Soldánsdæmið Aceh (acehmál: Keurajeun Acèh Darussalam; jawi: دارالسلام) var soldánsdæmi á norðurodda Súmötru þar sem nú er indónesíska héraðið Aceh. Það var stofnað af Ali Mughayat Syah sem talinn er sonur síðasta konungs Champa á Malakkaskaga áður en Víetnamar lögðu það ríki undir sig. Soldánsdæmið var eitt öflugasta ríkið í Suðaustur-Asíu á 16. og 17. öld en hnignaði hægt eftir það. Bretar stóðu vörð um sjálfstæði ríkisins gegn ásælni Hollendinga en með samningum 1870-1871 þar sem Englendingar fengu Gullströndina í skiptum fyrir Súmötru gátu Hollendingar lagt Aceh undir sig. Árið 1874 flúði soldáninn Mahmud Syah frá höfuðborginni Kutaraja (síðar Banda Aceh). Síðasti soldáninn, Tuanku Muhammad Daudsyah Johan Berdaulat, gafst formlega upp fyrir Hollendingum árið 1903.