi. Hann tók hana og settist að í Edinborg, þar sem hann bjó til dauðadags. Hann lést af veikindum þann 17. júlí 1790. Auðlegð þjóðanna naut mikilla vinsælda þegar hún kom út og gerði Smith frægan. Til marks um vinsældir bókarinnar var hún þýdd á dönsku, frönsku, þýsku, ítölsku og spænsku fyrir dauða Adams Smith.

Smith lét eftir sig ýmis óbirt skrif en gaf fyrirmæli um að öllu skyldi fargað sem ekki væri útgáfuhæft. Hann taldi að rit sitt History of Astronomy (Saga stjörnufræðinnar) væri sennilega nógu vel úr garði gert til að það gæti birst á prenti og það kom út að honum látnum árið 1795 auk áður óbirtra skrifa um heimspeki undir titlinum Essays on Philosophical Subjects (Ritgerðir um heimspekileg efni).

Um persónu Smiths er tiltölulega lítið vitað. Hann kvæntist aldrei en virðist hafa verið náinn móður sinni alla tíð. Samtímamenn hans lýstu honum sem sérvitrum en vingjarnlegum manni, sem væri brosmildur en svolítið utan við sig. Hann var sagður hafa haft sérkennilegt göngulag og talsmáta. Þá var sagt að hann hefði tilhneigingu til þess að tala við sjálfan sig.

Hagfræði

Höfn í Frakklandi árið 1638 er merkantílismi stóð sem hæst.

Sú hugmyndafræði sem einkenndi viðskipti þessara tíma var merkantílismi. Í henni fólst sú trú manna að heildarmagn fjármagns eða verðmæta væri fasti og því væri mönnum hollast að safna sem mestum birgðum af gulli og silfri. Þannig væri hægt að auðgast fyrst og fremst með útflutningi varnings úr landi í staðinn fyrir gull og silfur.

Mikilvægasta framlag Smith til hagfræðinnar er rit hans, Rannsókn á eðli og orsökum auðlegðar þjóðanna, sem kom út 1776 (e: An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations). Ritið var ekki aðeins heilstæð greining á gangverki efnahagslífsins og uppsprettu auðs, heldur líka gagnrýni á viðteknar hugmyndir þess tíma sem gerðu ráð fyrir að ríkisvaldið ætti að leika lykilhlutverk í því að stýra viðskiptum, sérstaklega utanríkisviðskiptum.

Merkantílisminn hélt því fram að auður þjóðanna væri á enda kominn og að eina leiðin til að komast á rétt strik væri að safna gulli og tollvörum erlendis frá. Samkvæmt þessari kenningu ættu þjóðir að selja vörur sínar til annarra landa en kaupa ekkert í staðinn. Fyrirsjáanlega lentu lönd í lotum hefndartolla sem kæfðu alþjóðaviðskipti.

Rit Smith fól í sér tvær meginhugmyndir sem deildu á merkantílismann. Önnur er að eins gróði þurfi ekki alltaf að vera annars tap. Allir geti grætt á frjálsum viðskiptum, því að í þeim nýti þeir sér ólíka aðstöðu og hæfileika hver annars. Verkaskiptingin sé helsta orsök auðlegðar þjóðanna. Hin hugmyndin er, að atvinnulífið geti verið skipulegt án þess að þurfa að vera skipulagt. Sjálfstýring á markaði geti komið í stað miðstýringar, frjáls viðskipti í stað valdboðs. Þetta náttúrlega jafnvægi sem hér er lýst stýrist af lögmálum framboðs og eftirspurnar. Eitt þekktasta niðurstaða Smith er sú að lögmál markaðarins sjái til þess að einstaklingar sem hver um sig er aðeins að leita að því að hámarka eigin ábata vinni í raun saman að efla allra hag. Hann lýsti þessu þannig að "ósýnilega hönd" markaðarins stýrði framleiðsluþáttum með hagkvæmustum hætti og tryggði lægst verð til neytenda.[1]

Adam Smith hélt því fram að með því að gefa öllum frelsi til að framleiða og skiptast á vörum eins og þeir vildu og opna markaði fyrir innlendri og erlendri samkeppni, ásamt verkaskiptingu í hagkerfinu, myndi eiginhagsmunur fólks stuðla að meiri hagsæld en með ströngum reglum stjórnvalda sem kæfir markaðinn.

Adam Smith gagnrýnir hlutverk stjórnvalda í markaðsstarfi og telur að stjórnvöld ættu að gegna öðrum hlutverkum. Hann segir stjórnvöld eiga að einbeita sér að því að vernda landamæri, framfylgja lögum og að þau ættu að stunda opinber störf og nefnir hann menntun sem dæmi.[1]

Adam Smith taldi að ríkið hefði nauðsynlegu hlutverki að gegna, og má því færa rök fyrir því að hann hafi aðhyllst blandað hagkerfi. Þau þrjú hlutverk sem hann nefnir í bók sinni Auðlegð þjóðanna eru:

  1. að verjast árásum annarra ríkja
  2. vernda borgara ríkisins fyrir árásum annarra borgara
  3. ráðast í þær framkvæmdir og sinna þeirri þjónustu sem einstaklingar sjá sér ekki hag í að gera, m.ö.o. veita samgæði

Hann hélt því fram að þegar hækka þarf skatta í þessum tilgangi, þá ætti að hækka þá í hlutfalli við greiðslugetu fólks, það ætti að vera á ákveðnum taxtum frekar en handahófskennt, það ætti að vera auðvelt að borga og það ætti að miða að því að hafa sem lægstu afleiðingar. Stjórnvöld ættu að forðast skattlagningu á fjármagn, sem er nauðsynlegt fyrir framleiðni þjóðanna. Þar sem mest af útgjöldum þeirra er til núverandi neyslu, ættu þeir einnig að forðast að byggja upp miklar skuldir, með því að draga fjármagn frá framtíðarframleiðslu.[2] [3]

Hugmyndir Smiths fóru sigurför um heiminn á skömmum tíma, í kjölfar iðnbyltingarinnar er talað um gullöld (hnattrænna), frjálsra viðskipta á árunum 1870-1914. Á fyrri hluta 20. aldar olli fyrri heimsstyrjöldin, Rússneska byltingin og Kreppan mikla því að tekin var upp viðskiptastefna einangrunar og hafta. Eftir seinni heimsstyrjöldina jókst umfang ríkisins mikið alveg fram að níunda áratugnum þegar nútímahugmyndafræði frjálshyggju fékk byr undir báða vængi.

Siðfræði

Einn kjarninn í kenningu Smiths í Auðlegð þjóðanna er að „ósýnileg hönd“ leiði menn til að vinna að almannahag, þegar þeir ætli sér aðeins sjálfir að vinna að eigin hag. Til þess að græða verði þeir að fullnægja þörfum annarra, það dugi ekki að framleiða vöru heldur þarf líka að finna henni kaupanda. Ein þekktasta tilvísunin í Auðlegð þjóðanna er dæmi sem Adam Smith nefnir þar sem hann útskýrir hvernig það sé ekki af manngæsku sem slátrarinn, bruggarinn eða bakarinn selja fólki mat heldur síngirni þeirra. Í viðskiptum reynist náungakærleikurinn ekki eins vel og matarástin. Í frjálsum viðskiptum gildir gagnkvæmni.

Þetta hefur sumum þótt ganga þvert á boðskap Smiths í Kenningu um siðferðiskenndirnar um, að siðferðisvitund manna mætti rekja til samúðar með öðru fólki. Töluðu þýskir spekingar á 19. öld um „Das Adam Smith Problem“ í þessu sambandi. En þessa þversögn má leysa með því að gera greinarmun á tvenns konar gildissviði hugmynda. Í frjálsum viðskiptum á alþjóðlegum markaði, þar sem menn þekkja ekki hver annan og eru ekki vandabundnir, hugsa þeir um eigin hag. Í samskiptum innan fjölskyldu eða í þröngum vinahóp, gilda aðrar reglur, þar sem menn eru vandabundnir. Hvort tveggja á sinn eðlilega vettvang, matarástin og náungakærleikurinn.

Trúarskoðanir

Fræðimenn hafa deilt um hverjar trúarskoðanir Smiths voru. Faðir Smiths hafði mikinn áhuga á kristni og tilheyrði skosku kirkjunni. Hugsanlegt er að Smith hafi flutt til Englands með það fyrir augunum að hefja frama innan ensku kirkjunnar. Í Oxford hafnaði Smith kristinni trú og almennt er talið að hann hafi verið frumgyðistrúar þegar hann sneri aftur til Skotlands en um það er deilt.

Helstu verk

Heimildir

  1. 1,0 1,1 Adam Smith (2018). The Wealth of Nations.
  2. „The Wealth of Nations“. Adam Smith Institute (bresk enska). Sótt 3. september 2021.
  3. GradeSaver. „The Wealth of Nations Summary | GradeSaver“. www.gradesaver.com (enska). Sótt 3. september 2021.
  • Heilbroner, Robert L (1995). The Worldly Philosophers (7. útg). Simon & Schuster. ISBN 0-684-86214-X.
  • Buchan, James. The Authentic Adam Smith: His Life and Ideas (W.W. Norton & Company, 2006).
  • Campbell, R.H. Adam Smith (Routledge, 1985).
  • Coase, R.H. „Adam Smith's View of Man“, The Journal of Law and Economics 19 (3) (1976): 529–546.
  • Haakonssen, Knud (ritstj.). The Cambridge Companion to Adam Smith (Cambridge University Press, 2006).
  • Hollander, Samuel. Economics of Adam Smith (University of Toronto Press 1973).
  • Muller, Jerry Z. Adam Smith in His Time and Ours (Princeton University Press, 1995).
  • Rae, John. Life of Adam Smith (Macmillan Publishers, 1895).
  • Ross, Ian Simpson. The Life of Adam Smith (Oxford University Press, 1995).

Tenglar

erlendir tenglar


Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!